Gianni Infantino
Gianni Infantino — AFP
Knattspyrnusamband Íslands á von á nálægt 100 milljón króna greiðslu frá Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA.
Knattspyrnusamband Íslands á von á nálægt 100 milljón króna greiðslu frá Alþjóða knattspyrnusambandinu, FIFA. FIFA tilkynnti í gær að allar greiðslur til 211 aðildarþjóða sinna fyrir árin 2019 og 2020 yrðu afhentar þeim á næstu dögum sem fyrsta skrefið í aðstoð til knattspyrnusamfélagsins í heiminum vegna áfalla af völdum kórónuveirunnar. Samtals verður 120 milljónum punda, eða 21,8 milljörðum króna, dreift á þjóðirnar 211 og tekið er fram í yfirlýsingu FIFA að lágmarksgreiðsla þar sé 400 þúsund pund, eða um 72 milljónir króna. Það má því áætla að hlutur KSÍ sé einhvers staðar nálægt 100 milljónunum. „Farsóttin hefur í för með sér fordæmalausar áskoranir fyrir allt knattspyrnusamfélagið og það er skylda FIFA sem heimssambands að vera til staðar og styðja þá sem standa frammi fyrir stórum vandamálum,“ sagði Gianni Infantino, forseti FIFA. Hann sagði að þetta væri fyrsta skrefið í stórtækri áætlun sem verið væri að skipuleggja til að bregðast við ástandinu í heimsfótboltanum.