Tími „sýndar“stjórnmála er liðinn.

Við lifum nú viðsjárverðari tíma en elztu menn muna. Hættumerkin fram undan í rekstri þessa litla þjóðarbús okkar hér á hjara veraldar eru mörg. Nýjasta grunnstoðin í þeim rekstri er horfin og er þá átt við ferðaþjónustuna. Það eru vísbendingar um djúpstæð vandamál í orkufrekum iðnaði, sem er önnur grunnstoð, sem varð til fyrir rúmlega hálfri öld. Eftirspurn eftir áli hefur minnkað, verð hefur lækkað og umtal um lokun álversins í Straumsvík.

En það sem minnsta athygli vekur en getur verið hættulegast eru áhrif loftslagsbreytinga á lífið í sjónum. Þær hafa áhrif bæði á hafstrauma og hitastigið í hafinu, sem aftur hefur áhrif á fiskinn, sem er að færa sig norðar. Getur verið að hann eigi eftir að synda út úr lögsögunni?

Það má merkja, þegar talað er við ungt fólk sem er að ljúka háskólanámi, að það gerir sér grein fyrir því, að nýjar kynslóðir eru að hefja átök við alvöru lífsins við óvenjulega erfiðar aðstæður. Allt er í óvissu um atvinnumöguleika námsmanna í sumar, hvað þá um framtíðarstörf þeirra, sem eru að ljúka námi.

En það er ekki tóm svartsýni, sem einkennir tal þessa unga fólks. Sumir benda á, að þótt stóriðjan kunni að vera að skreppa saman séu mikil tækifæri í annars konar starfsemi sem byggist á raforku, svo sem í gagnaverum, og bæði Össur og Marel séu dæmi um að nýsköpun geti skilað raunverulegum árangri.

Þetta eru alvöruspurningar og alvöruvandamál og það þýðir ekki fyrir stjórnmálin að bregðast við þeim með þeirri sýndarmennsku, sem um of hefur einkennt pólitík síðustu áratuga, þegar meiri áherzla hefur verið lögð á „upplifun“ kjósenda en raunveruleg vandamál í uppbyggingu samfélaga.

Það er ekki endilega víst að núverandi kynslóðir stjórnmálamanna, sem hafa alizt upp í sýndarveröld almannatengla, séu færar um að taka upp breytta starfshætti og þess vegna sé kominn tími á kynslóðaskipti í stjórnmálum og að það fólk sem finnur vandamálin á eigin skinni taki við.

Það hefur enga þýðingu að tala almennt um það að ferðaþjónustan taki við sér á ný á fáeinum misserum. Við vitum ekkert um, hvers konar veröld er handan við hornið. Hún getur verið allt önnur og gjörbreytt. Veröld, þar sem neyzluæðið hefur horfið í víðum skilningi og þar með stöðug ferðalög milli landa, yfirfullar flugstöðvar og járnbrautarstöðvar og járnbrautarlestir og mannþröng hvert sem litið er. Það var orðið ljóst fyrir mörgum árum, að átroðningur mannfjöldans var farinn að hafa neikvæð áhrif á vinsæla ferðamannastaði hér.

Það getur meira að segja verið að sá háttur nútímans að fólk borði frekar á veitingastöðum en heima hjá sér eins og tíðkaðist í gamla daga, þegar veitingastaðir voru undantekning en ekki regla, taki grundvallarbreytingum.

Lokun slíkra staða um heim allan á undanförnum vikum hefur þegar haft neikvæð áhrif á sölu fersks fisks frá Íslandi.

Í stuttu máli sagt vitum við ekkert hvað fram undan er.

Eitt er þó ljóst. Þótt vera megi að það sé hægt að halda þeim atvinnugreinum, sem við þekkjum nú, gangandi um skeið með opinberum fjárframlögum er það ekki hægt til frambúðar. Og út í hött að tala á þann veg, að í þeim efnum sé engin endastöð.

Ýmislegt jákvætt hefur þó gerzt undanfarnar vikur, sem líklegt er að festi sig í sessi. Fjarfundir og fjarnám eru eitt af því. Það er ekki bara Háskólinn við Bifröst, sem hefur leitt fjarnám til vegs. Undanfarnar vikur hafa íslenzkir námsmenn í útlöndum komið heim og hafa héðan að heiman stundað fjarnám við erlenda háskóla. Það er ekki ólíklegt að það fyrirkomulag breiðist út, sem dregur að sjálfsögðu mjög úr námskostnaði.

Fjarfundir hafa lengi verið raunhæf leið til samskipta en gamlar venjur í þeim efnum verið lífseigar, ekki sízt hjá opinberum aðilum. Það er mjög líklegt að þegar fólk hefur neyðzt til að taka þá starfshætti upp séu þeir „komnir til að vera“ eins og sagt er og þar á meðal í samskiptum þjóða í milli og jafnvel innan samfélaga.

Fólk úti á landi þarf ekki endilega að ferðast til Reykjavíkur til að eiga samskipti við opinbera aðila eða einkaaðila. Þau samskipti kosta minna með því að nýta nútímatækni til þeirra. Og það á reyndar við innan höfuðborgarsvæðisins líka. Af hverju er ekki hægt að endurnýja ökuskírteini með rafrænum hætti?

Og undanfarnar vikur hafa fjölmörg fyrirtæki uppgötvað, að það er hægt að halda starfsemi gangandi, þótt fólk vinni heiman frá sér. Það gæti haft þau áhrif að atvinnustarfsemi þurfi ekki á að halda öllu því húsnæði, sem við höfum vanist. Og svo mætti lengi telja.

Allt dregur þetta úr kostnaði, sem hingað til hefur verið talinn óhjákvæmilegur.

Það getur meira að segja verið að hin nýja tækni í samskiptum leiði í ljós, að sendiráð séu gamalt og úrelt fyrirbæri! Það er hægt að stunda samskipti við aðrar þjóðir og þjónusta fólk með ódýrari hætti. Hið sama á við um opinberar stofnanir heima fyrir.

Það eru hættur fram undan en það eru líka að opnast ný tækifæri til að reka samfélagslegan búskap með ódýrari hætti en áður.

Og í ljósi þess að við vitum ekki hvað er fram undan er kannski ástæða til að leggja stóraukna áherzlu á þá þætti, sem geta dregið úr kostnaði okkar við rekstur samfélagsins. Þar koma fjarnám og fjarfundir mjög við sögu svo og að nýta tækni nútímans til þess að draga úr þörf atvinnustarfsemi fyrir viðamikið húsnæði.

Það er meira að segja hægt að gefa út dagblað í fjarvinnu!

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is