Landsliðið Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir hefur skorað 66 mörk í 34 landsleikjum Íslands og á hér í höggi við Paulinu Coatanea, leikmann Brest Bretagne, í leik Íslands og Frakklands í undankeppni EM síðasta haust.
Landsliðið Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir hefur skorað 66 mörk í 34 landsleikjum Íslands og á hér í höggi við Paulinu Coatanea, leikmann Brest Bretagne, í leik Íslands og Frakklands í undankeppni EM síðasta haust. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Frakkland Jóhann Ingi Hafþórsson johanningi@mbl.is „Þetta var mjög áhugavert, skemmtilegt og mikil reynsla,“ sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, landsliðskona í handknattleik, við Morgunblaðið um sitt fyrsta tímabil í atvinnumennsku erlendis. Hrafnhildur gekk í raðir Bourg-de-Péage í efstu deild Frakklands fyrir leiktíðina, eftir að hafa leikið allan ferilinn heima á Selfossi.

Frakkland

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Þetta var mjög áhugavert, skemmtilegt og mikil reynsla,“ sagði Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir, landsliðskona í handknattleik, við Morgunblaðið um sitt fyrsta tímabil í atvinnumennsku erlendis. Hrafnhildur gekk í raðir Bourg-de-Péage í efstu deild Frakklands fyrir leiktíðina, eftir að hafa leikið allan ferilinn heima á Selfossi.

Hanna viðurkennir að það hafi verið viðbrigði að yfirgefa Selfoss og halda á vit ævintýranna í nýju landi og í sterkri deild en hún staðfesti við Morgunblaðið að hún myndi ekki leika áfram með Bourg-de-Péage.

„Þetta var líka virkilega erfitt. Það voru margar áskoranir og þetta var mjög lærdómsríkt ár. Þetta var í fyrsta skipti sem ég skipti um lið yfirhöfuð og það var nýjung fyrir mig að fara frá heimabæ mínum, Selfossi, alla leið til Frakklands. Það var stór breyting og svo var tungumálið frekar erfitt. Til að byrja með skildi ég ekki neitt í frönsku og það töluðu ekki allir ensku þar sem ég var. Æfingamenningin var öðruvísi en ég var vön, svo þetta voru viðbrigði,“ sagði Hanna, sem skilur frönskuna betur núna.

Brosti bara og notaði táknmál

„Franskan er töluvert betri en ekkert til að monta sig af,“ sagði hún og hló. „Ég var farin að skilja handboltamálið á æfingum og í leikjum. Málið dagsdaglega var ég ekki með og ég gat rosalega lítið tjáð mig á frönsku. Ég brosti bara svolítið og notaði táknmál með höndunum eins og ég gat. Svo kom Google Translate sér vel. Ég notaði það á hverjum degi.“

Bourg-de-Péage er lítill bær í Suðaustur-Frakklandi, um 100 kílómetra suður af Lyon og ekki fjarri landamærum Sviss og Ítalíu. Áhuginn fyrir handbolta er mikill í bænum.

Svipað og á Selfossi

„Þetta var fín umgjörð og þetta er einn besti klúbburinn hvað varðar aðsókn á leiki. Það var alltaf fullt hús og það eru stúkur báðum megin við völlinn. Áhuginn í bænum var mjög mikill, en þetta er pínulítill bær þar sem búa um 10.000 manns, svipað og á Selfossi. Þetta var þriðja tímabilið í röð í efstu deild, en annars hefur liðið aldrei verið þar. Þetta er nýtt félag í uppbyggingu og að komast á þennan stall í fyrsta skipti,“ sagði Selfyssingurinn.

Liðið var í níunda sæti af tólf þegar deildinni var aflýst. Ekkert lið var krýndur meistari og ekkert lið féll. Tvö lið fara upp og verða því fjórtán lið í deildinni á næstu leiktíð. Undir venjulegum kringumstæðum fara átta efstu liðin í úrslitakeppni um franska meistaratitilinn á meðan fjögur neðstu fara í umspil um að halda sæti sínu í efstu deild.

Hrafnhildur Hanna og liðsfélagar hennar voru þremur stigum frá sæti í úrslitakeppninni og hefði því mikið átt að vera undir í síðustu umferðunum. Þess í stað hefur hún leikið sinn síðasta leik með liðinu.

Skrítið að vera búin að spila síðasta leikinn

„Við vorum á mörkunum að fara í úrslitakeppnina og svo í fallumspilið. Það var leiðinlegt að klára ekki tímabilið, sérstaklega því ég er búin að ákveða að ég verði ekki þarna áfram. Það var skrítið að vera allt í einu búin að spila síðasta leikinn með stelpunum. Þetta var besti árangurinn hjá þessu félagi í deildinni frá upphafi, þannig að það var ánægja með tímabilið,“ sagði Hrafnhildur Hanna, en hún er óviss með næstu skref á ferlinum.

„Ég er ekki búin að ákveða hvað ég geri núna. Ég veit ekki hvort ég verð áfram úti og hvert ég fer þá, eða hvort ég verð heima og klára skólann.“

Ástandið í heiminum hjálpar ekki til við að finna nýtt félag, en mörg þeirra munu glíma við fjárhagsvandamál á næstunni.

Þreifingar á ýmsum stöðum

„Það gerist allavega ekkert hratt núna. Það eru þreifingar á ýmsum stöðum en maður finnur það að ástandið í heiminum hefur áhrif og þetta er rólegra og margir halda að sér höndum.“

Hrafnhildur Hanna skoraði 84 mörk í 19 leikjum á tímabilinu og var markahæsti nýliðinn í deildinni og markahæsti leikmaður Bourg-de-Péage. Var hún ánægð með eigin frammistöðu, þótt hún geti gert enn betur. „Í rauninni get ég verið sátt, þótt það hafi verið margt sem ég hefði viljað gera betur, en á sama tíma gerði ég margt vel. Ég var markahæst í mínu liði og var tíunda markahæst í deildinni. Ég hefði samt viljað spila meira. Þetta er alltaf svona, maður vill alltaf gera miklu betur. Ég er samt ánægð með þetta fyrsta skref í atvinnumennsku,“ sagði hún og bætti við að leikirnir í Frakklandi væru töluvert erfiðari en heima á Íslandi. „Alveg töluvert. Það er fullt af heimsklassaleikmönnum í deildinni og sterk lið. Það er öðruvísi að spila þessa leiki, en mér finnst það geggjað og mikil áskorun. Maður þarf að aðlagast því og taka skref fram á við.“

Hanna hefur lengi verið á meðal bestu leikmanna íslensku deildarinnar og varð m.a. markahæsti leikmaður Olísdeildarinnar árin 2015 og 2017. Er hún 24 ára gömul og hafði hug á að fara í atvinnumennsku fyrr, en krossbandsslit í hné árið 2017 komu í veg fyrir það. „Ég var með nokkra möguleika á að komast út þá en ákvað að vera frekar heima þegar þessi meiðsli komu upp,“ rifjar hún upp. „Það fer heilt ár í að jafna sig á svona meiðslum, svo ég ákvað að einbeita mér að háskólanáminu sem ég hef verið í meðfram boltanum.“

Meiðslin voru erfið andlega

Hrafnhildur Hanna lék eitt tímabil heima með Selfossi eftir að hún jafnaði sig á meiðslunum og hélt svo út. „Ég fann enn þá fyrir meiðslunum þetta tímabil sem ég var heima. Það voru meiðsli sem voru tengd krossbandsmeiðslunum. Þessi meiðslapakki fylgir íþróttunum stundum, því miður. Ég var hins vegar ákveðin í að prófa atvinnumennskuna, það hefur alltaf verið draumurinn og það hætti aldrei. Auðvitað voru þessi meiðsli oft á tíðum erfið andlega. Það var erfitt að vera út úr handboltanum í svona langan tíma og endurhæfingin gengur ekki alltaf glimrandi vel. Maður þarf að styrkja sig andlega til að komast í gegnum það og komast áfram í þessu öllu saman,“ sagði Hrafnhildur Hanna.