Emmanuelle Seigner og Harrison Ford í Frantic.
Emmanuelle Seigner og Harrison Ford í Frantic.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fátt jafnast á við góðan trylli, hvort sem er í niðdimmu kvikmyndahúsi eða bara heima í stofu. Gaman getur verið að dusta rykið af gamalli klassík en hafið í huga að bíómyndir eldast misvel. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Allt byrjaði það með því að Ríkissjónvarpið endursýndi Basic Instinct, eða Ógnareðli, eins og hún var alveg örugglega kölluð hér í fásinninu fyrir tæpum þremur áratugum. Held ég hafi pottþétt ekki séð þá víðfrægu ræmu síðan hún var í bíó og kom mér því makindalega fyrir í sófanum, með popp í annarri og gvendarbrunnsvatn í hinni. Gosdrykkir eru eitt af því fáa sem mér hefur tekist að þurrka út af syndalistanum um dagana.

En alla vega. Úr varð prýðileg skemmtun enda mundi ég svo gott sem ekki neitt, fyrir utan ísnálina undir rúminu í lokin. Henni gleymir ekki nokkur maður. Yfirheyrsluatriðið er líka eftirminnilegt en margoft hefur verið vísað til þess með einum eða öðrum hætti síðan. Ógnareðli er auðvitað að sumu leyti barn síns tíma en eldist samt alls ekki svo illa. Michael Douglas var einhvern veginn réttur maður á réttum stað í svona myndum á þessum tíma; yfirleitt svolítið lífslúinn og alltaf með vindinn í fangið, samanber Fatal Attraction eða Hættuleg kynni. Sá hana aftur fyrir nokkrum árum og hún eldist þokkalega líka. Sharon Stone fer svo á kostum sem þetta svaðalega „femme fatale“; skemmtilega ýkt týpa. Gott ef ekki krydduð með sama kryddi og margir Eyfirðingar krydduðu sögur sínar og frásagnir í mínu ungdæmi. En það er allt önnur saga.

Ógnareðli kveikti í mér; ég yrði að rifja upp fleiri fræga trylla frá þessum tíma. Menn gera ekki svona bíómyndir lengur. Þess vegna færðist ég allur í aukana þegar ég gróf upp Frantic, eða Örvæntingu (menn íslenskuðu alla bíómyndatitla á þessum tíma) á einhverri efnisveitunni sem ég hef aðgang að. Ekki spillti fyrir að sögusviðið er París og þangað er alltaf gaman að koma, hvort sem það er í reynd eða á skjá. Ford leikur skurðlækni sem tapar konunni sinni í heimsborginni og þarf að hafa uppi á henni sjálfur vegna getu- og áhugaleysis lögreglu og starfsmanna bandaríska sendiráðsins.

„Oft hefur hinn frábæri leikari Harrison Ford borið af í kvikmyndum, en aldrei eins og í þessari stórkostlegu mynd, „Frantic“, sem leikstýrt er af hinum snjalla leikstjóra Roman Polanski. Sjálfur segir Harrison Ford: Ég kunni vel við mig í „Witness“ og „Indiana Jones“ en „Frantic“ er mín besta mynd til þessa,“ sagði í kynningu Bíóborgarinnar sumarið 1988.

Er það virkilega?

Er það virkilega, Harrison?

Til að gera langa sögu stutta var Örvænting mikil vonbrigði. Fordinn stendur að vísu fyrir sínu að vanda en framvindan er alltof hæg og fyrirsjáanleg til að týna megi sér í myndinni og bófarnir of mikil flón. Sumt á maður bara að láta ógert í þessu lífi – og eitt af því er að horfa aftur á Frantic með Harrison Ford.

Kappanum innan handar í myndinni er franska leikkonan Emmanuelle Seigner sem skömmu síðar gekk að eiga Roman Polanski – og á hann enn, ef marka má heimildir. 33 ára aldursmunur á þeim hjónakornum. Saman eiga þau tvö börn, þar á meðal leikkonuna Morgane Polanski, sem frægust er fyrir að leika Gíslu prinsessu í einhverri víkingaseríu á History Channel. Smá svona sögulegur útúrdúr að hætti hússins. Seigner er kornung og hress í Frantic en ég man ekki eftir henni úr mörgum öðrum myndum, satt best að segja. Seinast virðist hún hafa verið í kvikmynd um Dreyfus-málið í fyrra, An Officer and a Spy. Leikstjóri? Jú, þið eruð greinilega uppi á táberginu. Roman nokkur Polanski.

Eitt af fáu sem gladdi mig í Frantic var þegar gæðaleikarinn John Mahoney birtist óvænt sem erindreki Bandaríkjastjórnar en hann er mörgum ógleymanlegur sem Martin Crane, faðir Frasiers í samnefndum gamanþáttum. Skemmtileg týpa, Mahoney. Blessuð sé minning hans!

Fumlaus túlkun á líki

Þarna er líka maður með því mergjaða nafni Böll Boyer. Synd væri þó að segja að hann hafi haft mikið svigrúm til tilþrifa en Boyer leikur lík. Gerir það reyndar af sannfæringu og fumleysi. Erfitt er að finna frekari upplýsingar um kappann í netheimum en svo virðist sem hann sé þekktastur fyrir hlutverk sitt í Frantic. Sem er ákveðinn skellur. Því miður get ég því ekki miðlað til ykkar upplýsingum um það hvort Böll Boyer sé þessa heims eða annars. Né heldur hvort hann tengist með einhverjum hætti Íslandsvininum Régis Boyer.

Söng- og leikkonan Betty Buckley fer með hlutverk eiginkonunnar sem týnist en það er ekki sérlega viðamikið. Hún er mun þekktari fyrir söng sinn og sjónvarpsleik og hefur ekki komið fram í mörgum kvikmyndum gegnum tíðina.

En alla vega, treystið mér. Ef þið eruð í vafa hendið þá frekari laginu Frantic með Metallica á fóninn, af þeirri vanmetnu plötu St. Anger frá árinu 2003.

Margra mánaða umtal

Of snemmt er að segja til um það hvort Frantic hefur kæft í fæðingu örvæntingarfullan áhuga minn á tryllum frá áttunni og níunni. Næstu dagar og vikur munu skera úr um það, eins og faraldsfræðingar segja.

Mér dettur strax ein í hug, sem vert gæti verið að vísitera á ný, The Hand That Rocks the Cradle frá 1992, eða Höndin sem vöggunni ruggar, eins og hún kallaðist einfaldlega í íslenskri þýðingu. Hún er helvíti spennandi í minningunni, svaðalegt „femme fatale“ og allur pakkinn. „Mynd sem þú talar um marga mánuði á eftir,“ stóð í kynningu Bíóborgarinnar, sem hefur greinilega mikið verið í tryllunum á þessum árum. Með aðalhlutverk fóru Annabella Sciorra og Rebecca de Mornay. Hvað í ósköpunum varð um þær?