City Park Hótel Eigendur húsnæðisins hafa sagt upp leigusamningi.
City Park Hótel Eigendur húsnæðisins hafa sagt upp leigusamningi. — Morgunblaðið/Baldur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Eigendur félagsins Á5 ehf. leita nú að nýjum leigutaka undir hótelrekstur í Ármúla 5 en City Park Hótel var með rekstur í húsnæðinu sem er um 1.630 fermetrar.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Eigendur félagsins Á5 ehf. leita nú að nýjum leigutaka undir hótelrekstur í Ármúla 5 en City Park Hótel var með rekstur í húsnæðinu sem er um 1.630 fermetrar.

Samkvæmt fasteignaskrá hljóðar fasteignamat eignarhlutans upp á 449 milljónir. Með hliðsjón af stærð hótelsins er markaðsverð líklega töluvert hærra í góðu árferði í ferðaþjónustu.

Sex fjárfestar eiga félagið Á5 ehf.

Samkvæmt upplýsingum frá forsvarsmönnum félagsins keypti það húsnæðið árið 2015. Hugmyndin hefði verið að breyta húsnæðinu í hótel og leigja út reksturinn.

Húsnæðið var tekið í gegn og svo var opnað hótel um mitt ár 2016.

Var frá upphafi í húsinu

City Park Hótel var frá upphafi með rekstur í húsnæðinu, eða þar til leigusamningi var rift í desember 2019 vegna vanefnda leigutaka.

Forsvarsmenn Á5 ehf. segja rekstur hótelsins hafa gengið vel fram að því. Nýtingarhlutfall hafi verið hátt og gott verð fengist fyrir gistinguna.

Þannig hafi nýtingin verið nærri 100% frá fyrsta degi. Ástæðan var mikil spenna á markaðnum. Hótelið var nærri fullt af yfirbókunum frá nærliggjandi hótelum sem báðu City Park Hótel um að taka við bókunum sem þau réðu ekki við. Þannig hafi verið fljúgandi gangur allt frá upphafi.

Á City Park Hótel voru 57 herbergi. Fyrrverandi leigutaki innréttaði á leigutímanum um 27 herbergi til vesturs með endurbyggingu húsnæðis í Hallarmúla en þar var áður m.a. skemmtistaðurinn Hollywood.

Forsvarsmenn Á5 ehf. segja aðspurðir að rekstraraðili hótelsins hafi farið út í þá framkvæmd á eigin ábyrgð. Hún sé ótengd eigendum félagsins Á5 ehf.

Hættir með Marriott-verkefni

Fram hefur komið í Morgunblaðinu að rekstraraðili City Park Hótels áformaði jafnframt rekstur Marriott Courtyard-hótels við Aðaltorg, skammt frá Keflavíkurflugvelli. Morgunblaðið fékk staðfest að hann hefði ekki lengur aðkomu að því verkefni.

Átti að hafa 162 herbergi

Sagt var frá því í Morgunblaðinu í september 2018 að áformað væri að opna 162 herbergja hótel í Hallarmúla 2. Þar var verslunin Tölvutek en byggingin er nú auglýst til leigu.

Nýja hótelið hefði verið við hliðina á Hilton Reykjavík Nordica hótelinu og á ská á móti City Park Hótelinu í Ármúla.

Fram kom í frétt Morgunblaðsins að fjárfestarnir hefðu samið við Keahótelin um leigu á húsnæðinu undir hótel. Skv. upplýsingum frá Keahótelum var hætt við verkefnið.

Múlarnir breytast
» Þegar City Park Hótel var opnað var umframeftirspurn hjá hótelum í kring.
» Þar eru m.a. Nordica-hótelið og Reykjavík Lights Hótelið, sem er á vegum KEA.
» Áformað var að opna hótel í Hallarmúla 2 og á Suðurlandsbraut 18, allt að 370 herbergi, en hætt var við verkefnin.