Jón Ísberg, sýslumaður Húnvetninga, var fæddur á Möðrufelli í Eyjafirði 24. apríl 1924, sonur Árnínu Hólmfríðar Ísberg húsmóður og Guðbrands Ísberg sýslumanns.

Jón Ísberg, sýslumaður Húnvetninga, var fæddur á Möðrufelli í Eyjafirði 24. apríl 1924, sonur Árnínu Hólmfríðar Ísberg húsmóður og Guðbrands Ísberg sýslumanns. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1946 og embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1950. Hann varð fulltrúi sýslumanns Húnavatnssýslu á Blönduósi 1951 og var sýslumaður Húnvetninga árin 1960 til 1994.

Jón sat meðal annars í hreppsnefnd áratugum saman og var oddviti í níu ár. Einnig sat hann í byggingarnefndum vegna heilbrigðisstofnana, félagsheimilis, skóla og bókasafns. Á háskólaárum sínum sat Jón í stjórn Vöku og var formaður Orators, félags laganema, og síðar formaður Sýslumannafélags Íslands. Jón var enn fremur formaður Skógræktarfélags Austur-Húnvetninga, Lionsklúbbs Blönduóss og Veiðifélags Laxár á Ásum, skátaforingi og safnaðarfulltrúi. Börn Jóns og konu hans, Þórhildar Guðjónsdóttur héraðsskjalavarðar, eru sex: Arngrímur héraðsdómari, Eggert Þór framkvæmdastjóri, Guðbrandur Magnús prentari, Guðjón hagfræðingur, Jón Ólafur sagnfræðingur og Nína Ósk mannfræðingur.