Votlendi Unnið að endurheimt í Grafarkoti í Borgarfirði. Jörðin er skammt fyrir ofan Baulu. Framkvæmdum átti að ljúka í dag, föstudag.
Votlendi Unnið að endurheimt í Grafarkoti í Borgarfirði. Jörðin er skammt fyrir ofan Baulu. Framkvæmdum átti að ljúka í dag, föstudag. — Ljósmynd/Votlendissjóður
Núverið hófst endurheimt votlendis á vegum Votlendissjóðs á jörðinni Grafarkoti í Borgarfirði. Endurheimtin er unnin að beiðni landeigenda af Votlendissjóði í samstarfi við Landgræðsluna.

Núverið hófst endurheimt votlendis á vegum Votlendissjóðs á jörðinni Grafarkoti í Borgarfirði. Endurheimtin er unnin að beiðni landeigenda af Votlendissjóði í samstarfi við Landgræðsluna.

Landgræðslan vann allar mælingar og staðfesti með þeim erindi til endurheimtar og mun starfsfólk Landgræðslunnar fylgjast með svæðinu næstu þrjú árin.

Grafarkot er í heildina um það bil 50 hektarar en samkvæmt mati Landgræðslunnar er votlendi endurheimtanlegt á um það bil 37 hekturum. Samkvæmt Loftslagsráði Sameinuðu þjóðanna (IPCC) blæs einn hektari af framræstu landi 19,5 tonnum af gróðurhúsalofttegundum út á ári. Mælingar Landgræðslunnar síðustu þrjú ár staðfesta það og meira til. Í einhverjum tilfellum mælinga í fyrrasumar, sem var einstaklega þurrt og hlýtt, fóru mælingar langt yfir 100 tonn á hektarann, segir í tilkynningu frá Votlendissjóði.

Sé þó miðað við 19,5 tonn IPCC er ljóst að strax í ár verða 720 tonn stöðvuð frá því að fara út í andrúmsloftið í ár, en það jafnast á við bruna 360 fólksbíla á ári.

Veturinn hefur verið erfiður til framkvæmda. Snjó hefur nýlega tekið upp og því hefur ekki gefist færi á því að komast fyrr í endurheimt þessa svæðis. Þar sem komið er ansi nærri varptíma leitaði Votlendissjóður álits sérfræðinga áður en hafist var handa. Í fagráði sjóðsins situr Tómas Grétar Gunnarsson frá Háskóla Íslands og leitað var ráða hjá honum og Kristni Hauki Skarphéðinssyni hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Votlendissjóður segir hvorugan sérfræðinginn hafa mælt gegn endurheimt, að því gefnu að henni lyki sem fyrst og færi ekki fram yfir 25. apríl.

Starfsfólk Ístaks, sem er verktaki framkvæmdarinnar, hófst handa í síðustu viku með það að leiðarljósi að framkvæmdum yrði lokið fyrir 24. apríl, eða í gær.

Endurheimt votlendis
» Votlendissjóður endurheimti votlendi á fjórum jörðum árið 2019.
» Allar fóru jarðirnar í gegnum úttekt hjá Landgræðslunni.
» Jarðirnar eru Hof í Norðfirði, Bessastaðir, Bleiks- og Krísuvíkurmýri, alls 53 hektarar.
» Nú eru 26 jarðir komnar úr mati frá Landgræðslunni.