Søren Ulrik Thomsen
Søren Ulrik Thomsen
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is Krísan sem hófst innan Sænsku akademíunnar í árslok 2017 hefur nú leitt til alvarlegrar krísu innan Dönsku akademíunnar með þeim afleiðingum að fjórir meðlimir hafa sagt sig frá störfum í henni.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

Krísan sem hófst innan Sænsku akademíunnar í árslok 2017 hefur nú leitt til alvarlegrar krísu innan Dönsku akademíunnar með þeim afleiðingum að fjórir meðlimir hafa sagt sig frá störfum í henni. Fjallað var fyrst um málið í danska dagblaðinu Information , en aðrir danskir miðlar sýna málinu mikinn áhuga.

Danska akademían var stofnuð 1960 með það að markmiði að efla danska tungu og bókmenntir. Í því skyni veitir stofnunin meðal annars fjölda verðlauna árlega á sviði bókmennta sem þykja sum hver þau virtustu þar í landi. Einn stofnenda var Karen Blixen og að hennar ósk fara fundir ávallt fram í húsakynnum hennar í Rungstedlund einu sinni í mánuði, þar sem í dag er rekið safn um skáldkonuna sem lést 1962. Meðlimir geta mest orðið 20 talsins og eru, líkt og hjá systurstofnuninni í Svíþjóð, valdir fyrir lífstíð.

Stidsen varði vin sinn Engdahl

Þegar krísa Sænsku akademíunnar stóð sem hæst árið 2018 hóf Marianne Stidsen, lektor við Kaupmannahafnarháskóla sem verið hefur meðlimur frá 2014, að skrifa greinar og veita viðtöl til varnar vini sínum Horace Engdahl, sem setið hefur í Sænsku akademíunni frá 1997, og barðist ötullega fyrir hagsmunum hjónanna Jean-Claude Arnault og Katarinu Frostenson, sem sat í Sænsku akademíunni 1992-2019. Eins og kunnugt er snerist krísan innan Sænsku akademíunnar um það hvernig taka skyldi á þeim ásökunum að Arnault hefði áratugum saman brotið kynferðislega á konum (en hann var 2018 dæmdur í fangelsi fyrir tvær nauðganir), lekið nöfnum komandi Nóbelsverðlaunahafa og átt óeðlileg fjárhagsleg tengsl við Sænsku akademíuna í gegnum eiginkonu sína. Stidsen óskaði eftir því að vinur hennar fengi að kynna sjónarmið sín í málinu á fundi hjá Dönsku akademíunni, en því var hafnað. Í innleggjum sínum kynnti Stidsen sig ávallt sem meðlim í Dönsku akademíunni og þótti ýmsum innan stofnunarinnar að hún væri með því að misnota Dönsku akademíuna til að auka þunga orða sinna. Stidsen hefur ráðist harkalega á femínista og uppnefnt þá „femínasista“. Í aðsendri grein sem birtist í Berlingske 21. október sl. líkti hún #MeToo-hreyfingunni við „hryðjuverkasamtök“ og hvatti til þess að #MeToo-aktivistar yrðu sóttir til saka fyrir „hryðjuverk“ sín.

Konur þurfa bara að segja nei

Kornið sem virðist hafa fyllt mælinn er aðsend grein Stidsen sem birtist í Politiken 28. febrúar sl. þar sem hún réðst harkalega á fyrirliggjandi tillögu dönsku ríkisstjórnarinnar um að breyta hegningarlögum á þá leið að nauðgun sé skilgreind út frá skorti á samþykki. Þar gaf hún lítið fyrir þær skýringar að konur gætu frosið af hræðslu og sagði það einfaldlega á þeirra ábyrgð að segja „nei takk“ ef þær vildu ekki taka þátt í kynmökum. Tók hún fram að það væri engin ástæða til að breyta lögum heldur uppeldisaðferðum ef konur gætu ekki sagt nei. Í sömu grein varaði hún einnig við því sem hún nefndi „masisma“ sem væri nýtt form af „mæðraveldissósíalisma“. Rúmri viku síðar, þ.e. 8. mars, sendu átta meðlimir Dönsku akademíunnar Stidsen sameiginlegan tölvupóst þar sem þau skoruðu á hana að draga sig út úr störfum stofnunarinnar, sem hún neitaði. Póstsamskiptunum var í framhaldinu lekið til Weekendavisen sem birti bréfin við lítinn fögnuð Sørens Ulriks Thomsen, ritara Dönsku akademíunnar, enda er það brottrekstrarsök að rjúfa þann trúnað sem ríkir um störf stofnunarinnar. Í seinustu viku tilkynntu síðan fjórir meðlimir Dönsku akademíunnar að þeir væru hættir störfum, en það mun ekki hafa gerst áður í sögu stofnunarinnar.

Eitrað andrúmsloft

Ein þeirra sem völdu að hætta er Suzanne Brøgger sem verið hefur meðlimur Dönsku akademíunnar síðan 1997. Í skriflegu svari til Information segist hún ósátt við hvernig Danska akademían hafi verið misnotuð í pólitískum og hugmyndafræðilegum tilgangi sem eitrað hafi andrúmsloftið og spillt vinnufundum. Tekur hún fram að ótækt sé að þau sem ekki sætti sig við kynferðisofbeldi séu uppnefnd „masismar“ með vísan í nasisma. Segir hún Dönsku akademíuna hafa liðið fyrir fráleitar yfirlýsingar Stidsen og hún sjái sig því tilneydda til að hætta störfum í mótmælaskyni.

Weekendavisen hefur eftir Thomsen að hann undrist það að áttmenningarnir hafi ekki svarað ummælum Stidsen á opinberum vettvangi áður en þau reyndu að bola henni frá störfum. Brøgger hafnar þessu í Politiken og segir engan geta gert kröfu um að honum sé svarað opinberlega. „Við erum skilgreind út frá þeim málefnum sem við tökum þátt í ritdeilu um. Af þeim sökum hef ég ávallt haldið mig frá slíkum deilum,“ segir Brøgger.