Úr Orthodox Þættirnir segja af 19 ára stúlku sem er gefin manni samkvæmt hefðum bókstafstrúaðra gyðinga í Williamsburg í Brooklyn ´í New York.
Úr Orthodox Þættirnir segja af 19 ára stúlku sem er gefin manni samkvæmt hefðum bókstafstrúaðra gyðinga í Williamsburg í Brooklyn ´í New York.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, dagskrárgerðarmaður á Rás 2, var beðin að mæla með listaverkum, afþreyingu og dægradvöl nú á tímum samkomubanns. „Samkomubann, lítil viðvera í vinnu og meiri við tölvuna heima.

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, dagskrárgerðarmaður á Rás 2, var beðin að mæla með listaverkum, afþreyingu og dægradvöl nú á tímum samkomubanns.

„Samkomubann, lítil viðvera í vinnu og meiri við tölvuna heima. Allt hefur þetta kallað á að nýta tímann, leika sér og njóta. Var því einstaklega ánægð þegar ég datt niður á frábæra þætti á Netflix. Unorthodox eru fjórir þýsk-amerískir þættir um 19 ára stúlku í New York. Hún er gift samkvæmt hefðum bókstafstrúaðra gyðinga í Williamsburg, litlu hverfi innan Brooklyn í borginni. Þættirnir eru að mestu á jiddísku. Afar áhugavert er að gægjast inn í þetta fastmótaða samfélag í þessari nútímaborg og sjá hana brjótast út úr því. Ástarsaga sem gefur svo miklu meira en tímann sem tekur að horfa á hana. Svo fá þættirnir dúndureinkunn eða 8,2 á IMDb-kvikmyndavefnum.

Morgnarnir eru eðalstundin, hvort sem ég er í útsendingu í Morgunþætti Rásar 1 og 2 eða heima. Vakna fyrir allar aldir. Heima leyfi ég mér að fylgjast með hugleiðslum Guðna Gunnarssonar hjá Rope Yoga-setrinu. Hann streymir beint klukkan sjö á morgnana á Facebook og hægt að finna upptökurnar á eftir. Listin er allsráðandi í orðaforða hans. Hann hefur krufið merkinguna og snúið svo við skiljum betur gryfjurnar og gildismatið sem við höfum innmúrað í málið. Bókin hans Máttur hjartans liggur í gluggakistunni við rúmið mitt, tek eina og eina síðu nú þegar ég kemst ekki í jógatímana, sem eru restart-takkinn á kollinum mínum.

Þegar algjört eirðarleysi grípur mig á þessum kórónutíma, nú eða öðrum, finnst mér frábært að fletta í gegnum vefverslanir og sjá hvað er í boði. Listverkauppboð Gallerís Foldar eru einstök skemmtun. Hef mjög gaman af því að henda inn einu og einu tilboði í verk sem ég hef aldrei séð. Maður veit aldrei. Nú hangir ofna listaverkið „Landslag“ eftir Brittu Erixon uppi í stofunni minni. Hélt þetta væri málverk. Toppflott.