Aron Pálmarsson
Aron Pálmarsson
Tvö Íslendingafélög hafa verið felld út úr Meistaradeild Evrópu í handknattleik en tvö eru komin í undanúrslit eftir að Evrópska handknattleikssambandið, EHF, ákvað í gær að fella niður sextán og átta liða úrslit Meistaradeildarinnar.

Tvö Íslendingafélög hafa verið felld út úr Meistaradeild Evrópu í handknattleik en tvö eru komin í undanúrslit eftir að Evrópska handknattleikssambandið, EHF, ákvað í gær að fella niður sextán og átta liða úrslit Meistaradeildarinnar. Keppninni verður lokið með því að leika fjögurra liða úrslit í Köln um næstu jól, dagana 28. og 29. desember. Liðin fjögur sem þangað fara eru þau sem enduðu í tveimur efstu sæta riðlanna tveggja í keppninni í vetur, Barcelona, París SG, Kiel og Veszprém. Aron Pálmarsson leikur með Barcelona og Guðjón Valur Sigurðsson með París SG en samningur Guðjóns Vals við frönsku meistarana rennur út í sumar.

Tvö önnur Íslendingalið, Szeged frá Ungverjalandi og Aalborg frá Danmörku, voru komin í sextán liða úrslit en hafa nú lokið keppni. Stefán Rafn Sigurmannsson leikur með Szeged og þeir Janus Daði Smárason og Ómar Ingi Magnússon með Aalborg, en Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari danska liðsins.