Trú „Það er eitthvað við tímana sem kallar okkur til að líta inn á við, leita merkingar.“
Trú „Það er eitthvað við tímana sem kallar okkur til að líta inn á við, leita merkingar.“ — Ljósmynd/Ben White, Unsplash
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þessir tímar hafa hreyft við flestum þótt það birtist með ólíkum hætti.

Óvissutímar skapa aðstæður sem við gerum okkar besta til að bregðast við af trúmennsku. Og einhvern veginn opnast heimurinn með öðrum hætti en áður; hinu gamla lýkur. Við þörfnumst margs síður en áttum okkur betur á því hvað hefur „æðri“ merkingu í lífinu. Sálarsjónirnar skírast, næmið eykst – margir takast á við nýja hluti og áður óhugsandi aðstæður – með skapandi jákvæðni, sem er mjög af hinu góða. Þessir tímar hafa hreyft við flestum þótt það birtist með ólíkum hætti. Það er í mannlegu eðli að tilhneigingin til að leita innávið blossi upp í krefjandi aðstæðum; það er leiðin að einni mestu huggun sem mannskepnan reynir – því heilaga viðbragði að leggja tilfinningar sínar fram og færa sköpunarkraftinum til úrvinnslu. Við fórnum jafnvel því sem við töldum okkur ekki geta verið án og njótum blessunar í staðinn.

Innra líf okkar hvílir á sviði tilverunnar sem kalla má á mörkum heima, það byggir á ímyndunaraflinu; það er á sviði hins óliðna – skáldskapar jafnvel – þar sem lögmál eru sönn sem engar mælingar ná yfir. Að til séu svið tilverunnar þar sem hið heilaga varir er ekki erfitt að samþykkja þegar maður hefur reynt það að missa tímaskynið við það sem er manni heilagt.

Það er skapandi afstaða hvers og eins til verkefna sinna sem umbreytir þeim í þekkingu; leikur verður að helgun, þegar merking fylgir því sem við framkvæmum. Eða því trúi ég. Og samkvæmt því reyni ég líka að lifa, að á tímamótum, þar sem heimar mætast, megi finna sannleika sem hverju okkar og einu býðst að helga líf sitt með. Öll mikil reynsla mótar manneskjur, í gleði og sorg – sumt eigum við fyrir okkur sjálf, sumu deilum við. Sumt skiljum við, sumt ekki. Eitthvað svo sárt að það hræðir, annað svo aumt að það meiðir; skömmin fellir dóma og flokkar í gamanmál, einkamál og leyndarmál. Og því mikilvægasta tekst okkur kannski aldrei að gefa þann tíma sem það krefst.

Blessun óvissunnar

Þegar dramb og fullvissa er reynd í eldi hins óþekkta koma óvæntar gjafir í ljós; við áttum okkur jafnvel í auðmýkt á þörf fyrir tengsl, siði og samfélag um það sem er okkur heilagt. Við fyllumst þakklæti og auðmýkt, meðvituð um fallvaltleikann; væg einkenni hugarfarsbreytingar koma fram þegar við eignumst börn, en stundum er sagt að tilvistarspurningarnar leiti fyrst af alvöru í trúarlegan farveg þegar við missum foreldri eða nána lífsförunauta. Kannski áttum við okkur á því með einhverjum hætti þá að við vorum aldrei ein. Og að við erum aldrei ein. Mikil sameiginleg reynsla getur kallað fram það sama: Við finnum með áþreifanlegum hætti að við erum hvorki ein með hugsanir okkar né tilfinningar. Óttinn þéttir ekki raðir okkar heldur vonin. Samkenndin.

Það hvernig við tökumst á við öfgafullar aðstæður birtir með einhverjum hætti okkar innri gerð en trúargangan þjónar stundum þeim tilgangi að koma jafnvægi á viðbrögðin; kenningarnar tæki til að ná stjórn á tilfinningum. Og stundum jafnvel, svo við höfum styrk til að burðast með leyndarmál. Við getum jafnvel brotist undan því að láta áföll skilgreina okkur, ef við náum að vinna úr þeim. Hugmyndir og skoðanir, upplýsingar og sögulegar heimildir eru eitt, en trúargangan byggir ekki á slíkri skynsemi, heldur hinu skapandi sviði innsæis og umbreytingar. Þegar við fórnum því sem er hlaðið merkingu – eða missum það – þá verðum við að taka hinu nýja með opnum huga, því kannski eru möguleikarnir mun fleiri en vandamálin. Kannski skipti viðbragð okkar öllu máli – ekki bara persónulega, heldur í stóra samhenginu. Og það er meira en skynsemin, boðin og bönnin, sem hafa kallað okkur til þess að virða tengslin við okkar leyndustu veru í þeim aðstæðum sem eru uppi. Það er eitthvað við tímana sem kallar okkur til að líta inn á við, leita merkingar.

Svo margt sem var okkur hulið hefur litið dagsins ljós. Og við höfum jafnvel verið minnt á að þegar leyndarmálum er fórnað á altari óvissunnar, þá verður afhjúpunin að blessun; en þannig skynja ég það hvernig samfélag okkar hefur brugðist við svo mörgu. Við óttumst ekki veikleika okkar með sama hætti og fyrr, skömm er mætt af skilningi; það þarf enginn að fela það að hann hafi veikst, eða sé veikur fyrir; smitaður eða bara logandi hræddur. Við erum mildari, miskunnsamari; skilningsríkari og fordómalausari. Og tímarnir verða enn merkingarbærari fyrir vikið.

Glitrar á trúarþörfina?

Hvaða gersemar hafa orðið á vegi þínum, já hvaða helgu sannindi hafa birst þér á þessum tímum utan tímans sem alltaf er á þönum? Við kynnumst sjálfum okkur upp á nýtt í gegnum berskjöldun, varnarleysi og vanmátt. Við lærum vonandi af okkar tímum, að áttavitinn góði – Kristur með kærleik sínum og boðskap – hefur birt sálarsjónir okkar; styrkleiki hvers og eins getur einmitt legið í þekkingunni á veikleikanum. Það þýðir líka að leyndarmálin sem við höfum þurft að horfast í augu við, þau breiða ekki lengur yfir skömm sem íþyngdi heldur virðist samfélag okkar geta mætt því að hver og einn kjósi að frelsa sig undan því sem hefur bundið skynsemi okkar við gömul lögmál.

Guð gefi að þú hafir átt tær augnablik í tómarúmi daganna og tilfinningin fyrir virði þínu og merkingu hafi opnað hjarta þitt fyrir því að „trú og andlegt líf“ er þroskandi ferli, leyndardómur en ekki leyndarmál. Ef þú fyrirverður þig sakir þess enn, mundu að fórnirnar umbreytast í blessun.

Höfundur er prestur á Staðastað, Snæfellsnesi. arnaldur.fi@kirkjan.is