— Morgunblaðið/Eggert
Hvað ertu að bardúsa? Okkur Sigurð Ými Kristjánsson, sem er bekkjarbróðir minn úr Listaháskólanum og Myndlistaskólanum, langaði alltaf að gera eitthvað saman.
Hvað ertu að bardúsa?

Okkur Sigurð Ými Kristjánsson, sem er bekkjarbróðir minn úr Listaháskólanum og Myndlistaskólanum, langaði alltaf að gera eitthvað saman. Ég hafði góða þekkingu á fatnaði en hann er meira grafíkmiðaður þannig að úr varð að stilla strengi okkar saman og búa til fatnað. Við vildum gera það sem kallast „streetwear“; hettupeysur, jakka og stuttermaboli og stofnuðum fyrirtækið Child Reykjavík, en við erum báðir í öðru líka. Svo nýlega ákváðum við að búa til bol til styrktar Kvennaathvarfinu.

Hvernig kviknaði sú hugmynd?

Frænka mín er mikið að vinna í þessum málum og hefur verið að pósta ýmsum upplýsingum á Facebook. Nýlega póstaði hún skýrslu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu þar sem sást töluverð fjölgun á tilkynningum um heimilisofbeldi nú í mars. Mér fannst við þurfa að styðja við þetta málefni og sá þarna tækifæri að við gætum hugsanlega safnað saman því fólki sem vildi styrkja Kvennaathvarfið með því að selja því bol. Allur ágóði rennur óskiptur til Kvennaathvarfsins og við gefum líka okkar vinnu.

Segðu mér frá þessum bol?

Hann heitir Samstöðubolurinn. Við látum framleiða bolina á Indlandi og eru þeir úr 100% lífrænni bómull og vottaðir af Fairtrade, sem þýðir að allir sem að honum koma fá greitt fyrir sína vinnu og allt löglegt. Bolurinn kostar 6.499 krónur og fæst á netinu. Hugmyndin var að myndin á bolnum myndi tákna þá orku sem verður til þegar fólk stendur saman.