[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Starfsmenn Landhelgisgæslunnar stefna að því í lok maímánaðar að steypa fyrir op við olíutanka í flaki El Grillo á botni Seyðisfjarðar. Um talsverða aðgerð er að ræða og samþykkti ríkisstjórnin nýverið 38 milljóna króna framlag til þess að koma í veg fyrir olíuleka úr skipinu. Gert er ráð fyrir að varðskipið Þór fari á staðinn, minnst fimm til sex kafarar taki þátt í aðgerðinni og afþrýstiklefi verði um borð í varðskipinu. Til að tryggja öryggi verður varðskipið búið mengunarvarna- og mengunarhreinsibúnaði meðan á aðgerðinni stendur.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Starfsmenn Landhelgisgæslunnar stefna að því í lok maímánaðar að steypa fyrir op við olíutanka í flaki El Grillo á botni Seyðisfjarðar. Um talsverða aðgerð er að ræða og samþykkti ríkisstjórnin nýverið 38 milljóna króna framlag til þess að koma í veg fyrir olíuleka úr skipinu. Gert er ráð fyrir að varðskipið Þór fari á staðinn, minnst fimm til sex kafarar taki þátt í aðgerðinni og afþrýstiklefi verði um borð í varðskipinu. Til að tryggja öryggi verður varðskipið búið mengunarvarna- og mengunarhreinsibúnaði meðan á aðgerðinni stendur.

Mikil tæring í flakinu

Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerða hjá Landhelgisgæslunni, segir að aðgerð sem þessi kalli á góðan undirbúning. Flakið sé mikið tært, en 76 ár eru liðin frá því að skipinu var sökkt, og við skoðun í fyrrahaust kom í ljós svartolíuleki úr mannopi sem liggur ofan í einn af olíutönkum skipsins. Aðeins á þessum eina stað varð vart við olíuleka.

Ásgrímur segir að ekki sé ætlunin að hreinsa olíu úr skipinu, heldur að steypa fyrir mannopið þar sem olía seytlar út. Á þann hátt takist vonandi að koma í veg fyrir mengun, þó hugsanlega aðeins tímabundið því með aukinni tæringu hafi líkur á leka úr skipinu aukist. Hugsanlega þarf að steypa fyrir fleiri tanka í framtíðinni.

Steypumót úr áli og stáli

Að sögn Sigurðar Ásgrímssonar, yfirmanns séraðgerða hjá Landhelgisgæslunni, er þessa dagana verið að smíða steypumót úr áli og stáli utan um mannholið. Um 32 metrar eru niður á dekk skipsins og verður vinnuprammi fyrir ofan El Grillo. Sérstöku sementi verður síðan dælt með steypudælu í gegnum barka frá prammanum í mótið utan um mannholið. El Grillo var tankskip og fjöldi tanka í því og mannop ofan í hvern þeirra.

„Þegar kafað er í flaki vegna svona vinnu er mikilvægt að aðgát sé höfð varðandi skotfæri og sprengikúlur,“ segir Ásgrímur. Talsvert var af skotfærum og sprengikúlum í El Grillo þegar skipinu var sökkt, enda var skipið ekki aðeins olíubirgðaskip og auk þess vopnum búið. Hann segir að þó svo að ráðist hafi verið í hreinsanir í skipinu nokkrum sinnum sé sprengiefni úr því enn að koma í ljós. Síðast í fyrrahaust hafi kafarar Landhelgisgæslunnar, sem skoðuðu aðstæður, komið í land með skotfæri úr El Grillo. Miðað er við að þrír kafaranna sem taka þátt í aðgerðinni séu jafnframt sprengjusérfræðingar.

Í samantekt Landhelgisgæslunnar eftir könnunarleiðangurinn síðasta haust kemur fram að 23 sprengikúlur hafi fundist á brúarvæng skipsins, sem sprengjusérfræðingar hafi fjarlægt og síðan eytt. Lögð er áhersla á að mikilvægt sé að gera langtímaáætlun um hreinsun og eftirlit með flakinu.

Minna af olíu í flakinu?

Olíubirgðaskipið El Grillo hafði þjónað herskipum bandamanna í seinni heimsstyrjöldinni. Talið var að níu þúsund tonn af olíu hefðu verið í skipinu þegar þýskar herflugvélar gerðu árás á það í Seyðisfirði í febrúar 1944. Olía lak úr skipinu eða var dælt úr því áður en það sökk. Meðal annars var olíu dælt úr skipinu 1952 og aftur 2001 auk þess sem djúpsprengjur hafa verið fjarlægðar úr því.

Að lokinni hreinsun í skipinu í september 2001 sagði í tilkynningu frá umhverfisráðuneytinu: „Aðgerðum við El-Grillo í Seyðisfirði er lokið. Kannaðir voru allir 36 tankar skipsins og fannst olía í 13 þeirra. Magn olíunnar reyndist vera 91 tonn sem er minna en það sem menn óttuðust að gæti verið í flakinu. Líklegt má telja að annaðhvort hafi El Grillo ekki verið fulllestað þegar því var grandað í síðari heimsstyrjöldinni eins og talið hefur verið eða að verulegt magn olíu hafi borist út í umhverfið skömmu eftir að skipinu var sökkt.

Þessi hreinsunaraðgerð er sú umfangsmesta á þessu sviði sem ráðist hefur verið í hér við land. Hættu á bráðri olíumengun í Seyðisfirði hefur því verið afstýrt, en næstu árin er þó ekki hægt að útiloka minniháttar leka frá skipinu frá þeim innansleikjum sem enn gætu leynst undir bitum tankanna...

Nú þegar lokið er við að fjarlægja sprengjur og skotfæri ásamt því að fjarlægja olíu úr tönkum skipsins mun El Grillo njóta aukins aðdráttarafls sportkafara þar sem 134 metra langt flakið liggur á 50 metra dýpi í miðjum Seyðisfirði rétt utan hafnarinnar. Mestu skiptir að með hreinsun skipsins hefur verið komið í veg fyrir hættu á bráðri mengun í Seyðisfirði.“

Olía lekur þegar sjór hlýnar

Þá var metið að 10-15 tonn af olíu væru enn í skipinu. Í frétt frá umhverfisráðuneytinu 17. apríl síðastliðinn segir að í aðgerðinni 2001 hafi rúm 60 tonn af hreinni olíu náðst úr flakinu. „Síðan hefur reynslan sýnt að olía leki úr flakinu þegar sjór hlýnar á sumrin. Í könnunarleiðangri Landhelgisgæslunnar í október sl. kom í ljós að töluverður olíuleki var úr opi við olíutanka skipsins vegna tæringar. Því er mikilvægt að bregðast við lekanum hið fyrsta til að fyrirbyggja neikvæð umhverfisáhrif í firðinum,“ segir í frétt ráðuneytisins.

Ein var til sýnis í byggðasafni

Í frétt í Morgunblaðinu fyrr í vetur segir að vitað sé að kúlur úr loftvarnabyssum El Grillo séu til víða um land og sumar þeirra séu virkar. Þannig fékk Landhelgisgæslan nýlega tilkynningu um slíka kúlu sem hafði verið til sýnis í byggðasafninu á Görðum á Akranesi í áratugi. Hún var með fullri hleðslu, enda hafði henni ekki verið skotið. Þegar sprengieyðingarmennirnir reyndu að ná hleðslunni úr kúlunni sprakk hún í tætlur.

Í ágúst 2018 var greint frá því í blaðinu að tveir drengir á Seyðisfirði hefðu fundið fágætan hlut á förnum vegi. Um var að ræða virka sprengjukúlu og voru kallaðir til sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar, sem gerðu sprengjuna óvirka og eyddu henni. Drengirnir sluppu vel, því þeir höfðu leikið sér að sprengjunni og kastað henni á milli sín áður en þeir gerðu foreldrum sínum viðvart um fundinn, segir í fréttinni.