Á ferðinni Póstmenn bera út færri sendingar að utan en innlend netverslun hefur aukist.
Á ferðinni Póstmenn bera út færri sendingar að utan en innlend netverslun hefur aukist. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Öllum þessum venjulegu leiðum hefur verið riðlað og það eru miklar tafir á hefðbundnum póstsendingum hvert sem litið er,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Öllum þessum venjulegu leiðum hefur verið riðlað og það eru miklar tafir á hefðbundnum póstsendingum hvert sem litið er,“ segir Birgir Jónsson, forstjóri Íslandspósts.

Ástandið sem skapast hefur í samgöngum í heiminum vegna kórónuveirufaraldursins hefur valdið miklum seinkunum á póstsendingum. Morgunblaðið fékk ábendingu frá lesanda sem hafði beðið eftir bréfi frá Bandaríkjunum í fimm vikur. Ástæðan er sú að bréfpóstur er ekki lengur fluttur með flugi frá Bandaríkjunum til Evrópu heldur með skipum. Og þá á eftir að koma póstinum til Íslands.

„Við erum komin 50 ár aftur í tímann með sjópóstinn. Það er búið að kippa stoðunum undan þessari þjónustu. Við höfum lengi fengið póst með flugi frá New York en nú er kannski flogið tvisvar í viku til Boston. Við erum alltaf að reyna að hafa samband við póststjórnir í öðrum löndum en þetta eru oftast stór batterí og svifasein. Það er erfitt fyrir þær að breyta ferlum og það gerist ekki hratt,“ segir Birgir.

Svipaða sögu er að segja með sendingar frá Evrópu að sögn forstjórans. „Mikið af sendingum fer með flugi í gegnum Liège í Belgíu en því færri millipunktar sem sendingar fara í gegnum, þeim mun betur gengur.“

Ótrúlegt magn sem fólk hefur pantað

Birgir segir að fleiri hlutar póstþjónustunnar líði fyrir það ástand sem hefur skapast í samgöngum í heiminum. „Þetta alþjóðlega póstsamstarf er ekki nógu kvikt til að takast á við svo örar breytingar. Við vitum til dæmis að það eru tugir tonna sem bíða í kerfinu eftir að komast frá Kína til Íslands. Þetta eru sendingar frá netverslunum og þær munu einhvern tímann skila sér. Við bíðum á hverjum morgni eftir því að sjá hvað kemur. Nú er eitthvað farið að koma með Norrænu og eitthvað kemur með flugi. Það er ótrúlegt magn sem fólk hefur pantað sér.“

Ástandið muni á endanum lagast en það verði varla fyrr en hefðbundnar samgöngur komast aftur í gang. „Það er vissulega sorgleg staðreynd en það er enginn úti í heimi að missa svefn yfir því að póstur berist ekki til Íslands þegar flutningar eru í lamasessi.“

Birgir segir að þrátt fyrir að sendingar að utan hafi tafist vanti ekki verkin hjá Póstinum. „Á móti kemur að innlend netverslun hefur sprungið út og það hefur verið ofboðslega mikið að gera hjá okkur við það.“