[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nýlega las ég, með mjög stuttu millibili, bækurnar Skógarhöggsmenn eftir Thomas Bernard og Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson, en það var algjör tilviljun sem réð því að það gerðist.

Nýlega las ég, með mjög stuttu millibili, bækurnar Skógarhöggsmenn eftir Thomas Bernard og Öræfi eftir Ófeig Sigurðsson, en það var algjör tilviljun sem réð því að það gerðist. Þetta reyndar hljómar ekki merkilega né eins og tilviljun, frekar en að það sé tilviljun að ég segi „góðan daginn“ og svo síðar „í Hveragerði vex grænmeti“ í sömu setningu. En þessar tvær bækur eru tengdar að mörgu leyti og Ófeigur plantar allskyns vísunum í Thomas Bernard í Öræfi, þeim frábæra þrumuóð um íslenska menningu og sál.

Í langan tíma hef ég á milli annarra bóka verið að glíma við tvo doðranta, eða réttara sagt seríu doðranta sem mynda einn djöfullega stóran doðrant, en það er The Wheel of Time serían eftir Robert Jordan og svo A la recherche du temps perdu hans Prousts. Mér finnst mikilvægt að vera alltaf með eina langloku opna á náttborðinu sem er hægt að glíma við á milli léttmetis. Reyndar er The Wheel of Time léttmeti samkvæmt skilgreiningunni enda fantasía og ég opnaði fyrsta bindið einmitt í þeim tilgangi að létta aðeins á lestrinum hjá mér. Svo kom í ljós að þetta eru einhverjar fjórtán bækur allt í allt, allar ákaflega langar, og þá meina ég tilfinnanlega langar – maður les blaðsíðu eftir blaðsíðu um fataval persóna og heilu kvöldin inni á krám þar sem ekkert markvert gerist. Proust er ég hinsvegar kominn langt með og já, ég er montinn með það.

Að lokum vil ég minnast á tvær skáldleysur sem ég lauk nýlega við. Annars vegar er það Nixonland eftir Rick Perlstein og The Teachings of Don Juan eftir Carlos Castañeda. Sú fyrri fjallar um pólitískt líf Richards Nixon, allt frá fæðingu til loka forsetaembættis hans. Nixon var aldrei feiminn við að veltast um í drullunni en þar var hann ávallt sterkastur og náði yfirhöndinni á margan pólitískan andstæðinginn sem elti hann þangað. Bókin fjallar líka um ameríska þjóðarsál á hryllilegan hátt. The Teachings of Don Juan er ögn gleðilegri og er í raun skýrsla mannfræðings sem hittir fyrir og lærir hjá galdralækninum Don Juan. Mikið af sýrutrippum og áhugaverðum sjónarhornum á tilveruna.