Gengi hlutabréfa Icelandair Group lækkaði skarpt við opnun markaða í gær. Nam lækkunin í upphafi dags tæpum 15%. Voru miklar sveiflur á því meðan Kauphöll var opin og á tímabili nam lækkunin 17%.

Gengi hlutabréfa Icelandair Group lækkaði skarpt við opnun markaða í gær. Nam lækkunin í upphafi dags tæpum 15%. Voru miklar sveiflur á því meðan Kauphöll var opin og á tímabili nam lækkunin 17%. Þegar lokað var fyrir viðskipti nam lækkunin frá fyrri degi 13,8% en viðskipti námu 163,3 milljónum króna. Stendur gengi félagsis í 2,5 og hefur ekki verið lægra síðan árið 2009. Er markaðsvirði félagsins 13,6 milljarðar króna og hefur það lækkað um 66,9% frá áramótum.

Þessa dagana vinna stjórnendur félagsins að því að endurskipuleggja rekstur þess í kjölfar þess að nær allar flugsamgöngur til landsins og frá lömuðust í marsmánuði sökum útbreiðslu kórónuveirunnar. Vinna Íslandsbanki, Landsbankinn og Kvika banki ásamt erlendum ráðgjöfum að því að koma rekstri félagsins fyrir vind. Heimildir Morgunblaðsins herma að stjórnvöld fylgist grannt með stöðu mála. Hins vegar standi ekki til að ríkissjóður komi að félaginu fyrr en og ef félagið hefur náð nýjum samningum við stéttarfélög starfsfólks, leigusala og hluthafa sem að stærstum hluta eru íslenskir lífeyrissjóðir.

Stór flutningasamningur

Í gærmorgun var greint frá því að Icelandair hefði náð samningi við flutningamiðlunarfyrirtækið DB Schenker um að minnsta kosti 45 fraktflugsferðir milli Shanghæ í Kína og München í Þýskalandi með lækninga- og hjúkrunarvörur fyrir heilbrigðisyfirvöld í Evrópu. Þá felur samningurinn einnig í sér nokkrar ferðir milli fyrrnefndrar borgar í Kína og Chicago í Bandaríkjunum með millilendingu hér á landi. Um er að ræða daglegt flug til Kína en fyrsta vélin heldur af landi brott héðan í dag. Þremur Boeing 767-vélum Icelandair verður breytt tímabundið vegna verkefnisins.

Heimildir Morgunblaðsins herma að til skoðunar sé að útvíkka samninginn við DB Schenker verulega. ses@mbl.is