Edda Hermannsdóttir gaf nýlega út bókina Framkoma og segir einn tilganginn með bókinni vera að efla konur til dáða. Hún segir að konur séu ragari við að láta í sér heyra þótt það hafi mikið breyst á síðustu árum.
Edda Hermannsdóttir gaf nýlega út bókina Framkoma og segir einn tilganginn með bókinni vera að efla konur til dáða. Hún segir að konur séu ragari við að láta í sér heyra þótt það hafi mikið breyst á síðustu árum. — Morgunblaðið/Ásdís
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Edda Hermannsdóttir hefur verið ákveðin allt frá barnaæsku, en sjö ára hitti hún blóðföður sinn, Hemma Gunn, á Ráðhústorginu og sagðist vera dóttir hans.

Edda Hermannsdóttir hefur verið ákveðin allt frá barnaæsku, en sjö ára hitti hún blóðföður sinn, Hemma Gunn, á Ráðhústorginu og sagðist vera dóttir hans. Edda varð ung móðir, lærði hagfræði, var kynnir í Gettu betur, var aðstoðarritstjóri Viðskiptablaðins og er nú markaðsstjóri Íslandsbanka. Hún er trúlofuð Ríkharði Daðasyni sem fór á skeljarnar í brúðkaupi við mikinn fögnuð gesta. Edda skrifaði bókina Framkoma sem kom út í síðustu viku. Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is

Veðrið er hráslagalegt og minnir frekar á haust en vor daginn sem blaðamaður fór til fundar við Eddu Hermannsdóttur, hagfræðing, rithöfund og markaðsstjóra hjá Íslandsbanka. En þótt úti blási vindar er hlýlegt innandyra. Heimilið er smekklegt og hefur yfir sér rómantískan blæ með bleikum blómum á borðum. Edda er í síðum sumarlegum kjól sem fer vel við ljósa hárið.

Tilefni heimsóknarinnar er meðal annars að ræða nýju bók Eddu, Framkomu, sem kom út í vikunni. Edda hefur lengi haft brennandi áhuga á fjölmiðlum og framkomu en hún starfaði um skeið sem kynnir í Gettu betur og síðar hjá Viðskiptablaðinu. Hún hefur ekki látið sitt eftir liggja í kvenréttindabaráttu enda oft fundið sig umkringda körlum í störfum sínum og hefur áður gefið út bók um jafnréttismál ásamt Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur.

Ekki er úr vegi að forvitnast örlítið um einkalíf Eddu en hún er dóttir Hemma Gunn sem hún kynntist ekki fyrr en á unglingsaldri. Edda er trúlofuð Ríkharði Daðasyni, fyrrverandi atvinnumanni í fótbolta og hagfræðingi, og eiga þau samtals þrjú börn. Ríkharður fór óvænt á skeljarnar í brúðkaupsveislu í fyrrasumar, við mikinn fögnuð gestanna.

Maðurinn í sjónvarpinu

Edda er er alin upp á Akureyri en bjó í Danmörku fyrstu æviárin. Foreldrar hennar, Eiður Guðmundsson og Emilía Jóhannsdóttir, eru að norðan og þar bjó Edda þar til hún kláraði menntaskóla.

„Og hef ekki snúið til baka síðan þótt hluti af hjartanu sé alltaf þar,“ segir Edda.

„Hemmi Gunn er pabbi minn en Eiður ól mig upp og ég kalla hann pabba,“ segir Edda en hún var aðeins sex mánaða þegar móðir hennar kynntist Eiði.

„Ég vissi alltaf að ég ætti annan pabba en brá eðlilega mikið þegar ég vissi að það væri maðurinn í sjónvarpinu, en ég var orðin aðdáandi hans áður en ég vissi það. En ég var aldrei mjög upptekin af þessu sem krakki; ég var alltaf í mínum huga dóttir Eiðs. Ég hitti Hemma aðeins á yngri árum en eftirminnilegast er þegar hann kom norður með Bylgjulestinni og ég fór þá niður í bæ og vatt mér að honum og spurði hann hvort hann myndi ekki eftir mér, ég væri nú dóttir hans. Honum brá mjög mikið. Þarna var hann á Ráðhústorginu að skemmta þegar ég, lítil frökk stúlka, kom til hans með þessa spurningu. En hann tók mér ofsalega hlýlega þegar hann áttaði sig á því hver ég væri,“ segir Edda en þess má geta að hún er ein sex barna Hermanns Gunnarssonar.

Erfitt að syrgja Hemma

Edda segist aldrei hafa upplifað hvorki reiði né biturð yfir því að Hemmi skyldi ekki hafa sinnt sér sem barni.

„Nei, það var aldrei þannig. Það var aldrei neinn feluleikur með þetta. Þetta truflaði mig aldrei,“ segir Edda og bætir við að hún hafi átt yndislega æsku í „venjulegri vísitölufjölskyldu“ en þess má geta að hún á einn hálfbróður, Óla, fjórum árum eldri.

„Kannski upplifði ég ekki vondar tilfinningar af því ég fékk svo að kynnast Hemma. Annars hefðu fleiri spurningar vaknað,“ segir Edda.

„Samband okkar var svolítið sérstakt í upphafi. Ég átti pabba þannig að ég var í rauninni ekki að leita mér að föður. En mig langaði að kynnast honum og okkur tókst mjög fljótt að mynda vinasamband þótt það hafi ekki verið dæmigert föður/dóttur-samband. Hann vildi allt fyrir okkur börnin gera og vildi hjálpa okkur og veita okkur góð ráð. Ég fann það mjög sterkt, sérstaklega rétt áður en hann kvaddi, hvað honum var mikið í mun að halda góðu sambandi.“

Hermann Gunnarsson lést árið 2013 en þá hafði Edda þekkt hann í um sjö ár. Hún segir að dauði hans hafi fengið á sig á sérstakan hátt.

„Það var mjög skrítið að syrgja mann og föður sem ég hafði ekki átt náið samband við um ævina. Þetta var nýtilkomið samband og ég bjóst ekki við að mér þætti svona erfitt að missa hann. Kannski var ég meira að syrgja allt það samband sem hefði getað orðið, og það sem hefði verið gaman að spyrja hann að. En um leið var ég þakklát að ná þessum síðustu árum hans.“

Bókin Hemmi Gunn: Sonur þjóðar, eftir Orra Pál Ormarsson, sem kom út að Hemma látnum, vakti Eddu til umhugsunar.

„Það vöknuðu þá auðvitað nýjar spurningar. Hann var sinn versti óvinur sjálfur, og það var erfitt að uppgötva hvað hann var oft einmana, þótt hann væri umvafinn góðum vinum. Við áttuðum okkur ekki á því áður. Svo átti hann í eilífri baráttu við áfengið og tókst að leyna því á köflum, þótt sumir hafi alltaf vitað af því.“

Að geta borðað kökur

Systkinum sínum fimm, samfeðra, kynntist hún í raun mun fyrr, því um fjórtán, fimmtán ára aldur hafði hún samband við þau í gegnum tölvupóst þar sem hún sagðist vera systir þeirra.

„Ég var mjög frökk í því að finna og kynnast systkinum mínum og þá sérstaklega systrum mínum. Við gerum oft grín að því í dag að besta leiðin til að kynnast fólki er að senda því póst og segjast vera systkini þess. Ég á þrjár systur og við erum ofboðslega nánar og miklar vinkonur. Svo var gaman að sjá hvað við eigum margt sameiginlegt. Mér fannst ég verða rosalega rík að kynnast þessu fólki sem maður deilir föður með, þótt við höfum ekki alist upp saman,“ segir hún.

„Ég og Eva Laufey höfum farið mjög svipaðar leiðir í lífinu; vorum báðar formenn nemendafélagsins í menntaskóla, fórum út í stúdentapólitík og fjölmiðlar heilluðu okkur báðar snemma. Svo höfum við líka báðar ástríðu fyrir kökubakstri. Ég er langt í frá jafn góð í eldhúsinu og hún en ég deili þeirri ástríðu. Við tölum mikið um bakstur og kökur,“ segir hún og brosir.

„Við erum líka miklir nautnaseggir. Þegar við fórum saman í einkaþjálfun vorum við spurðar hvert okkar markmið væri. Við sögðum það vera að geta borðað meira af kökum. Einkaþjálfarinn vildi ekkert meira með okkur hafa,“ segir Edda og hlær.

Vildi verða mamma ung

Edda segist sjálfsagt hafa erft ýmislegt frá blóðföður sínum, eins og áhugann á fjölmiðlum og að koma fram.

„Svo er ég alin upp af pabba mínum, verkfræðingnum, þannig að þetta er góð blanda sem hefur mótað mig mikið,“ segir hún og brosir.

Edda var strax í menntaskóla komin í forystuhlutverk sem formaður nemendafélagsins og þurfti gjarnan að halda ræður og koma fram í fjölmiðlum.

„Ég byrjaði snemma að sýna takta í þessa átt og mamma segir að strax við tveggja, þriggja ára aldur hafi ég verið farin að leiða fjölskylduna upp stigaganginn í halarófu, ég fremst og enginn mátti fara á undan mér!“ segir hún og hlær.

Eftir menntaskóla fór hún í nokkurra mánaða ferð til Evrópu sem endaði í Barcelona þar sem hún vann sem au-pair hjá Eiði Smára Guðjohnsen og Ragnhildi Sveinsdóttur.

„Ég var þarna í þrjá mánuði og var það algjör draumur að hafa upplifað þennan tíma. Það hafði þau áhrif á ungu konuna að ég vildi verða mamma strax. Ég þurfti að drífa mig heim en ég hafði átt kærasta frá sextán ára aldri. Ég eignaðist svo fyrsta barnið 21 árs og svo annað þremur árum síðar. Á þessum tíma var ég fyrst í verkfræði en skipti svo yfir í hagfræði. Ég var því mikið í barnastússi meðfram náminu sem hentaði vel því það var gott að geta verið meira heima með börnin. En eftir þennan tíma í Barcelona hef ég sótt mikið þangað og við fjölskyldan höfum notið þess að vera þar í fríum. Síðasta vetur skellti ég mér síðan í stjórnendanám í IESE en það hefur verið gaman að fá að upplifa borgina með börnunum mínum.“

Ólétt og fótbrotin í beinni

Þegar Edda var í hagfræðinni var boðið upp á áfanga hjá RÚV sem sneri að því að búa til þátt tengdan náminu.

„Ég hitti þá Sigrúnu Stefánsdóttur, þáverandi dagskrárstjóra, sem opnaði námskeiðið. Þá var ég ólétt að syni mínum og gerði ég þátt um heilbrigði og óléttu og eftir það fékk ég tilboð að koma í prufu í starf kynnis í Gettu betur. Ég fékk svo starfið en ég benti Sigrúnu á að ég ætti von á barni á svipuðum tíma og þátturinn ætti að hefja göngu sína. Það er mér mjög minnisstætt hvernig hún tók á því; henni fannst það ekki tiltökumál. Það væri ekki sjúkdómur að eignast barn og við myndum leysa það þegar að því kæmi og ég er henni mjög þakklát í dag fyrir að hafa hvatt mig áfram í þetta. Ég átti svo son minn og fyrsta viðtalið í tengslum við þáttinn var tveimur dögum eftir fæðingu. Svo byrjaði þátturinn mánuði seinna. Ég var þarna með nýfætt kríli, hafði aldrei verið í sjónvarpi, allt í einu komin í beina útsendingu í Gettu betur. Svo var ég fótbrotin í þokkabót eftir að hafa dottið um rúmið heima. Það er eins gott að maður hafði smá húmor fyrir þessari stórundarlegu stöðu.“

Edda segir vinnuna hafa verið mikið átak á sínum tíma. Hún vandaði sig vel við að undirbúa sig.

„Ég þorði aldrei að segja neitt nema ég væri með það skrifað; þannig var það fyrsta árið. Svo varð ég afslappaðri með árunum en ég var í þessu í þrjú ár,“ segir hún.

„Ég er svo þakklát fyrir að hafa látið vaða og sagt já við þessu tækifæri því það hefði verið svo miklu auðveldara að gera þetta ekki. Maður lærir að vera ekki hræddur þótt allt sé ekki fullkomið hjá manni. Ég gerði alveg fullt af mistökum og get varla horft á þessa þætti í dag, en heilt yfir er ég ánægð hvernig þetta gekk. Með hverju árinu varð ég alltaf meira ég sjálf á skjánum.“

Að leiða fólk saman

Edda segir að vinnan við Gettu betur hafi heldur betur kveikt áhuga hennar á fjölmiðlum og að koma fram þótt áhuginn hafi lengi blundað í henni.

„Þegar ég var í menntaskóla var ég líklega búin að sækja um í Kastljósi tvisvar, þannig að áhuginn var alltaf til staðar. En svo var ég auðvitað komin með próf í hagfræði og vildi nýta það þannig að þegar ég fékk tilboð að koma á Viðskiptablaðið fannst mér ég geta sameinað þetta tvennt. En ég fékk eins og margar konur þekkja „imposter syndrome“. Spurði mig af hverju ég væri þarna, ég sem kynni svo lítið. Mér fannst ég að sumu leyti læra meira á Viðskiptablaðinu heldur en í náminu og þetta var gríðarlega skemmtilegur og áhugaverður tími. Ég var þarna í þrjú ár og síðasta árið var ég orðin aðstoðarritstjóri,“ segir Edda og hún segir að á þessum tíma hafi áhuginn á jafnrétti kynjanna aukist.

„Við vorum fáar stelpur að vinna þarna á Viðskiptablaðinu og konur voru sjaldnar viðmælendur í blaðinu þar sem fáar konur skipuðu æðstu stöður fyrirtækja og embætti á þessum tíma. Við vorum því markvisst að reyna að fjölga konum í blaðinu og auka fjölbreytileika. Þarna kviknaði áhugi minn á að efla konur og hvetja þær til að koma fram.“

Edda nefnir að í aðstoðarritstjórastarfinu hafi falist að leiða hópinn og taka nýjar stefnur í starfinu.

„Mér finnst gaman að leiða fólk saman í alls kyns verkefnum. Að ná fólki saman, breyta hlutum sem eru formfastir og koma með nýjungar,“ segir hún.

„Svo hef ég alltaf verið fullorðin í mér. Það er gert grín að því að ég sé fædd miðaldra. Ég var yngst á blaðinu en velti því aldrei fyrir mér og ég held að samstarfsfélagarnir sem ég vann með hafi ekki gert það heldur,“ segir hún.

„Ég er skipulögð og var alltaf með plan. Ég var farin að spyrja vinkonur mínar strax í menntaskóla hvað væri á fimm ára planinu. Það var ekki mjög vinsæl spurning,“ segir hún og brosir.

„Ég er ennþá þannig að ég þarf að hafa plan og þarf að vita hvert ég er að stefna. En svo er ég óhrædd við að breyta planinu ef mig langar eitthvað annað og vera auðmjúk fyrir því að stundum gengur planið alls ekki eftir.“

Hefðum getað verið skýrari

Í dag vinnur Edda sem markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka og líkar vel.

„Ég ætlaði aldrei að vinna í banka en fann fljótt að þessi menning og fólkið þarna fékk mig til að langa til að taka þátt í þessu verkefni. Ég vinn líka með sterkum leiðtogum sem ég læri mikið af. Ég byrjaði sem samskiptastjóri en tók svo seinna við greiningardeildinni og svo markaðs- og vefdeild. Það þarf að passa að upplýsingaflæði sé gott á stórum vinnustað svo allir séu að róa í sömu átt. Vinna í greiningardeildinni tengist svo í raun enn meira náminu mínu. Við erum að búa til fjölbreytt greiningarefni og svo fræðsluefni um fjármál, og svo þarf að huga vel að innri samskiptum. Ef ég horfi til framtíðar þá er ég viss um að samskiptaþátturinn muni skipa enn stærri sess því það er svo mikið af tækninýjungum og störfin eru að breytast hjá svo mörgum að ég held að það muni reyna mikið meira á þessa hæfileika hjá stjórnendum, að vera góðir í samskiptatækni,“ segir hún.

„Þetta er ofboðslega skemmtilegt starf. Mér finnst mitt helsta hlutverk vera að búa til framtíðarsýn fyrir teymið mitt og lyfta þeim upp í því sem þau kunna hvað best.“

Síðasta haust gaf Íslandsbanki út þá yfirlýsingu að hann hygðist ekki auglýsa hjá fjölmiðlum þar sem kynjahallinn væri mikill. Var þessi ákvörðun Íslandsbanka víða gagnrýnd og þurfti Edda að svara fyrir hana.

Ef þú horfir til baka, var þetta rétt ákvörðun?

„Það sem við sáum eftir á var að við hefðum átt að útskýra betur heildarhugmyndina. Vissulega er þetta vegferðin, að horfa til heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna við innkaup líkt og flest fyrirtæki eru að gera og það þarf hugrekki til að breyta hlutunum. En við hefðum getað verið skýrari, en maður lærir víst svo lengi sem maður lifir. Við hættum ekki að auglýsa hjá neinum; það var alveg skýrt að það var ekki tilgangurinn þarna en við vildum hefja samtal og höfum átt mjög góðar umræður við flesta fjölmiðla varðandi þessi mál. Þetta er langtímaverkefni.“

Langar þig ekkert aftur í fjölmiðla?

„Ekki í dag en enginn veit ævi sína fyrr en öll er. Ég myndi ekki útiloka það neitt en ég hef fengið mikla útrás fyrir að skrifa að undanförnu sem er mikið áhugamál hjá mér þegar börnin eru sofnuð. Við Eva systir grínumst oft með það að við eigum eftir að vera með skemmtiþátt einhvern tímann í lífinu. En það kallar ekki á mig núna, ég brenn fyrir verkefnin mín í vinnunni og nýt þess þar að takast á við nýjar áskoranir.“

Hvernig skemmtiþáttur yrði það?

„Það er nokkuð ljóst að það er erfitt að endurgera Á tali,“ segir Edda og hlær.

Að efla konur

Bókin Framkoma kom í hillurnar í vikunni en í henni má finna ýmsan fróðleik um greinaskrif, ræðumennsku, fundarstjórn og framkomu, svo fátt eitt sé nefnt. Í bókinni eru einnig yfir tuttugu viðtöl við reynslumikið fólk sem gefur góð ráð, en Edda hefur lengi haft í huga að gefa út þessa bók.

„Þetta var mikil vinna en ég var búin að safna efninu saman um nokkurra ára skeið. Ég var strax byrjuð að taka niður punkta þegar ég vann við fjölmiðla og síðan héldum við Eva Laufey námskeið um framkomu fyrir konur, þannig að ég átti mikið efni til,“ segir hún.

„Einn tilgangurinn með þessari bók var að efla konur til dáða. Konur eru ragari við að láta í sér heyra þótt það hafi mikið breyst á síðustu árum. En ég held að það sé vettvangur fyrir konur að skrifa meira og vera meira áberandi með það sem þær kunna. Ég myndi vilja hvetja konur til að vera ófeimnari að láta heyra í sér og segja sínar skoðanir. Stundum erum við of varkárar. Við þurfum að setja markið hátt og stefna að því. Bókin getur vonandi hjálpað fólki til þess.“

Af hverju vildir þú skrifa þessa bók?

„Mér fannst ekki vera til neitt efni þegar ég var að hjálpa starfsfólki og stjórnendum við að koma fram. Mér fannst vanta lista yfir það sem fólk þyrfti að hafa í huga,“ segir Edda og segir galdurinn vera þann að vera vel undirbúinn en um leið leyfa sér að spinna á staðnum.

„Það er smá mótsögn í þessu því maður segir fólki að æfa sig en um leið að vera afslappað, en ef fólk gefur sér tíma til að æfa sig verður það afslappaðra. Því ef við kunnum og vitum mikið en getum ekki komið því frá okkur þá sannfærum við ekki marga. Hugmyndin með bókinni var að efla fólk, og ekki bara konur, til að þora að segja sína skoðun og láta heyra í sér,“ segir hún.

„Svo er enginn fullkominn og alltaf hægt að laga eitthvað í framkomu. Ég fór einu sinni í þáttinn hans Gísla Marteins og vinir mínir ákváðu að fá sér skot í hvert sinn sem ég segði sko. Þau voru orðin nokkuð hífuð í lok þáttar,“ segir hún og hlær.

Leynilegt stefnumót

Núverandi sambýlismaður og unnusti Eddu er Ríkharður Daðason hagfræðingur, en Edda og barnsfaðir hennar skildu eftir tólf ára samband árið 2014. Börnin, Emilía og Sigurður Halldórsbörn, eru tólf og níu ára og fósturdóttirin, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, er fjórtán. Edda og Ríkharður urðu par árið 2017.

Var þetta ást við fyrstu sýn?

„Nei, ætli það en það kom nú ansi fljótt. Hann hafði samband við mig og vildi bjóða mér í kaffi en það tók mig smátíma að samþykkja það. En hann var mjög þolinmóður og loksins fórum við á stefnumót og höfum verið föst saman síðan.“

Fóruð þið á kaffihús?

„Nei, við fórum og náðum í KFC! Ég vildi fara á mjög leynilegt stefnumót og hann mátti fara að sækja KFC. Það var kannski ekki hefðbundið rómantískt,“ segir hún og skellihlær.

Edda segist hafa viljað fara varlega í sakirnar í byrjun, og þá sérstaklega vegna barnanna. Þau héldu sambandinu leyndu í hálft ár en fóru svo að rugla saman reytum sínum.

„Börnin okkar þrjú ná vel saman sem er ekki sjálfgefið. Sambandið hefur verið merkilega einfalt en við erum með svipuð gildi í lífinu. Hann er aðeins eldri en ég, en það er fjórtán ára aldursmunur á okkur. Það kemur aftur inn á það að ég fæddist miðaldra; hann gerir mikið grín að því að ég sé miklu eldri en hann í fari mínu. Ég er kannski gömul sál. Mér fannst aldursmunurinn aldrei óþægilegur, ég velti því lítið fyrir mér. Hann er pínu andstæðan við mig; rólegur, afslappaður og nákvæmur. Það er meiri hraði á mér og ég finn að hann hefur róandi áhrif á mig og svo tekst honum að láta mig hlæja nógu mikið sem er eitt það mikilvægasta. Það geta allir vottað það að ég hef orðið mun slakari síðustu árin og vil ég núna helst vera heima sem mest að spila við fjölskylduna. Við erum með börnin viku og viku og leggjum mikið upp úr því að eiga góðar stundir með börnunum þegar þau eru hér og deila áhugamálum með þeim. Það sést kannski líka á boltunum hér í stofunni að fótboltinn á hug og hjarta allra heimilismeðlima.“

Skellti sér á skeljarnar

Edda og Ríkharður trúlofuðu sig nokkuð óvænt í brúðkaupi hjá Ragnhildi Steinunni Jónsdóttur og Hauki Inga Guðnasyni sem haldið var á Ítalíu í fyrrasumar.

„Hann var búinn að hugsa þetta; að fara að henda sér á skeljarnar, en það átti nú ekki að gerast þarna. Í lok veislunnar ætlaði Ragnhildur að kasta brúðarvendinum og það byrjaði einhver brandari með það að ég ætti að grípa hann. Mér fannst þetta mjög amerískt og bíómyndalegt en hugsaði, hver skrambinn, ég hendi mér í þetta! Tók tilhlaup og greip vöndinn og fólk fór að syngja nafnið hans Rikka. Það myndaðist rífandi stemning og hann skellti sér á skeljarnar þarna á staðnum. Og ég sagði að sjálfsögðu já. Sveppi klappaði Rikka á bakið og sagðist geta komið honum út úr þessu daginn eftir, en það hefur ekki orðið ennþá,“ segir hún og hlær.