Ekki má vanmeta skipulagða glæpastarfsemi erlendra hringja á Íslandi

Það fór ekki mikið fyrir frétt, sem birtist á mbl.is á miðvikudag, um að lögregla hefði á undanförnum mánuðum lagt hald á 13,5 lítra af amfetamínbasa, sem talið er að hafi átt að nota til amfetamínframleiðslu hér á landi. Átta manns voru handteknir vegna rannsóknarinnar í janúar og sex voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald, en eru nú lausir. Leitað var í tugum húsa og lagt hald á fíkniefni, vopn og fjármuni. Frekari aðgerðir hafa fylgt í kjölfarið og hafa fleiri verið settir í gæsluvarðhald. Talið er að verðmæti fíkniefnanna, sem hald var lagt á, nemi um 230 milljónum króna.

Af þeim, sem hafa verið í gæsluvarðhaldi, eru sjö taldir tilheyra erlendum glæpahópum.

Ísland er ekki undanskilið starfsemi glæpahringja fremur en öðru. Rannsóknin, sem hér er lýst, er til marks um það. Um þetta var fjallað í áhættumatsskýrslu greiningardeildar ríkislögreglustjóra, sem kom út undir yfirskriftinni Skipulögð brotastarfsemi á Íslandi í maí í fyrra.

Í skýrslunni segir að án áherslubreytinga séu litlar líkur á að markverður árangur náist í baráttu við skipulagða glæpastarfsemi á Íslandi. Er meðal annars bent á að lögreglumönnum, sem sinni rannsóknum á fíkniefnamálum og öðrum birtingarmyndum skipulagðrar brotastarfsemi, hafi fækkað á undanliðnum árum.

„Fyrirsjáanleg þróun, að óbreyttu, er á þann veg að umfang skipulagðrar glæpastarfsemi aukist á Íslandi. Aukin samkeppni á milli skipulagðra brotahópa kann að leiða til gengjamyndunar og grófra ofbeldisverka gagnvart einstaklingum sem þeim tengjast. Ástæða er til að óttast aukið og fjölbreyttara framboð fíkniefna. Hið sama á við um tilfelli mansals og misneytingar gagnvart innflytjendum og erlendu vinnuafli,“ sagði í niðurlagi skýrslunnar.

Skýrslan var meðal annars gagnrýnd fyrir að þar væri íslenskum glæpamönnum ekki gert nógu hátt undir höfði. Rannsóknin, sem nú stendur yfir og rakin er hér að ofan, ætti fremur að vera vísbending um háskann af því að vanmeta skipulagða brotastarfsemi erlendra glæpahringja á Íslandi.