Sigurður G. Guðjónsson
Sigurður G. Guðjónsson
Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður segir kröfuhafa hótels hafa neitað að taka tillit til erfiðra aðstæðna í ferðaþjónustu. Algjört tekjuhrun sé í greininni út af kórónuveirufaraldrinum.

Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður segir kröfuhafa hótels hafa neitað að taka tillit til erfiðra aðstæðna í ferðaþjónustu. Algjört tekjuhrun sé í greininni út af kórónuveirufaraldrinum.

„Ég sendi fyrir hönd eins hótelhaldara tilkynningu til leigusala um að ekki yrði greidd leiga vegna óviðráðanlegra atvika – covid 19 – sem fæli í sér efnda hindrun. Þessu var ekki sérlega vel tekið og fékk ég það svar til baka bréflega frá lögmanni hans að þá yrði gengið að tryggingum fyrir leigunni.

Þegar sú afstaða lá fyrir fór ég að velta fyrir mér hvort ferðaþjónustan væri ofurseld þeim sem hafa lánað til hennar, eða leigja henni fasteignir, og geti án tillits til alls gengið að eignum og ábyrgðum sem eru settar fyrir leigu. Niðurstaða álitsgerðar Viðars Más Matthíassonar (sjá blaðsíðu 6 í Morgunblaðinu í dag) er auðvitað sú að það sé ekki hægt. Það geti enda fjórar reglur fjármunaréttar leitt til þess að menn komist undan því að greiða í dag, þó svo þeir þurfi að greiða síðar. Þess vegna er svo mikilvægt að ríkisvaldið komi að þessu máli og velti því fyrir sér hvort ferðaþjónustan geti borgað af lánum sem hefur verið frestað, þegar ferðamenn fara að streyma á ný til landsins. Nú eða að ríkisvaldið geri eins og í hruninu og setji þess vegna lög um mögulega vexti og verðbætur til þess að hér fari ekki allt á hliðina aftur eftir tvö, þrjú ár. Þegar neyðarlögin voru sett, og mörg önnur lög í kjölfar hrunsins, var gengið á eignarétt hinna og þessa en talið óhjákvæmilegt að setja þau til þess að bjarga þjóðarhagsmunum. Nú þegar stærsta atvinnugreinin á Íslandi er í greiðsluerfiðleikum, vegna þess að hún hefur ekki tekjur, hlýtur ríkisvaldið að hafa einhverjar skyldur gagnvart henni og öllum þeim sem hafa afkomu af þessum rekstri,“ segir Sigurður.

Nú blasi við auðn í ferðaþjónustunni. Hótelhaldarar segi honum að ekki sé reiknað með umtalsverðum fjölda gesta fyrr en vorið 2021. Nú sé búið að afskrifa þetta ár.