Talið er, að um 500 milljónir manna eða þriðjungur jarðarbúa árið 1918 hafi smitast af spánsku veikinni og af þeim hafi um tíu af hundraði látist, um 50 milljónir manna.

Talið er, að um 500 milljónir manna eða þriðjungur jarðarbúa árið 1918 hafi smitast af spánsku veikinni og af þeim hafi um tíu af hundraði látist, um 50 milljónir manna. Ein skýringin á því, hversu skæð veikin varð, var fátæktin á þeim tíma, vannæring, þéttbýli í lökum húsakynnum og skortur á hreinlæti. Við búum sem betur fer við miklu betri aðstæður. Hagvöxtur er afkastamesti læknirinn.

Á Íslandi létust 484 úr spánsku veikinni, en um skeið lágu tveir þriðju hlutar Reykvíkinga rúmfastir. Thor Jensen var þá umsvifamesti útgerðarmaður landsins. Að beiðni bæjarstjórnar Reykjavíkur sendi félag hans, Kveldúlfur, togara til veiða, þegar bærinn var að verða matarlaus, og gaf hann fiskinn bæjarbúum endurgjaldslaust. Og hinn 22. nóvember setti Thor upp almenningseldhús. Hann fékk lánað húsnæði undir það, en greiddi allan annan kostnað úr eigin vasa. Í matskálanum voru samtals framreiddar um 9.500 máltíðir, en rösklega 7.000 máltíðir voru sendar til þeirra, sem ekki áttu heimangengt. „Að voru viti hefur enginn höfðingi þessa lands, hvorki fyrr né síðar, sýnt aðra eins rausn,“ skrifaði Morgunblaðið 16. desember 1918.

Einnig rak Tómas Jónsson matvörukaupmaður eldhús, nokkru minna, og gaf mat og mjólk. Í Barnaskóla Reykjavíkur við Tjörnina var sett upp farsóttarheimili, og var Garðar Gíslason stórkaupmaður yfirbryti þar. Var hann kallaður „hjálparhellan“, því að honum tókst jafnan að útvega nauðsynjar, þegar aðrir stóðu ráðalausir.

Í veirufaraldrinum, sem nú geisar, hafa úrræðagóðir framkvæmdamenn líka látið að sér kveða. Kunnast er auðvitað framtak Kára Stefánssonar í Íslenskri erfðagreiningu, en óhætt er að segja, að róðurinn hefði orðið þyngri, hefði hans ekki notið við. Mér er kunnugt um, að forstjórar nokkurra annarra fyrirtækja hafa lagt nótt við dag við útvegun nauðsynlegs tækjabúnaðar, og hafa fyrirtækin borið kostnaðinn. Hafa þessir menn nýtt sér erlend viðskiptasambönd, sýnt fádæma þrek og sigrast á ótal erfiðleikum. Þotur fullar af margvíslegum búnaði fljúga ekki ókeypis eða fyrirhafnarlaust frá Kína til Íslands. Þessir menn hafa ekki viljað láta nafna sinna getið, en við að heyra um þá rifjuðust upp fyrir mér orð Margrétar Thatcher: „Miskunnsami Samverjinn gat veitt aðstoð, af því að hann var aflögufær.“

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is