Þorsteinn Jakobsson, prentari og bókasafnari, segir verkefnið hafa gefið sér mikla orku.
Þorsteinn Jakobsson, prentari og bókasafnari, segir verkefnið hafa gefið sér mikla orku. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
„Þetta verkefni gaf mér ofboðslega orku og setti mig í allt aðrar stellingar en bókasöfnunin sem ég hef stundað í meira en fjörutíu ár. Ég hef aldrei kynnst öðrum eins eljumanni og Svani Jóhannessyni.

„Þetta verkefni gaf mér ofboðslega orku og setti mig í allt aðrar stellingar en bókasöfnunin sem ég hef stundað í meira en fjörutíu ár. Ég hef aldrei kynnst öðrum eins eljumanni og Svani Jóhannessyni. Hann gefst aldrei upp, heldur klárar allt sem hann tekur sér fyrir hendur,“ segir Þorsteinn Jakobsson, prentari og bókasafnari í Reykjavík, sem var Svani innan handar við að finna eintök frá prentsmiðjunum sem um er fjallað í nýju bókinni.

Þorsteinn kveðst hafa vitað lengi af Svani, eins og allir bókasafnarar, og þekkt hann lauslega. Góð kynni tókust síðan með þeim þegar þeir sátu saman í bókasafnsnefnd prentara fyrir nokkrum árum. „Eftir að bókin hans, Prentsmiðjueintök, kom út 2014 og aftur 2015, hafði Svanur samband við mig og spurði hvort ég væri til í að hjálpa honum að útvega eintök sem tengdust öllum prentsmiðjum á Íslandi sem upp á vantaði. Úr því varð samstarf í fimm ár. Ég henti mér út í þetta af alefli og verkið reyndist á köflum erfitt. Það tók til dæmis heilt ár að ná í eitt eintak frá Húnaþingi. Rúnar Sigurður Birgisson, bankastjóri Bókabankans, var mér innan handar og fleiri menn. Á endanum tókst okkur að loka hringnum og safna eintökum frá öllum þessum stöðum,“ segir Þorsteinn.

Einstök heimild

Hann segir Prentsmiðjubókina einstaka heimild um þessa merkilegu sögu og álíka verk hafi aldrei verið gefið út á Íslandi. „Bók Svans er mjög víðfeðm; þar er þetta allt að finna, frá A til Ö.“

Þorsteinn hvetur yfirvöld menningarmála í þessu landi til að gefa ritinu gaum. „Eigi einhver skilið að fá viðurkenningu fyrir elju og vandað starf þá er það Svanur Jóhannesson.“

Um leið og Þorsteinn ber lof á Svan fyrir að standa sjálfur að útgáfunni segir hann þær málalyktir umhugsunarverðar. „Þeir útgefendur sem höfnuðu bókinni, og þeir eru nokkrir, ættu að gyrða sig í brók.“