Lilja Rafney Magnúsdóttir
Lilja Rafney Magnúsdóttir
Eftir Lilju Rafney Magnúsdóttur: "Mikilvægt er að ungt fólk fái að nýta starfskrafta sína og ekki verra ef það fær að nýta menntun sína og skapa sér atvinnutækifæri til framtíðar."

Á tímum sem þessum er mikilvægt að við hlúum hvert að öðru. Þetta á einkum við viðkvæmari hópa samfélagsins, þar með talið börnin okkar. Stuðningurinn við börn í öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur er þýðingarmikill. Má nefna sérstakt viðbótarframlag vegna tómstundastarfs barna, sem er ætlað er lágtekjufjölskyldum. Komið verður til móts við þá sem sinna umönnun barnanna með skatta- og skerðingarlausum styrkjum. Þar sem umönnunarúrræði utan heimilis fyrir langveik og fötluð börn hafa mörg hver því miður legið niðri vegna faraldursins hafa foreldrar eða aðrir nákomnir í ýmsum tilvikum tekið að sér umönnun þeirra barna.

Til að bregðast við aukinni hættu á ofbeldi gegn börnum var hafist handa við vitundarvakningu sem verður haldið áfram auk þess sem félagasamtök sem sinna ráðgjöf við börn og fjölskyldur þeirra hafa verið styrkt og efld sem og Barnahús. Þá verður farið í sérstakt átak og markvissar aðgerðir til að berjast gegn heimilisofbeldi sem er því miður oft og tíðum fylgifiskur samfélagslegra áfalla. Kemur þetta til viðbótar við þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til, svo sem efling hjálpar og stuðnings fyrir þolendur og gerendur.

Við þær ótrúlegu kringumstæður sem við upplifum nú kemur mikilvægi þess að eiga traust bakland og stuðningsnet skýrlega í ljós. Þess vegna er einnig lögð áhersla á að vinna gegn félagslegri einangrun viðkvæmra hópa, t.d. aldraðra, fatlaðs fólks, fólks af erlendum uppruna, heimilislausra og barna og fjölskyldna þeirra.

Það er engum blöðum um það að fletta að atvinnuástandið vegna COVID-19-faraldursins er mjög alvarlegt og hættan á viðvarandi atvinnuleysi mikið áhyggjuefni. Hlutabótaleiðin svokallaða hefur sannarlega dempað fallið og komið vel út og viðhaldið ráðningarsambandinu en nauðsynlegt er að vinna gegn atvinnuleysi og ná því niður eins fljótt og auðið er. Það er því ánægjulegt að í aðgerðapakkanum séu fjölbreyttar atvinnuskapandi leiðir sem er ætlaðar eru til að minnka atvinnuleysi.

Eitt veigamesta úrræðið er fjölbreytt náms- og starfsúrræði fyrir atvinnuleitendur. Atvinnuleysistryggingasjóði verða veittir tveir milljarðar til verkefnisins sem er áætlað að geti náð til 15 þúsund atvinnuleitenda og er markmið þess að vinna gegn þeirri meinsemd sem langvarandi atvinnuleysi er.

Fram hefur komið að námsmenn hafi áhyggjur af því að fá ekki vinnu í sumar. Tveir milljarðar verða því settir til að skapa sumarstörf fyrir námsmenn, en nefnt hefur verið að það kynni að skapa allt að þrjú þúsund störf fyrir námsmenn. Áætlað er að sveitarfélögin leggi einnig sitt af mörkum í sama tilgangi í sumar. Jafnframt verða settar 300 milljónir aukalega í Nýsköpunarsjóð námsmanna sem munu skapa enn fleiri störf fyrir námsmenn og stuðla að nýsköpun. Mikilvægt er að unga fólkið okkar fái að nýta starfskrafta sína og ekki verra ef það fær að nýta menntun sína í leiðinni og jafnvel skapa sér atvinnutækifæri til framtíðar.

Þessi úrræði munu ekki einungis vinna gegn atvinnuleysi heldur einnig leiða til innlendrar verðmætasköpunar. Ég tel að 250 milljóna króna aukið framlag í listamannalaun á þessu ári til þess að geta stækkað þann hóp muni styðja við listamennina okkar sem hafa svo sannarlega sýnt okkur við þessar fordæmalausu aðstæður hve listin nærir og gleður á erfiðum tímum. Jafnframt verður settur á fót Matvælasjóður með 500 milljóna stofnframlagi og 100 milljónir fara í að styrkja markaðssetningu á alþjóðamörkuðum, auk 200 milljóna króna framlags til íslenskrar garðyrkju sem er tilkomið vegna nýs samnings við garðyrkjubændur.

Nú sem aldrei fyrr er nauðsynlegt að efla nýsköpun og verðmætasköpun í matvælaframleiðslu og búa í haginn fyrir framtíðina í matvælaöryggi og sjálfbærni.

Þessum aðgerðum og fleirum er ætlað að viðhalda félagslegum stöðugleika á ólgutímum og milda þau neikvæðu langtímaáhrif sem efnahagskreppa hefur á fólk og heimili. Við gerum það með fjölþættum aðgerðum sem beinast að því að byggja upp varnir í erfiðum aðstæðum. Við gerum það með því að vernda það fólk sem lendir í erfiðleikum og atvinnumissi og viðkvæma hópa. Við gerum það með því að gefast ekki upp heldur veita sterka viðspyrnu í efnahagsmálum svo við lendum á fótunum og komum enn sterkari og reynslunni ríkari út úr þessu verkefni. Verkefni sem við báðum ekki um en ætlum að komast í gegnum með sameiginlegu átaki þjóðarinnar.

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna og formaður atvinnuveganefndar.