Páll Jónsson fæddist á Ytri-Húsabakka í Skagafirði 26. september 1935. Páll lést á sjúkrahúsinu á Sauðárkróki 16. apríl 2020.

Páll var sonur Jóns Þorgrímssonar, bónda á Ytri-Húsabakka, sem ættaður var frá Hofsstaðaseli í Skagafirði, f. 24. desember 1883, d. 2. apríl 1960, og konu hans Maríu Ingibjargar Hjálmarsdóttur, f. 13. nóvember 1906, d. 25. júní 1994.

Páll átti sex alsystkini og tvo bræður samfeðra.

Bræður Páls voru Hjálmar Jónsson, f. 1927, d. 1955, Guðmundur Jónsson, f. 1931, d. 2009, og Gísli Jónsson, f. 1930, d. 2015.

Systur Páls, sem allar eru á lífi, eru þær Fjóla Filippía Jónsdóttir, f. 1938, Guðrún Jónsdóttir, f. 1940, og María Jónsdóttir, f. 1944.

Hálfbræður Páls samfeðra voru þeir Þorgrímur Jónsson, f. 1914, d. 1987, og Ásgrímur Jónsson, f. 1917, d. 1986.

Páll bjó búi sínu á Jaðri í Glaumbæjarsókn en hætti búskap 1997. Hann var ókvæntur og barnlaus.

Útför Páls verður gerð frá Glaumbæjarkirkju 25. apríl 2020 klukkan 14. Vegna Covid-19-veirufaraldursins verður að takmarka aðgang að kirkjunni við nánustu aðstandendur, en útvarpað verður frá athöfninni og mun útsendingin nást í viðtækjum bíla á bílastæði við Glaumbæjarkirkju og í næsta nágrenni hennar. Slóð á streymi: https://youtu.be/LsGaN_99Ivg. Nálgast má slóðina á mbl.is/andlat.

Það er ekki laust við að eilítill hrollur fari um mann og depurð kvikni þegar fregnir berast af brotthvarfi fólks sem maður hefur verið samvistum við, þótt vænt um og metið mikils. En lífið er vissulega hverfult og það er brothætt og maður veit aldrei hversu lengi það mun endast sér sjálfum né heldur þeim sem honum eru kærir.

En eitt vitum við manneskjur þó fyrir víst, að það mun enda fyrr eða síðar. Memento mori – Mundu að þú munt deyja sögðu Rómverjar hinir fornu. – Eina staðreynd lífsins er dauðinn, sagði rithöfundurinn Hemingway. En þótt vinir hverfi verða þeir áfram hjá okkur í hugum okkar meðan lífs við erum. Minningarnar lifa.

Nú er Páll Jónsson, hálfbróðir föður okkar Konráðs allur. Myndvarpi hugans bregður upp myndum fyrir innri augum okkar. Við kynntumst Palla og Gísla bróður hans sérstaklega í tengslum við sumardvöl okkar hjá Páli föðurbróður þeirra bræðra og afabróður okkar í Hvammi í Hjaltadal. Innstu Hjaltadalsbæirnir voru þá í mjög óburðugu vegasambandi og þeir Palli og Gísli alltaf boðnir og búnir, þessi níu eða 10 samfelldu ár sem við dvöldum sumarlangt í Hvammi hvor á eftir öðrum, að taka við strák að sunnan ýmist í Varmahlíð eða á Sauðárkróksflugvelli, og koma þeim sama svo aftur suður að hausti. Oft þurftu þeir ásamt Maríu, móður þeirra, að hýsa okkur dögum saman á Húsabakka ef þannig stóð á samgöngum eða veðrum, ýmist inn í Hjaltadal eða suður. Hlýja og góðvilji þeirra allra í garð okkar, þessara bróðursona, var einstök og fyrir það skal þakkað að leiðarlokum.

Lífsstarf Páls frænda varð búskapur. Sem ungur maður bjó hann félagsbúi með Gísla bróður sínum á Húsabakka uns þeir skiptu með sér verkum og Páll flutti frá Húsabakka og hóf búskap á Jaðri þar til hann hætti störfum árið 1997.

Eins og svo margir Skagfirðingar var Páll hestamaður og það var gott að eiga hann að eitt sinn þegar skrifari þessara orða, sem ekkert vit hefur á hestum né hestamennsku, var sendur norður til að segja lesendum eins Reykjavíkurdagblaðanna tíðindi frá landsmóti hestamanna sem haldið var í Skagafirðinum miðjum. Það var lærdómsríkt að fylgjast með Páli umgangast hestana sem vini sína og augljóst að gæðingarnir kunnu að meta hann. Minnisstæð er mynd þar sem hann strýkur hesti um snoppu, maður og hestur horfast í augu og það er eins og hesturinn brosi við manninum.

Páll eignaðist ekki lífsförunaut né börn á lífsgöngunni. Hann einangraðist þó aldrei og var bæði félagslyndur og fróðleiksfús og átti alla tíð vini sem mátu hann að verðleikum. Hann bjó yfir djúpu innsæi inn í sálarlíf og andlegt líf manna og ekki síður dýra eins og fyrrnefnda myndin af honum og brosandi hestinum vitnar um. Hann hafði innsæi í þá heima sem flestum eru duldir og gat spáð fyrir um óorðna hluti og fer nokkrum sögum af þeim hæfileikum hans. Hann var alla tíð höfðingi heim að sækja, ljúfur og elskulegur í viðmóti. Við Konráð bróðir og fjölskyldur okkar munum minnast hans með hlýju og söknuði og vottum systrum hans og afkomendum þeirra einlæga samúð.

Stefán Ásgrímsson.

Elskulegur Palli frændi minn hefur kvatt þennan heim. Það er sorglegt að þurfa að kveðja hann en honum líður sennilega vel núna, kominn í mjúka faðminn hennar ömmu. Amma bjó hjá honum til margra ára í Jaðri. Hann var alveg ótrúlega þolinmóður og góður við hana og það var dásamlegt að koma í heimsókn til hans og ömmu í Jaðar. Ég man eftir mörgum stundum þar sem við gátum spjallað saman ásamt ömmu við eldhúsborðið yfir kaffibolla um allt milli himins og jarðar. Hann lá aldrei á skoðunum sínum og stundum tókumst við á ef við vorum ekki sammála en hann hafði sterkar skoðanir á hlutunum.

Ég minnist margra ferða með honum þegar verið var að reka á fjall að sumri og aftur þegar farið var í göngur að hausti. Palli var fjallkóngur í mörg ár og í minningunni var hann yfirleitt á fasmiklum hestum en Höttur stendur upp úr í minningunni enda var hann kóngur þegar þeir félagar þeystu um. Hann var mikill dýravinur og hafði unun af hestum. Hann sýndi mér ljóð í fyrra sem hann orti um Hött sinn og lýsir vel hversu vænt honum þótti um hann:

Höttur minn með létta lund

leikur við tauma sína.

Hleypur létt um slétta grund

léttir lundu mína.

Oft ég hef um fjöllin farið,

frjálsi góði Höttur minn,

við höfum alltaf saman staðið

fimmtán árin í þetta sinn.

Aldrei hefur á þér staðið

aldrei brugðist Höttur minn,

allar leiðir hefur farið,

sem ég hef beint þér vinur minn.

Allir vegir mér eru færir

ef ég er á baki þér,

ekkert fyrir þér hefur staðið

fyllstu þakkir flyt ég þér.

Tvítugur þú ert að vori

ekki berð þú ellimörk

léttur ertu enn í spori

viðbrögð þín eru enn svo snörp.

(P.M. Jónsson)

Ég er svo þakklát að hafa fengið tækifæri til þess að fara með þér og mömmu til að sýna þér Mýrdalinn og Rangárvallasýsluna um árið og einnig fyrir að þú fórst með okkur síðasta haust og sýndir okkur Grímsstaði í Lýtingsstaðarhreppi, þar sem amma er alin upp. Það var alveg dásamleg ferð og ótrúlegt hvað þú varst léttur á þér og fullur fróðleiks sem þú deildir með okkur, þrátt fyrir veikindi þín.

Elsku Palli frændi, mig langar að þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mömmu og ég veit að þú ert kominn á góðan stað og þér líður vel núna. Blessuð sé minning þín, við munum geyma hana í hjörtum okkar.

Gyða Árný Helgadóttir.

Páll Jónsson, nágranni minn í Ástúni, er allur á áttugasta og fimmta aldursári. Við Páll vorum vinir og sá vinskapur byggðist á virðingu og trausti, sem raunar er forsenda þess að vinátta standi undir nafni. Við brölluðum ýmislegt saman í gegnum tíðina, hrossin voru sameiginlegt áhugamál og við hjálpuðumst að við járningar og fórum saman í hestaferðir og göngur. Páll var raunar gangnastjóri í Háheiði í Staðarfjöllum til margra ára og átti þar ófá sporin á sínu æviskeiði. Páll var einlægur trúmaður og efaðist ekki um aðra tilvist eftir þá jarðvist sem hann var nú að ljúka. Honum var trúin á almættið hugleikin og var óspar á að miðla þeirri vissu sinni til annarra. Hann furðaði sig á því að ekki mætti lengur uppfræða skólabörn um trúmál, taldi barnatrúna og bænina það mikilvægasta af öllu. Hvert eiga börnin að leita þegar í harðbakkann slær, ef þau kunna ekki að biðja til Guðs, þekkja ekki bænina? Það verður að biðja ef þú vilt fá hjálp, almættið gengur ekki fram fyrir skjöldu nema þú kallir eftir aðstoð. Þetta var sýn Páls í þessum efnum. Páll var ekki kirkjurækinn þrátt fyrir sína einlægu trú. Ég spurði hann hverju það sætti. Hann svaraði eitthvað á þá leið að hann þyrfti hvorki kirkju né prest til að rækta sína trú, hann ætti það með sjálfum sér og almættinu og það dygði sér. Því var það þegar Vottar Jehóva bönkuðu upp á hjá honum og buðust til að lesa fyrir hann úr Biblíunni, þá kvaðst hann eiga Biblíu og vera einfær um að lesa hana og skilja á sinn hátt, þyrfti enga aðstoð við það; þannig lauk þeirri heimsókn. Mér fannst gott að eiga stundir með Páli við eldhúsborðið í Ástúni. Þar bar margt á góma og þótt alvarlegur tónn væri undirliggjandi í umræðunni var ávallt stutt í grínið. „Hinsegin er það“ var viðkvæði hjá honum og á eftir kom e.t.v. ný nálgun á málefnið; það þurfti að skoða hlutina frá fleiri en einu sjónarhorni. Páll var lífsglaður maður, hreinskiptinn og sagði sína skoðun umbúðalaust. Hann horfði jákvæðum augum á lífið og tilveruna þótt stundum drægi skugga yfir og undir það síðast var baráttan orðin honum erfið, en hann hélt í vonina meðan hægt var.

Með þessum orðum kveð ég vin minn Pál Jónsson og votta um leið aðstandendum mína dýpstu samúð.

Ingimar Ingimarsson.