Auðvitað komu einhverjar hamfaralægðir með rauðum viðvörunum og viðbjóði; minnstu munaði að ég fengi eina slíka inn á rúmgafl til mín í febrúar.

Okkar bestu menn, veðurfræðingar, eru smám saman að ná vopnum sínum á ný eftir að kórónuveiran sópaði þeim um tíma út af borðinu í þjóðfélagsumræðunni. Það er gamall og góður siður að ræða við veðurfræðinga í fjölmiðlum á sumardaginn fyrsta og Magnús Geir Eyjólfsson fréttamaður lék stífan sóknarleik gegn Theódóri Frey Hervarssyni á svölunum í Efstaleitinu í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins – eins og Borgnesingar gera gjarnan gegn Skagamönnum. Vildi fá veðurfræðinginn til að staðfesta í þráðbeinni útsendingu að þessi „andstyggilegi vetur“ sem var að líða færi í sögubækurnar sem sá versti sem yfir þessa guðsvoluðu þjóð hefur gengið frá því öndvegissúlunum skolaði á land. Ekki treysti Theódór sér til að ganga svo langt, enda fagmaður, en viðurkenndi þó að hann hefði að sönnu verið erfiður. „Hann hlýtur að teljast með þeim leiðinlegri,“ sagði þá Magnús og hélt upp kloppískri hápressu á aumingja Theódór. „Já, það er ekki spurning en hvort hann sé á toppnum, ég get ekki svarað því núna,“ sagði Theódór og gat ekki varist brosi. Sé Magnús fyrir mér brosa á móti.

Var veturinn virkilega svona ofboðslega vondur? Auðvitað komu einhverjar hamfaralægðir með rauðum viðvörunum og almennum viðbjóði; minnstu munaði að ég fengi eina slíka inn á rúmgafl til mín í febrúar en sveitasetrið stóð hana af sér. Mögulega bara vegna þess að ég hélt því niðri, eins og Churchill bifreiðinni í sprengjuregninu forðum. Þess utan fannst mér veturinn hins vegar ekkert svo ofboðslega leiðinlegur. Kannski er það bara gullfiskaminnið.

Næst sneru þeir svalafélagar sér að sumrinu sem er framundan og um leið og Theódór leyfði sér að vera hóflega bjartsýnn ráðlagði hann Magnúsi að bíða með að kaupa sér hlutabréf í sólarvarnarframleiðanda.

Einhver miðillinn dustaði rykið af Sigga stormi, langt síðan maður hefur séð hann, og hann spáir því að veðrið verði með fínasta móti í sumar og jafnvel ekki verra en í fyrrasumar, þegar það mun hafa verið mjög gott. Meira að segja menn með gullfiskaminni geta tekið undir það.

Annars hefur enga þýðingu að hrósa sigri fyrr en okkar allra besti maður, Haraldur Ólafsson, verður búinn að kveða upp sinn dóm. Hann er vís með að finna stinningskalda og slagveðursrigningu í hanskahólfum og kústaskápum landsmanna, ef á þarf að halda. Okkar beinasti fréttamaður, Jóhann K., þarf að taka á sig rögg og draga Harald út á galeiðuna.