Sjálfsagt voru blendin viðbrögð í handboltahreyfingunni á Íslandi við tíðindum gærdagsins. Enda voru þau þess eðlis.
Sjálfsagt voru blendin viðbrögð í handboltahreyfingunni á Íslandi við tíðindum gærdagsins. Enda voru þau þess eðlis. Karlalandsliðið er komið á HM en kvennalandsliðið, sem er í uppbyggingarferli undir stjórn nýs þjálfara, missir hins vegar af fjórum mótsleikjum.

Tvö lið sem eru Íslendingalið eins og er komast í úrslitahelgi Meistaradeildarinnar en tvö önnur misstu af möguleikanum á því að komast þangað.

Valsmenn missa af því að leika í átta liða úrslitum Áskorendabikars Evrópu. Leikmennirnir eru sjálfsagt vonsviknir en á hinn bóginn hefði væntanlega verið dýrt fyrir Valsmenn að halda meistaraflokknum gangandi þar til í lok júní fyrir fáa leiki og engar tekjur.

Þessi niðurstaða er skiljanleg. Óvissuþættirnir varðandi það hvernig veiran mun leika þjóðir heimsins eru margir. Hvenær fer fólk að ferðast á milli landa? Hversu misjafnlega verða þjóðirnar staddar í baráttunni? Þar af leiðandi var tímabært að taka þessa ákvörðun og láta sumarið eiga sig varðandi boltaleiki. Fólk hefur mikilvægari hluti að glíma við eins og við vitum.

Eins og mörgum öðrum finnst mér furðuleg tilhugsun að Meistaradeildinni ljúki þegar næsta tímabil er hálfnað. Einn besti leikmaður heims, Sander Sagosen, verður til að mynda búinn að hafa félagaskipti. Hann verður orðinn leikmaður Kiel og farinn frá Paris St. Germain. Bæði þessi lið eru á meðal þeirra fjögurra sem fá að óbreyttu að berjast um Evrópumeistaratitilinn. Annar sem hjálpað hefur París að komast í undanúrslitin, Guðjón Valur Sigurðsson, er einnig á förum að manni heyrist.