Andlitsgríma Kórónuveiran hefur breytt miklu á skömmum tíma.
Andlitsgríma Kórónuveiran hefur breytt miklu á skömmum tíma. — AFP
Kristján H. Johannessen khj@mbl.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Á meðan flest ríki heims ræða nú til hvaða aðgerða sé best að grípa í von um að sporna við faraldri kórónuveiru er einn fræðimaður, Isaac Ben-Israel, prófessor og forstöðumaður öryggisfræða við Háskólann í Tel Aviv, sem segir aðgerðir þjóða ekki skipta máli. Kórónuveiran muni svo gott sem hverfa á um 70 dögum. Er það The Telegraph sem greinir frá.

Ben-Israel heldur því fram að rannsóknir hans sýni að Covid-19, sjúkdómurinn sem kórónuveiran veldur, nái toppi sínum á 40 dögum en eftir það fjari fljótt undan honum. Það að ríki grípi til umfangsmikilla lokana skilar, að hans sögn, litlum sem engum árangri öðrum en þeim að stórskaða efnahag viðkomandi ríkis. Rannsóknir Ben-Israel sýni að hlutfall daglegra nýsmita af heildarsmitum séu í upphafi um 30% en minnki niður í 10% eftir sex vikur. Viku síðar verður hlutfallið komið niður fyrir 5%. „Rannsóknir okkar sýna að þetta er stöðugt mynstur, þvert á ríki,“ segir m.a. í rannsókn hans, sem enn er óritrýnd.

Samanburður sagður erfiður

„Það sem kemur á óvart er að þessi niðurstaða á jafnt við um þau ríki sem gripið hafa til mjög harðra aðgerða, með því meðal annars að lama efnahag sinn, og þeirra sem gripið hafa til mun vægari úrræða og haldið uppi eðlilegu lífi,“ segir hann.

Umfjöllun The Telegraph segir að erfitt sé að slá á föstu að útreikningar Ben-Israel séu án galla þar sem ekkert ríki virðist með öllu hafa sleppt því að grípa til einhverra aðgerða og skortir því þann samanburð. Er Svíþjóð nefnt í þessu samhengi en Svíar hafa verið nokkuð gagnrýndir undanfarið fyrir slök viðbrögð við veirunni borið saman við önnur ríki Evrópu. Þá er samanburður einnig sagður erfiður vegna þeirra ólíku viðbragða sem ríki gripu til, en lesa má meira um þetta mál á mbl.is í vefútgáfu Morgunblaðsins.