Valdine Deanne Thorbjorg Bjornsson (Geirholm) fæddist í Selkirk í Manitoba í Kanada 23. nóvember 1938. Hún lést í Gimli Manitoba 4. apríl 2020. Foreldrar hennar voru hjónin Gudny og Kjartan Geirholm sem voru bæði af íslenskum ættum. Eftirlifandi systkini hennar eru Les Geirholm og Francine Albertson.

Árið 1959 giftist Valdine Richard Bjornsson. Hann lést 5. maí 2005. Foreldrar hans voru hjónin Margaret Bjornsson og Larus Bjornsson, bæði af íslenskum ættum.

Valdine og Richard eignuðust fjóra syni, Kent Lárus, Shawn, Blair og Dean, barnabörnin eru fjögur og langömmubörnin tvö.

Valdine var alin upp hjá fjölskyldu sinni í Gimli en þau Richard bjuggu alla tíð í Fraserwood, rétt hjá Gimli, þar sem þau ráku rjómabú. Valdine vann utan heimilis við skrifstofustörf, hjá landbúnaðarráðuneyti Manitobafylkis eftir að synirnir voru komnir á skólaaldur. Valdine gat rakið ættir sínar til Ölfuss í Árnessýslu, Syðstahvamms í Vestur-Húnavatnssýslu, Innri-Ásláks-staða á Vatnsleysuströnd og Þyrils í Hvalfirði.

Bálför hefur farið fram en minningarathöfn verður haldin í Gimli í júlí.

Mamma var mikil fjölskyldumanneskja, átti marga vini og hafði einlægan áhuga á samferðafólki sínu. Hún skipulagði ættarmót fyrir stórfjölskylduna og tók saman ættartölur sínar og pabba. Mamma stjanaði við okkur fjölskylduna og vini okkar bræðra og sá til þess að allir væru saddir og sælir.

Hún var einstaklega stolt af íslenskum uppruna sínum og hún og pabbi ferðuðust margoft til Íslands, í fyrsta sinn árið 1979. Þau nutu þess að skoða landið en aðallega þess að heimsækja ættingjana og vini. Upp úr 1970 jukust samskipti Íslendinga og fólks af íslenskum uppruna í Kanada og mamma tók þátt í móttöku fjölda Íslendinga sem lögðu leið sína til Manitoba. Mamma var líka virk í starfi Gimli Icelandic Canadian Society og Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi. Hún tók þátt á mörgum ráðstefnum og vann sjálfboðavinnu á New Iceland Heritage Museum, Íslendingasafninu í Gimli. Foreldrar okkar áttu húsbíl í mörg ár og ferðuðust á honum vítt og breitt um Norður-Ameríku. Barnabörnin og síðar langömmubörnin áttu hug mömmu allan og hún elskaði að vera amma þeirra.

Eftir að hún missti pabba flutti hún aftur til Gimli og bjó þá fyrst í íbúð í Aspen Park og síðar í Waterfront Centre, íbúðum aldraðra. Einu sinni í viku kom hópur fólks saman í kaffistofunni í Waterfront og talaði saman á íslensku. Það voru ánægjustundir fyrir mömmu því hún hafði ekki svo mörg tækifæri til þess að tala íslensku sem hún kunni vel þó hún væri af annarri kynslóð fólks af íslenskum ættum sem fætt var í Kanada.

Við munum aldrei gleyma þér.

Við elskum þig, hvíl í friði.

Góða nótt, elsku mamma.

Þínir synir,

Kent Lárus, Shawn, Blair, Dean og fjölskyldur.

Valdine Björnsson hefur átt sérstakan stað í hjarta mínu alveg frá því ég kynntist henni fyrst og mér hefur alltaf fundist hún vera frænka mín. Reyndin er að eiginmaður hennar, Richard Björnsson, var frændi minn og þau fjölskyldan komu fyrst til Íslands sumarið 1979 og dvöldu hjá okkur í Safamýri. Með komu þrír af fjórum sonum þeirra, Shawn, Blair og Dean, og fannst mér mjög skemmtilegt að kynnast frændfólki mínu sem komið var alla leið frá Vesturheimi.

Þau áttu þá heima í Fraserwood í Manitoba í Kanada og rak fjölskyldan þar rjómabú. Margaret, mamma Richards, hafði komið nokkrum árum fyrr í heimsókn til okkar en á þessum árum, milli 1970 og 1980, opnaðist fyrir kynni fjölskyldna okkar. Við það má segja að alveg nýr heimur hafi opnast fyrir okkur því á árunum þar á eftir kynntumst við fjölmörgum ættingjum okkar, bæði við heimsóknir þeirra til okkar og í ferðum okkar til Manitoba. Það var mikil upplifun að heimsækja Gimli og nágrenni og kynnast því hve Íslandi, menningu þess og tungumáli er gert hátt undir höfði og ég fann vel hve velkomin við vorum, gestirnir frá gamla landinu.

Kent Lárus, elsti sonur Valdine og Richards, kom haustið 1979 til Íslands til þess að vinna og læra íslensku. Hann hefur mörg síðustu ár verið búsettur á Íslandi, er netstjóri við MH og leiðsögumaður. Tengsl Valdine við Ísland hafa alla tíð verið sterk, hingað gat hún rakið ættir sínar, hún talaði góða íslensku og þau hjón komu oft til landsins en eftir fráfall Richards kom hún hingað ásamt sonum sínum og barnabörnum.

Valdine tók líka á móti fjölda Íslendinga sem komu til Manitoba og gestrisni hennar fengum við fjölskyldan svo sannarlega að njóta því hún var óþreytandi að keyra með okkur um Íslendingaslóðirnar í kringum Gimli og segja okkur frá fólkinu sem þar bjó. Hún tók saman ættartölur og skipulagði stór ættarmót enda harðdugleg og mjög skipulögð.

Síðasta heimsókn hennar til Íslands var í ágúst 2018. Þá ferðuðust hún og Dean um landið og heimsóttu vini og ættingja og ég sá vel hvað hún naut þess að sjá landið og hitta fólkið sitt.

Ég og fjölskylda mín þökkum góð kynni, tryggð og vináttu.

Blessuð sé minning Valdine Björnsson.

Þórdís Lilja Jensdóttir.