Reykjavík Sigurður Ingi segir að mörg af stærri sveitarfélögunum muni eiga auðveldara með að takast á við vandann sem fylgir veirunni.
Reykjavík Sigurður Ingi segir að mörg af stærri sveitarfélögunum muni eiga auðveldara með að takast á við vandann sem fylgir veirunni. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Það er ekki ólíklegt, vegna ólíkrar stöðu sveitarfélaganna, að eitthvað þurfi að gera til þess að þau geti tekist á við svona verkefni,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra sveitarstjórnarmála, þegar hann er spurður hvort til greina komi að ríkið styðji við sveitarfélögin vegna tekjufalls sem mörg þeirra eru að verða fyrir vegna kórónuveirufaraldursins.

Sigurður Ingi segist vissulega hafa áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna, eins og mörgum öðrum þáttum samfélagsins þar sem tekjur minnka mikið. Staða þeirra sé hins vegar afar mismunandi. „Það eru ekkert annað en hamfarir í atvinnulífi hjá einstökum sveitarfélögum og á svæðum þar sem ferðaþjónustan skiptir mestu máli. Atvinnuleysið er komið um og yfir 40%, tímabundið,“ segir ráðherrann.

Aðgerðir létta á

Segir Sigurður Ingi að Byggðastofnun hafi verið beðin að greina stöðu sveitarfélaganna og líklega þróun út frá mismunandi stöðu þeirra. Þær upplýsingar fari inn í hóp sem greinir stöðu sveitarfélaganna almennt. „Augljóst er að mörg af stærri sveitarfélögunum eiga auðveldara með að takast á við svona vanda, eru með fjölbreytt atvinnulíf og fjölmenna stjórnsýslu,“ segir Sigurður Ingi.

Hann rifjar upp að í öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar séu ýmsar aðgerðir sem létti á sveitarfélögum. Nefnir 600 milljónir til að styðja við íþrótta- og tómstundastarf hjá börnum fjölskyldna með lágar tekjur og 450 milljónir til að styðja við viðkvæma hópa. Gerðar verði breytingar á reglum jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þannig að sveitarfélög geti nýtt tímabundið fjármagn úr framkvæmdasjóði til þjónustu við fatlað fólk, til að milda höggið sem verði af því að tekjur jöfnunarsjóðs munu dragast saman um allt að fjóra milljarða króna. Hann nefnir að í aðgerðapakkanum sé gert ráð fyrir aðstoð við lítil sveitarfélög í dreifbýli til að þau geti stutt félagsleg verkefni viðkvæmra hópa. Þá nefnir hann verkefni sem snúa sérstaklega að Suðurnesjum og útvíkkun verkefnisins Allir vinna sem allir geti notið góðs af.

Þau öflugri taki á sig byrðar

„Við erum að gera ýmislegt en þurfum að greina hlutina betur. Vitað er að tekjufallið verður umtalsvert hjá þó nokkrum sveitarfélögum og við munum þurfa að koma með tillögur til úrbóta í þeim efnum,“ segir Sigurður Ingi. Hann tekur þó fram að allir þurfi að taka á sig auknar byrðar til að komast í gegnum vandann. Þau sveitarfélög sem best standi og skilað hafi umtalsverðum afgangi á undanförnum árum muni þurfa að gera það eins og aðrir.