— Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að öflugir skákmenn og jafnvel heimsmeistarar skipuleggi sterk skákmót en ný vefsíða Magnúsar Carlsen, https://www.magnuscarlsen.

Það er í sjálfu sér ekkert nýtt að öflugir skákmenn og jafnvel heimsmeistarar skipuleggi sterk skákmót en ný vefsíða Magnúsar Carlsen, https://www.magnuscarlsen.com, vakti athygli mína á dögunum þegar boð barst um þátttöku til sterkustu skákmanna Íslands í Norðurlandakeppni á netinu, Nordic chess league, sem hefst 5. maí nk. Tímamörk verða 10 5. Ég gat ekki betur séð en að viðbrögð væru góð meðal okkar manna, en í íslenska liðinu verða 10 einstaklingar og tefla fjórir í hverri umferð undir merkjum Lundanna, Reykjavik puffins. Það er skákklúbbur Magnúsar, Offerspil, sem hefur hafið þessa sókn á netinu en norski heimsmeistarinn hefur nýlega slitið tengsl við Norska skáksambandið.

Vefsíðan var opnuð með pompi og prakt 18. apríl sl. og fyrsta mót á dagskrá var atskákmót með tímamörkunum 15 10. Átta af sterkustu skákmönnum heims, sem eru auk Magnúsar þeir Ding Liren, Caruana, Nakamura, Vachier-Lagrave, Nepomniachtchi, Giri og hinn 16 ára gamli Írani Firouzja, sitja heima hjá sér og tefla allir við alla með dálítið flóknu fyrirkomulagi en í hverri umferð eru tefldar fjórar skákir og fær sigurvegarinn 3 stig en 2 stig ef hann vinnur eftir bráðabanaskák. Keppnin stendur nú sem hæst og lýkur 30. apríl. Eftir þriðju umferð sl. fimmtudag var Magnús efstur með 8 stig, eftir sigra yfir Nakamura, 3:2, Firouzja 2½:1½ og Caruana 3:1. Nakamura kemur næstur með 7 stig, þá Caruana með 5 stig. Hvorki Giri né Firouzja hafa náð stigi. Verðlaun nema um 250 þús. bandaríkjadölum. Þeirri spurningu hefur áður verið svarað í þessum pistlum hvernig hægt er að koma í veg fyrir svindl. Í slíkum keppnum verður að ríkja ákveðið heiðursmannasamkomulag.

Magnús tefldi við Nakamura í 1. umferð og vann fyrstu skákina. Staðan sem kom upp eftir 58 leiki var athyglisverð:

Boðsmót Carlsens 2020, 1. skák:

Carlsen – Nakamura

Þessi staða minnti mig strax á aðra skák milli Benónýs Benediktssonar og Friðriks Ólafssonar á Guðjóns-mótinu 1956. Svarti dugar að gefa biskupinn fyrir c-peðið því að hvítur þarf að glíma við „vitlausa hornið“ – h8-reiturinn er ekki á áhrifasvæði hvíta biskupsins og staðan er jafntefli komist svarti kóngurinn í hornið. Engu að síður hefur h-peðið áhrif, heldur svarta kónginum í skefjum. Nakamura lék nú 58. ... Bd3 og framhaldið varð: 59. c6 f5 60. Bf3 Bb5 61. c7 Kd7 62. Ke5 f4 63. h5 Bc4 64. h6 Bg8 65. Bd5 Bh7 66. Be4 Bg8 67. Kxf4 og svartur gafst upp því að eftir 67. ... Kxc7 kemur 68. Ke5 og eftir að kóngurinn kemst til g7 vinnur hvítur. Aftur að stöðumyndinni. Af hverju ekki 58. ... Ba4? Þá kemur nefnilega 59. h5 Bb5 60. h6 Kf8 61. Kd6 ásamt – Bd7 og vinnur.

Eftir að hafa unnið 3:2 komst Magnús strax yfir gegn Firouzja en í næstu skák kom þessi staða upp:

Boðsmót Carlsens 2020, 2. skák:

Firouzja – Carlsen

Svartur er skiptamun undir og á að mati „Houdini“ betri færi sé leikurinn 39. ... Hd4 valinn. Mikilvægi þess að hafa vald á g4 reitnum kom strax í ljós því að Magnús lék 39. ... Hd2?? og eftir 40. Hb8+ Kh7 41. Dg4! rann upp fyrir honum ljós, hvítur hótar 42. Dg6+! Bxg6 43. hxg6 mát. Hann reyndi 41. ... Df1+ en þá kom 4 2. Hg2 Dxg2+ 43. Kxg2 og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson (helol@simnet.is)