Ragnhildur Þrastardóttir ragnhildur@mbl.is Ungur piltur var í gærkvöldi úrskurðaður í gæsluvarðhald, en alls voru fjórir handteknir í fyrradag eftir tvær lífshættulegar líkamsárásir.

Ragnhildur Þrastardóttir

ragnhildur@mbl.is

Ungur piltur var í gærkvöldi úrskurðaður í gæsluvarðhald, en alls voru fjórir handteknir í fyrradag eftir tvær lífshættulegar líkamsárásir.

Málin tvö eru ótengd, en pilturinn var handtekinn í Breiðholtinu um miðjan daginn, þar sem sautján ára piltur var stunginn tvisvar. Hann er nú á sjúkrahúsi, en mun vera á batavegi. Hitt málið kom upp í Kópavogi upp undir miðnætti í fyrrinótt og voru þrír menn handteknir í kjölfarið. Báðar líkamsárásirnar voru sagðar lífshættulegar og liggur sá sem varð fyrir árásinni í Kópavogi, karlmaður á fimmtugsaldri, á spítala og er sagður í lífshættu.

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að líklega yrði farið fram á gæsluvarðhald yfir einhverjum af mönnunum þremur.

Óvenju mörg alvarleg brot

Karl Steinar sagði fulla ástæðu til þess að hafa áhyggjur af þróun ofbeldisbrota, en vísbendingar eru um að þeim hafi fjölgað á nokkrum sviðum.

Þá hafa 28 rán verið á borði lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu það sem af er ári en á ársgrundvelli eru að jafnaði um 50 rán rannsökuð hjá embættinu.

„Frá áramótum höfum við séð óvenju mörg alvarleg brot. Það eru vísbendingar finnst okkur um fjölgun ofbeldisbrota á nokkrum sviðum. Heimilisofbeldisbrotum hefur heldur fjölgað, ofbeldisbrotum sem tengjast líkamsárásum og svo þessi tilvik sem eru auðvitað mjög alvarleg. Við erum nú þegar komin með eitt alvarlegt mál inn á okkar borð og síðan annað á Suðurnesjum svo það er full ástæða til þess að hafa áhyggjur af þessari þróun ef hún heldur áfram,“ sagði Karl Steinar, sem sagðist aðspurður ekki hafa forsendur til að meta hvort þróunin tengdist kórónuveirufaraldrinum að einhverju leyti.