Bomba Mamma Mia er dans- og söngvasprengja og laus við allt raunsæi. Líkt og Cats er hún kvikmynduð útgáfa af gríðarvinsælum söngleik sem skrifaður var út frá sígrænum smellum sænsku poppsveitarinnar ABBA.
Bomba Mamma Mia er dans- og söngvasprengja og laus við allt raunsæi. Líkt og Cats er hún kvikmynduð útgáfa af gríðarvinsælum söngleik sem skrifaður var út frá sígrænum smellum sænsku poppsveitarinnar ABBA.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Söngvamyndin hefur vaxið og þroskast síðan þá en meginreglan er sú að söngvamyndir sem taka sig ekki of alvarlega og leyfa sér að virða lögmál veruleikans að vettugi eru einfaldlega betri bíómyndir.

Af kvikmyndum

Brynja Hjálmsdóttir

hjalmsdottir@gmail.com

Söngvamyndir hafa alltaf verið umdeildar, fólk ýmist elskar eða hatar söngleiki. Þó hafa allir, jafnt almenningur sem gagnrýnendur, keppst við að ausa yfir myndina Cats óhróðri. Nokkrir málsmetandi einstaklingar fjölluðu t.a.m. um hana í Lestarklefanum á Rás 1 fyrir skömmu og þar féllu ummæli á borð við: „Þetta er bara siðrof“, „Mér fannst þetta ógeðsleg mynd“ og „Ég vildi eiginlega bara leggjast undir sæng og gleyma þessum klukkustundum sem var stolið af mér og ég fæ aldrei aftur“.

Af hverju kettir?

Kvikmynda- og poppkúltúrfræðingurinn Lindsey Ellis fór í saumana á Cats á Youtube-rás sinni nýverið í klukkutímalöngu myndbandi sem heitir einfaldlega „Why is Cats?“ Í því segir hún m.a. frá því hvernig upprunalegi söngleikurinn varð til. Höfundur hans, Andrew Lloyd Webber, fékk þá flugu í höfuðið að gaman væri að semja verk sem byggðist á glettnu ljóðasafni um ketti eftir T.S. Eliot, sem hann las sundur og saman í barnæsku. Þar sem stykkið byggist á ljóðasafni án línulegrar framvindu hefur söngleikurinn ekki venjulegan söguþráð. Það er engin aðalpersóna og sagan er í raun samsafn allskonar atriða frekar en línuleg atburðarás. Vegna þessa þurfti Webber, sem hafði feikilega sterkt orðspor eftir að hafa samið fjöldann allan af gríðarlega vinsælum söngleikjum, samt að berjast með kjafti og klóm fyrir þessu undarlega verkefni. Ekkert leikhús vildi sýna það, honum gekk illa að fá fjármagn og endaði á að þurfa að kosta verkefnið sjálfur. Þetta var sem sagt mikið ástríðuverkefni sem borgaði sig þó á endanum, fólk hreifst af búningunum, dönsunum og sjónarspilinu og sýningin sló í gegn.

Vandamál kvikmyndarinnar Cats eru mörg; leikaravalið, leikstjórnin, brellurnar, handritið, allt er þetta skelfilegt. Lindsey Ellis telur að stærsta vandamál myndarinnar felist þó í undarlegri meðferð á efniviðnum og í raun algjörum misskilningi á ætlunarverki stykkisins. Hér er kosið að skapa söngleik með Hollywood-legri framvindu og miklu skemmtanagildi en jafnframt er kosið að gera myndina í raunsæislegum stíl. Hún telur að raunsæisleiðin sé farin af því að aðstandendur myndarinnar vonuðust til þess að hún gerði það gott á Óskarverðlaununum, þar sem raunsæislegum myndum hefur vegnað betur í gegnum tíðina. Með því að reyna að samræma tvö ósamræmanleg markmið – að gera söngvaskemmtun um ketti sem er samt raunsæisleg – skjóta aðstandendur Cats sig í báða fætur og myndin verður hvorugt. Niðurstaðan er eitt allsherjarlestarslys.

Allt í plati

Söngleikurinn er upprunninn í leikhúsi og þar er hans raunverulega heimili. Hann tengist auðvitað óperuforminu en munurinn er sá að í óperum er sungið nánast allan tímann en í söngleikjum er leikinn texti brotinn upp með söngatriðum. Eftir að talmyndir komu til sögunnar urðu söngvamyndir ein vinsælasta kvikmyndagrein í heiminum, jafnt í klassísku Hollywood sem og í öðrum löndum.

Kvikmyndin er í eðli sínu raunsæislegra form en leikhúsið. Þótt miðillinn sé ekki spegill raunveruleikans þá lítur kvikmyndin meira út eins og gluggi inn í veruleikann en leikhús. Leikhúsið er „óraunverulegra“ rými, leikhúsgestur þarf að setja sig í ákveðnar stellingar til að geta tekið á móti trúverðugleika miðilsins, og samþykkja að taka þátt í sögunni þótt hann viti að leikmyndin og leikararnir séu bara plat. Söngleikir spegla ekki veruleikann nema síður sé, það brestur enginn í söng og dans í raunveruleikanum, en áhorfendur eru ekki í miklum vandræðum með að samþykkja þessa u-beygju frá hversdagsleikanum þegar þeir eru í leikhúsi því þeir eru nú þegar búnir að gangast lögmálum leikhússins á band. Vegna þessa minntu fyrstu kvikmyndasöngleikirnir frekar á leikhús en venjulega kvikmynd, söng- og dansatriði voru oft tekin upp á settum sem minntu á leiksvið og myndavélin sat kyrr, líkt og kyrrstæður áhorfandi í sal.

Söngvamyndin hefur vaxið og þroskast síðan þá en meginreglan er sú að söngvamyndir sem taka sig ekki of alvarlega og leyfa sér að virða lögmál veruleikans að vettugi eru einfaldlega betri bíómyndir. Í þessu samhengi er áhugavert að bera saman tvær nýlegar myndir, La La Land (2016) og Mamma Mia (2008).

La La Land er eins konar óður til klassískra Hollywood-söngleikja eins og Singin' in the Rain , þó með nútímalegum brag. Þau atriði sem minna mest á hefðbundna stílinn eru langbestu atriðin en þegar myndin fer að daðra við raunsæið verður hún hallærisleg. Myndin fékk almennt góða dóma en hún var alls ekki óumdeild. Hún hreppti líka nokkur Óskarsverðlaun, þó ekki aðalverðlaunin, þótt nafn myndarinnar hafi verið lesið upp fyrir misskilning eins og frægt er orðið. Mamma Mia er dans- og söngvasprengja þar sem allt raunsæi er sent lönd og leið. Myndin fékk engin Óskarsverðlaun, sennilega þótti hún of flippuð til að falla að Óskars-staðlinum, en hún fékk reyndar Golden Globe-verðlaun í flokki gaman- og söngvamynda. Hún fékk á heildina litið mjög slappa dóma en varð engu að síður gríðarlega vinsæl og halaði t.d. inn töluvert meiri tekjur en La La Land . Þetta má vera til marks um að Mamma Mia falli betur að kröfum áhorfenda þegar kemur að söngleikjum.

Teiknaði söngleikurinn

Disney-samsteypan byrjaði snemma að tileinka sér söngleikjaformið í teiknimyndum sínum með góðum árangri, þar sem teiknimyndaheimurinn er líka fantasíuheimur. Eftir því sem leið á 20. öldina fóru vinsældir leiknu söngvamyndarinnar dvínandi en teiknaðir söngleikir létu engan bilbug á sér finna. Raunar er tíundi áratugurinn oft kallaður „gullöld Disney“, sem sendi þá frá sér sígildar myndir á borð við Konung ljónanna , Aladdín , Pocahontas og Hringjarann í Notre Dame .

Nú hefur Disney tekið þá hættulegu stefnu að gera leiknar útgáfur af þessum gullaldarmyndum og þar með bæta óþarfa raunsæi inn í formúlu sem virkar. Auðvitað er haldið í einhverja töfra, myndirnar eru ennþá að miklu leyti teiknaðar í tölvum. Hin ofurraunverulega tölvuteiknaða mynd býður samt ekki upp á sömu endalausu möguleika og hefðbundið teiknimyndaform. Þar að auki er mun meiri hætta á að falla niður í ókennileikadalinn (e. uncanny valley) en í þann dal falla fyrirbæri sem eru skuggalega lík mönnum en eru samt einhvern veginn ekki alveg mennsk. Þann dal féllu mannkettirnir í Cats til dæmis allharkalega ofan í.

Að sjálfsögðu eru þessar myndir vinsælar, þær reiða sig á að aðdáendur upprunalegu myndanna kaupi sér miða til að fóðra nostalgíuna. Það er svakalegt hvað þessar myndir skapa mikil auðæfi, nýja Aladdín- myndin græddi til dæmis meira en milljarð bandaríkjadala í miðasölu á heimsvísu og hinn nýi Konungur ljónanna 1,7 milljarða. Þetta eru ótrúlegar tölur!

Þótt ég hafi engin gögn því til stuðnings langar mig samt að fullyrða að þrátt fyrir vinsældir þessara endurvinnslumynda séu flestir sammála um að upprunulegu myndirnar séu miklu betri.

Horft til framtíðar

Áðurnefnd Lindsey Ellis bendir á einn ljósan punkt í öllu Cats -kjaftæðinu, sem er að kannski muni afhroðið sem myndin galt verða til þess að binda enda á þessa tegund kvikmynda. Hún segir að við getum leyft okkur að vona að Hollywood láti sér þetta að kenningu verða og hætti í eitt skipti fyrir öll að blanda saman þessum ósamræmanlegu fagurfræðilegu stefnum, að raunsæishneigðir kvikmyndagerðarmenn láti söngleikinn í friði og leyfi honum að leika lausum hala í griðlandi ævintýraheimsins. Miðað við tölurnar er reyndar er ólíklegt að Disney hætti endurvinnsluframleiðslu sinni í bráð, ekki á meðan þær spúa milljörðum í vasa fyrirtækisins.
Söngvamyndir eru umræðuefni nýjasta þáttar kvikmyndahlaðvarpsins BÍÓ á mbl.is.