Hátíðahöld Um 40 þúsund manns sóttu Hátíð hafsins í Reykjavík í fyrra.
Hátíðahöld Um 40 þúsund manns sóttu Hátíð hafsins í Reykjavík í fyrra. — Morgunblaðið/Hari
Skipulagðri dagskrá á sjómannadaginn í Reykjavík, sunnudaginn 7. júní, hefur verið aflýst í ár vegna aðstæðna í samfélaginu. Þetta er í fyrsta sinn í 82 ára sögu sjómannadagsráðs sem dagskránni er aflýst, en sjómannadagurinn var fyrst haldinn 1938.

Skipulagðri dagskrá á sjómannadaginn í Reykjavík, sunnudaginn 7. júní, hefur verið aflýst í ár vegna aðstæðna í samfélaginu. Þetta er í fyrsta sinn í 82 ára sögu sjómannadagsráðs sem dagskránni er aflýst, en sjómannadagurinn var fyrst haldinn 1938. Einnig fellur dagskrá Hátíðar hafsins niður, sem halda átti 6. og 7. júní við gömlu höfnina. Engin breyting verður á útgáfu Sjómannadagsblaðsins og verður 83. árgangi blaðsins dreift til viðtakenda föstudaginn 5. júní nk.

Aðstandendur sjómannadagsins eru staðráðnir í að taka upp þráðinn á ný að ári með veglegri dagskrá á hafnarsvæðinu, segir í tilkynningu frá sjómannadagsráði.

Árlega hefur ráðið jafnframt gengist fyrir fjölskylduhátíð á sjómannadaginn við gömlu höfnina í Reykjavík. Undanfarin sautján ár hefur sá hluti hátíðahaldanna verið efldur með samstarfi við Faxaflóahafnir og Brim með veglegri tveggja daga hátíðahöldum undir merki Hátíðar hafsins á gamla hafnarsvæðinu við Grandagarð. Hátíð hafsins sé auk dagskrár Menningarnætur tvímælalaust einn helsti árlegi borgarviðburðurinn. „Á hafnarsvæðið leggja allt að 40 þúsund gestir leið sína ár hvert um sjómannadagshelgina til að upplifa skemmtun fyrir alla fjölskylduna þar sem hægt er að kynnast ýmsu sem tengist lífríki sjávarins, sjómennsku, verðmætasköpun og öðru er viðkemur mikilvægi sjávar- og hafnarstarfsemi.“ sisi@mbl.is