[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason Snorri Másson Ragnhildur Þrastardóttir Til greina kemur að samkomutakmörkunum verði aflétt hraðar hér á landi en nú er áformað ef smitum fækkar hraðar en miðað var við þegar ráðstafanirnar voru ákveðnar.

Helgi Bjarnason

Snorri Másson

Ragnhildur Þrastardóttir

Til greina kemur að samkomutakmörkunum verði aflétt hraðar hér á landi en nú er áformað ef smitum fækkar hraðar en miðað var við þegar ráðstafanirnar voru ákveðnar. Kom þetta fram hjá Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni á upplýsingafundi almannavarna í gær.

Lýsti sóttvarnalæknir þessu yfir eftir að hann hafði sagt frá því að ekkert sýni sem tekið var sólarhringinn á undan hefði reynst jákvætt. Raunar tók hann fram að þetta yrði að skoða í ljósi þess að óvenjulega fá sýni hefðu verið rannsökuð, eða 178 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítalans og 15 hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Mat sóttvarnalæknis á þróun faraldursins er óbreytt, þrátt fyrir að ekkert sýni hafi reynst jákvætt þennan sólarhringinn. Sagði þó að mjög lítið smit væri í samfélaginu. Hins vegar hefði lítill hluti landsmanna sýkst, líklega um 1% samkvæmt hans áætlun, og því væri stór hluti landsmanna móttækilegur fyrir veirunni. „Við þurfum að vera á tánum næstu mánuði til að koma í veg fyrir annan eða verri faraldur,“ sagði Þórólfur.

Mikill fórnarkostnaður

Hann sagði að áskoranir næstu mánaða fælust í afléttingu takmarkana og áhersla væri lögð á að það gerðist hægt. Ef tölur um fjölda nýsmitaðra yrðu áfram lágar gætu verið forsendur fyrir því að takmörkunum yrði létt hraðar af en lagt hefði verið upp með en það gæti líka gerst hægar ef bakslag kæmi í þróunina.

Þórólfur kvaðst gera sér grein fyrir þeim fórnarkostnaði sem samkomutakmarkanirnar hefðu í för með sér fyrir efnahag landsins. „Það er algerlega ljóst að það sem við erum að leggja til, og höfum þegar gert, veldur miklum skaða á íslensku samfélagi. Það hefur verið vitað allan tímann. En við vitum líka að það er dýrt að missa mannslíf. Það er líka dýrt að þurfa að leggja fjöldann allan inn á sjúkrahús og setja heilbrigðiskerfið á hliðina, og jafnvel valda skaða á öðrum sjúklingahópum. Það er erfitt að sigla þarna á milli. Það sem við erum að gera núna er náttúrlega að reyna að ná faraldrinum niður með sem minnstum skaða fyrir samfélagið. Mitt hlutverk er fyrst og fremst að hugsa um heilsufarslega þætti, en ríkisstjórnin, sem tekur endanlega ákvörðun, þarf að sjá þetta í heildrænu ljósi. Hún tekur kannski tillögum frá okkur og kannski ekki,“ sagði Þórólfur.

Heilbrigðisyfirvöld eru með tilbúna aðgerðaáætlun ef smitum kórónuveiru fjölgar aftur í haust. Eru það svipaðar aðgerðir og nú er beitt en einnig eru möguleikar á staðbundnum aðgerðum ef það á við. Almannavarnir munu á næstunni endurskoða viðbragðsáætlanir vegna faraldurs af þessu tagi, eins og gert var þegar faraldurinn hófst.

Þriðjungur íbúa Vestfjarða verið prófaður

• Álag á heilbrigðiskerfið nú viðunandi, nema á Vestfjörðum Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Skimað var fyrir kórónuveirunni hjá meira en 2.100 Vestfirðingum í átaki Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og Íslenskrar erfðagreiningar sem lauk í gær. Svarar þetta til um þriðjungs af íbúum fjórðungsins. Skimað var á norðanverðum Vestfjörðum í síðustu viku en þar var þá mikil hópsýking í gangi. Skimað var á sunnanverðum Vestfjörðum í gær og fyrradag en engar niðurstöður höfðu borist í gær.

Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða, segir að skimunin á sunnanverðum Vestfjörðum hafi gengið vel. Sýni voru tekin í félagsheimilinu á Patreksfirði og mættu rúmlega 400 íbúar þangað, og komust færri að en vildu.

Enginn sem búsettur er nú á sunnanverðum Vestfjörðum hefur veikst, að því er best er vitað. Niðurstöður úr skimuninni liggja fyrir eftir helgi.

Á norðanverðum Vestfjörðum hafa margir sýkst, einkum þó í Bolungarvík þar sem 6% íbúa hafa fengið veiruna, og á Ísafirði þar sem 1% hefur veikst. Til samanburðar má geta þess að um hálft prósent landsmanna hefur greinst með kórónuveiruna.

Veiran áfram viðloðandi

Heilbrigðiskerfið getur dregið lærdóm af faraldri kórónuveiru sem nú er í rénun á flestum stöðum landsins, að sögn Ölmu D. Möller landlæknis. Hún sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að álagið á heilbrigðisstofnanir færi nú minnkandi, að undanskilinni Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þar væri enn unnið úr hópsýkingu og reiddi stofnunin sig því áfram á bakvarðasveitina. Að öðru leyti væri álag á heilbrigðisstofnanir nú viðunandi.

Alma lagði áherslu á að þótt engin smit hefðu greinst á síðasta sólarhring væri faraldrinum enn ekki lokið hérlendis og heilbrigðiskerfið undirbúið fyrir frekari vöxt í honum. „Við reiknum með að veiran verði viðloðandi og við þurfum að hafa skipulag til þess að bregðast við tilfellum af Covid-19,“ sagði hún.