Sævar Kristinsson
Sævar Kristinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Sævar Kristinsson og Karl Friðriksson: "Því miður er stefnumótun, bæði opinberra aðila og fyrirtækja, of oft beint að einni tiltekinni framtíð, sem óvíst er hvort muni raungerast eða ekki."

Áherslur í rannsóknum, þróun og nýsköpun á öllum sviðum hljóta að þurfa að taka til þeirra áskorana sem eru handan við sjóndeildarhringinn. Rætt hefur verið um að samkeppni í dag komi úr ólíkari áttum en verið hefur. Þar er meðal annars rætt um samkeppni hlutanna, samanber internet hlutanna (e. Internet of Things). Í slíkum tilfellum má segja að hefðbundin samkeppnisgreining dugi ekki til þar sem eingöngu eru skoðaðir núverandi samkeppnisaðilar, því samkeppnin geti átt uppruna sinn í upptöku tækninýjunga eða nýrra viðhorfa í samfélaginu.

Vegir liggja til allra átta

Bóndi norðan af Ströndum sagði í viðtali árið 2009 að „Framtíðin væri meira en í eina átt“. Þetta er einmitt eitt af grunnatriðum framtíðarfræða, það að skilja að við þurfum að búa okkur undir mismunandi og ólíkar framtíðir. Því miður er stefnumótun, bæði opinberra aðila og fyrirtækja, of oft beint að einni tiltekinni framtíð, sem óvíst er hvort muni raungerast eða ekki. Þetta kallast að hafa trú á einni tiltekinni framvindu sem í sjálfu sér er ágætt en þá erum við samt sem áður ekki að undirbúa okkur undir aðra áhersluþætti sem geta umbylt starfsumhverfinu og þar með rekstrinum hjá okkur. Því er nauðsynlegt að nýta sviðsmyndir þar sem fjallað er um ólíkar atburðarásir og drifkrafta þeirra, þegar verið er að leggja mat á stefnu og mögulegar fjárfestingar.

Framtíðin er ferskvara

Eins og nýsköpun þá er framtíðin kvik og tekur mið af ótal breytingum, en hafa þarf í huga að við getum haft þó nokkuð að segja um hvernig hún þróast með því að taka afstöðu til breytinga. Þannig er oft rætt um ýmsa aflvaka breytinga, svokallaða drifkrafta. Hvort og hvernig við nýtum okkur þekkingu á drifkröftum getur breytt framtíðarhorfum okkar sem samfélags, ekki síður en afkomu fyrirtækja. Fyrirtæki geta verið berskjölduð ef þau skynja hvorki né taka mark á þeim breytingum sem drifkraftar starfsumhverfis þeirra valda. Eins geta fyrirtæki orðið leiðandi ef þau greina breytingar drifkraftanna í tíma og bregðast við þeim með afgerandi hætti. Í þessu sambandi má nefna þróun á sviðum eins og interneti hlutanna, sem vísa til þess að margir hlutir séu samtengdir við netið og eiga samskipti sín á milli með sjálfvirkum hætti.

• Snjallar lausnir þar sem notast er við stafræna tækni til að auka skilvirkni. Internet hlutanna er hluti af þessari hugsun sem og nýting gervigreindar.

• Hröðun lausna þar sem áskoranir eru um styttri þróunartíma til að koma nýjum lausnum á markað og aukin almenn krafa um styttri þróunartíma við hvers kyns nýsköpun.

• Breytt viðskiptalíkön og ferlar, sem útheimtir að fjölbreyttari faghópar þurfa að koma að endurskilgreiningu á viðskiptatækifærum í framtíðinni.

• Aukin þjónustuvæðing frá afhendingu vara til úreldingar með áherslu á einstaklingsbundna þjónustu, sérsniðna fyrir tiltekna hópa.

• Ný og breytt viðhorf sem tengjast umhverfis- og samfélagsmálum.

Öll þessi atriði hafa á einn eða annan hátt áhrif á ólíka þætti atvinnulífs og samfélagsins í heild og skiptir ekki máli hvort rætt er um matvælaframleiðslu í víðtækum skilning þess orðs, orkuiðnað, hefðbundin iðnfyrirtæki, stóriðju eða opinbera málaflokka eins og heilbrigðis- og menntamál.

Umhverfisvöktun

Á sama tíma og stofnanir og fyrirtæki þurfa að taka mið af ólíkum framtíðum þá þurfa þau að huga að framangreindum öflum. Með því að greina og skilja áhrif þessara drifkrafta er hægt að taka afstöðu til þess hvernig við viljum sjá atvinnulífið og samfélagið þróast og þar með fjölda og eðli starfa og lífsgæða. Framtíðarfræðingar tala gjarnan um „umhverfisvöktun“, þ.e. nauðsyn þess að skilja hvaða breytingum og drifkröftum í umhverfinu við þurfum að fylgjast með til að geta tekið nauðsynlegar ákvarðanir í stað þess að láta þróunina koma okkur á óvart.

Höfundar eru sérfræðingar í framtíðarfræðum við Framtíðarsetur Íslands.