Umferð Kennslubílar ökukennara verða aftur áberandi eftir 4. maí.
Umferð Kennslubílar ökukennara verða aftur áberandi eftir 4. maí. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það er mikið uppsafnað og menn verða að vera þolinmóðir þegar þetta fer af stað aftur,“ segir Björgvin Þór Guðnason, formaður Ökukennarafélags Íslands.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það er mikið uppsafnað og menn verða að vera þolinmóðir þegar þetta fer af stað aftur,“ segir Björgvin Þór Guðnason, formaður Ökukennarafélags Íslands.

Ökukennurum hefur verið bannað að sinna verklegri ökukennslu og ekki hafa farið fram verkleg ökupróf frá því hert samkomubann tók gildi fyrir rúmum mánuði. Þá hefur ekki verið boðið upp á námskeið í svokölluðum Ökuskóla 3.

Það er því ljóst að margir verða orðnir spenntir að næla sér í skírteinið eftirsótta þegar þessum hömlum verður aflétt hinn 4. maí næstkomandi.

Svanberg Sigurgeirsson, deildarstjóri ökuprófa hjá Frumherja, segir í samtali við Morgunblaðið að biðlistinn sé orðinn ansi langur. Frumherji sér um framkvæmd ökuprófa í verktöku fyrir Samgöngustofu.

„Þetta eru núna á milli 620 og 630 sem bíða eftir að komast í ökupróf. Einhverjir eiga kannski eftir að klára tvo til þrjá tíma en svo bætist enn frekar við hópinn þegar við höldum áfram með skriflegu prófin. Þetta er vel rúmlegur mánaðarskammtur fyrir alla okkar prófdómara,“ segir Svanberg.

Hann segir jafnframt að nú sé að ganga í garð hinn árlegi tími kennslu á bifhjól sem bæti enn á álagið í greininni. „Síðan eru það aukin ökuréttindi. Það verða kannski ekki eins mikil læti með rúturnar og áður en mögulega meira í vörubílunum.“

Óvissa með framtíðina

Undir þetta tekur Björgvin Þór Guðnason. Hann segir að búið sé að raða þeim niður í ökupróf í maí sem áttu pantað áður en samkomubann var sett á.

„Ég hugsa að það verði þó nokkuð mikið að gera þegar þetta fer í gang. Alla vega til að byrja með. Svo veit maður ekki með framtíðina. Maður veit ekki hvað verður þegar þessi kúfur er frá. Það verða kannski viss blankheit hjá fólki og svo eru margir útlendingar farnir heim. Ég reikna með að það verði lítið að gera í auknum ökuréttindum fyrir rútur en á móti kemur að það á að spýta í varðandi framkvæmdir svo það verður kannski meira í vörubílunum.“