Marilyn heitin Monroe hefur orðið mörgum að yrkisefni.
Marilyn heitin Monroe hefur orðið mörgum að yrkisefni. — AP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fátt virðist nú geta komið í veg fyrir að ástralska kvikmyndaleikstjóranum Andrew Dominik takist loksins að ljúka við mynd sína Blonde, sem fjallar um leikkonuna og þokkagyðjuna Marilyn Monroe.

Fátt virðist nú geta komið í veg fyrir að ástralska kvikmyndaleikstjóranum Andrew Dominik takist loksins að ljúka við mynd sína Blonde, sem fjallar um leikkonuna og þokkagyðjuna Marilyn Monroe. Áratugur er síðan kunngjört var að Naomi Watts myndi fara með aðalhlutverkið en árin liðu og ekkert spurðist til myndarinnar. Það var svo árið 2014 að tilkynnt var að Jessica Chastain hefði leyst Watts af hólmi og tökur væru innan seilingar. Enn leið og beið og tökur hófust ekki fyrr en síðasta sumar og þá var Chastain einnig gengin úr skaftinu og kúbanska leikkonan Ana de Armas komin í hennar stað. Samkvæmt nýjustu fréttum er gerð Blonde vel á veg komin enda þótt ekki sé enn búið að tilkynna frumsýningardag. Hjólin munu hafa byrjað að snúast fyrir alvöru þegar efnisveitan Netflix kom inn í verkefnið.

Dominik skrifar handritið sjálfur upp úr skáldsögu bandaríska rithöfundarins Joyce Carol Oates sem kom út árið 2000. Enda þótt ýmsar persónur af holdi og blóði komi við sögu hefur Oates alltaf lagt þunga áherslu á að Blonde sé skáldverk en ekki ævisaga. Bókin átti upphaflega að vera nóvella en Oates týndi sér svo gjörsamlega í lífi Monroe að niðurstaðan varð skáldsaga upp á ríflega 700 blaðsíður.

„Blonde er áhugaverð fyrir þær sakir að lítið er um samtöl í myndinni,“ segir Andrew Dominik í samtali við vefmiðilinn The Film Stage. „Fyrri myndir mínar þrjár hafa byggst mikið á töluðu máli en ég held að ekki sé ein einasta sena í Blonde sem er lengri en tvær blaðsíður. Ég er mjög spenntur fyrir því að gera mynd sem borin er uppi af myndmáli og atburðum. Það er allt önnur Ella fyrir mig. Svo er aðalsöguhetjan kona. Fram að þessu hefur ekki farið mikið fyrir þeim í mínum myndum en núna er ég að ímynda mér hvernig það er að vera kona.“

Fyrri myndir Dominiks eru krimmarnir Chopper og Killing Them Softly og vestrinn The Assassination of Jesse James by the Coward Robert Ford. Brad Pitt lék aðalhlutverkið í tveimur síðarnefndu en hann er einmitt í hópi framleiðenda Blonde. Þá gerði Dominik heimildarmyndina One More Time with Feeling um Nick Cave and the Bad Seeds.

Dominik þykir taka áhættu með því að tefla Önu de Armas fram í aðalhlutverkinu en hún er hvergi nærri eins þekkt og Watts og Chastain. Þær eru á hinn bóginn báðar orðnar töluvert eldri en Monroe var þegar hún lést en de Armas fagnar 32 ára afmæli sínu í næstu viku. Fram að þessu er hún þekktust fyrir að leika gervigreindarpíuna Joi í Blade Runner 2049 og fyrir hlutverk sitt í ráðgátumyndinni Knives Out en fyrir það var hún tilnefnd til Golden Globe-verðlaunanna.

Fyrsti eiginmaður Monroe ber annað nafn í bókinni en tveir þeir síðari eru aldrei nafngreindir; aðeins kallaðir „leikskáldið“ og „íþróttamaðurinn fyrrverandi“. Adrien Brody fer með hlutverk þess fyrrnefnda í myndinni en Bobby Cannavale leikur hinn síðarnefnda. Danski leikarinn Caspar Phillipson fer í föt Johns F. Kennedys Bandaríkjaforseta, líkt og hann gerði í Jackie eftir leikstjórann Pablo Larraín árið 2016. orri@mbl.is