Guðríður Jónsdóttir fæddist á Patreksfirði 29. júlí 1924. Hún lést á Hrafnistu 5. apríl 2020. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Þórðarson skipstjóri á Patreksfirði, f. 1. desember 1874, d. 5. september 1953, og Ingibjörg Ólafsdóttir húsmóðir, f. 22. maí 1900, d. 4. maí 1988. Bræður Guðríðar eru Ólafur Þórður, f. 1925, d. 1986, Haraldur, f. 1926, d. 2016, Héðinn, f. 1930, d. 2010, Hörður, f. 1934, d. 2018. Hálfbróðir þeirra samfeðra var Jón, f. 1900, d. 1988. Uppeldisbróðir þeirra var Kristján Halldórsson, f. 1912, d. 1976.Eiginmaður Guðríðar var Ásgeir Jónsson kaupmaður, f. 7. desember 1920, d. 29. september 2010. Foreldrar hans voru Elinora Guðbjartsdóttir frá Hesteyri, f. 1898, d. 1971, og Jón Sigfús Hermannsson frá Aðalvík, f. 1894, d. 29. 1991. Börn Guðríðar og Ásgeirs eru:

1) Erling Ingi, f. 1945, maki Erla Þorláksdóttir, f. 1947, börn þeirra: a) Heimir, f. 1969, maki Soffía Ólöf Ketilsdóttir, f. 1970, börn þeirra: i) Axel Örn, f. 2003, ii) Eva Margrét, f. 2005, iii) Aron Freyr, f. 2009, iv) Thelma Lind, f. 2012. Sonur Heimis og Hrundar Grétarsdóttur er Hrannar, f. 1993, barn hans og sambýliskonu, Ásdísar Guðmundsdóttur, f. 1993, er Kári, f. 2018. b) Viðar, f. 1975, maki Ágústa Björg Bjarnadóttir, f. 1971, börn þeirra: i) Dagur Ingi, f. 2003, ii) Andri Felix, f. 2006, iii) Erla Björg, f. 2010. c) Elfa Björk, f. 1982, maki Sigurður Bjarni Sigurðsson, f. 1977, börn þeirra: i) Ingibjörg Erla, f. 2006, ii) Rósa María, f. 2010.

2) Anna Elísabet, f. 1947, maki Sigurjón G. Sigurjónsson, f. 1943, d. 2005, börn þeirra: a) Guðrún Freyja, f. 1966, maki Þórir Sigurgeirsson, f. 1966, börn þeirra: i) Arnar Freyr, f. 1989, ii) Hlynur, f. 1992, ii) Sigurjón Orri, f. 1994. b) Ásgeir, f. 1969, sonur hans og Hjördísar Zöega er Atli Steinn, f. 1994. Börn hans og Silju Sverrisdóttur eru: i) Alexander Breki, f. 1999, ii) Anna Yrsa, f. 2004, iii) Aþena Kolka, f. 2004. c) Drífa, f. 1973, börn hennar og Ólafs Baldurssonar, f. 1969: i) Elísabet Mist, f. 2000, og ii) Baldur Nói, f. 2004.

3) Ingibjörg Edda, f. 1953, maki Hallgrímur Jónasson, f. 1952, börn þeirra: a) Berglind, f. 1976, d. 2019, maki Eðvarð Jón Bjarnason, f. 1976, barn þeirra: i) Elsa Edda, f. 2007. b) Jónas Hlynur, f. 1982, börn hans og Helgu Guðmundsdóttur: i) Hallgrímur Helgi, f. 2010, ii) Guðmundur Kári, f. 2013. c) Ásgeir Örn, f. 1984, maki Hanna Borg Jónsdóttir, f. 1985, börn þeirra: i) Tumi, f. 2012, ii) Dagur, f. 2014, iii) Fríða, f. 2019.

4) Ásgeir Jón, f. 1960, maki Unnur Steinsson, f. 1963, barn þeirra Helga Sóley, f. 2007. Börn Ásgeirs og Sigurlaugar Kristínar Pálsdóttur: a) Rakel, f. 1984, maki Adrian Sabido, f. 1984, börn þeirra: i) Viktoría París, f. 2005, ii) Halldór Maron, f. 2008, iii) Ingunn Sara, f. 2014. b) Guðríður Harpa, f. 1990, sambýlismaður Hafsteinn Briem, f. 1991, börn þeirra: i) Marel, f. 2013, ii) Andrea, f. 2018. c) Brynja, f. 1993, sambýlismaður Marteinn Þór Pálmason, f. 1993, barn þeirra: i) óskírður, f. 2020.

Útför Guðríðar fór fram í kyrrþey frá Vídalínskirkju 17. apríl 2020.

Fallin er frá elskuleg móðir mín Guðríður Jónsdóttir á 96. aldursári. Hún fæddist á Patreksfirði 29. júlí 1924. Foreldrar hennar voru Ingibjörg Ólafsdóttir, húsmóðir og Jón Þórðarson, skipstjóri og heiðursborgari Patreksfjarðar. Mamma minntist æskuáranna á Patreksfirði, þar sem hún ólst upp í hópi 5 bræðra, með með mikilli hlýju. Á Patreksfirði var stór frændgarður sem deildi gleði og sorg. Sérstakir kærleikar voru með frændfólkinu á Hól börnum Guðmundar Þórðarsonar afabróður míns. Mamma var í sveit á sumrin í Trostansfirði hjá Málfríði frænku sinni. Þar var mannmargt heimili á þessum árum, þar bjó einnig Filippía Kristjánsdóttir og hennar fólk. Upp komu berklar á heimilinu og smitaðist mamma meðal annarra og veiktist. Þegar fréttir bárust til Patreksfjarðar af veikindunum brást amma skjótt við og náði í dóttur sína og hjúkraði heima. Mamma komst með tíð og tíma til fullrar heilsu og myndaði ónæmi fyrir berklum eftir þetta. Það kom sér vel að því leiti að á unglingsárunum dvaldi hún oft hjá móðursystur sinni Önnu Elísabet Ólafsdóttur síðar Johnsen yfirhjúkrunarkonu á Vífilstöðum. Anna frænka var barnlaus og tók hún mömmu upp á sína arma. Eftir að hefðbundinni skólagöngu lauk fór mamma á Húsmæðraskólann á Staðarfelli og útskrifaðist þaðan 1944. Dvölin á Staðarfelli mótaði mömmu mjög þar varð til vinátta sem entist ævilangt. Auk heimilisfræða var lögð rækt við hannyrðir og saumaskap sem lág mjög vel fyrir mömmu. Eftir dvölina á Staðarfelli kom Anna frænka mömmu í starfsnám til frú Dýrleifar Ármann sem var mikilsmetinn kjólameistari í Reykjavík.

Á þessum árum bjó mamma hjá frænku sinni í Vesturbæ Reykjavíkur. Frænkan bjó vel og hafði kostgangara. Meðal þeirra voru nokkrir ungir og glæsilegir menn nýfluttir suður frá Aðalvík. Faðir minn var úr þessum hópi. Tókust með þeim kynni sem leiddu til þess að þau gengu í hjónaband 13 janúar 1945 og þann 29. maí sama ár fæðist ég. Mikil húsnæðisekla var á þessum árum ég er t.d. fæddur undir súð í húsi einu í Sogamýri. Við bjuggum einnig í gömlum Steinbæ við Bergstaðastræti. Pabbi vann við þá vinnu er til féll allt þar til er hann réðst í vinnu hjá Arnbirni Óskarsyni og Lárusi G Lúðvíkssyni sem ráku Leðurgerðina og Skóverksmiðjuna Þór. Þar starfaði pabbi samfellt í 25 ár lengst af sem verkstjóri. Starfinu fylgdi húsnæði sem var mikilvægt á þeim tíma. Lengst af bjuggum við á Laufásveg 20 eða allt þar til við fluttum í Kópavog árið 1952 þar sem mamma og pabbi gerðust frumbyggjar. Mikið umrót var í þjóðfélaginu á þessum árum heilu byggðarlögin fóru í eyði og fólkið flutti í fjölmennið einkum til Reykjavíkur. Svo var einnig með fjölskyldu pabba í einni svipan flutti stór fjölskyldan frá Aðalvík til Reykjavíkur árið 1948. Gamla samfélagið að vestan með sinn félagsauð sín gömlu gildi hjálpsemi, tryggð og vináttu flutti sig um set til Reykjavíkur. Það komi í hlut þeirra sem áður voru komnir suður að hjálpa fólkinu að aðlagast gjörbreyttum aðstæðum. Foreldrar mínir þótt ungir væru voru hér í stóru hlutverki þau opnuðu heimili sitt og faðm. Heimili okkar var frá fyrstu tíð einskonar miðstöð stórfjölskyldunnar þar var komið saman, lagt á ráðin, haldnar veislur af ýmsum tilefnum. Mitt í öllu þessu stóð mamma skipulagði, bakaði, eldaði og vann oft langan vinnudag. Mamma var stórtæk í saumaskap á þessum árum saumaði öll föt á okkur systkinin og það voru ófá börnin sem eignuðust jólaföt saumuð af mömmu. Síðkvöld fram eftir nóttu var tími mömmu þá var hún í essinu sínu. Það var notalegt að sofna við niðinn í saumavélinni hennar.

Segja má að helsta áhugamál mömmu hafa alla tíð verið stórfjölskyldan og velferð hennar.

Mamma stundaði ekki launaða vinnu utan heimilis fyrr en síðari hluta ævinnar. Þegar hún og pabbi stofnuðu Skóverslun Kópavogs árið 1965. Fyrri störf pabba í skóverksmiðjunni og töskugerðinni og reynsla mömmu af saumaskap og áunnin smekkvísi var góður grunnur að verslunarrekstrinum. Enda fór það svo að Skóverslun Kópavogs vann sér fljótlega sess sem ein af betri sérverslunum landsins. Þar störfuðu þau saman samfellt í 25 ár eða þar til kom að starfslokum. Þá fluttu þau að Garðatorgi 17 í Garðabæ þar sem þau bjuggu þar til yfir lauk.

Mamma undi sér vel í Aðalvík á heimaslóðum pabba. Þar stundaði hún veiðiskap í Staðarvatni og var annáluð veiðikló gekk til berja og á fjöll. Hún á ófáar ferðirnar upp á Darrann. Í Aðalvíkurferðum lét hún mikið að sér kveða í eldamennskunni og lét sér ekki muna um að framreiða veislumat fyrir tugi manna ef sá gállinn var á henni. Sama var upp á teningnum í Kanaríeyjaferðum þar stóð hún og pabbi gjarnan fyrr rómuðum matarveislum.

Við sjáum nú á eftir einstakri ættmóður sem kveður okkur eftir langa og gifturíka ævi. Síðustu vikur og mánuðir hafa verið henni og okkur aðstandendum erfiðir. Að leiðarlokum vonuðumst við til að geta endurgoldið henni þá takmarkalausu ástúð og umhyggju sem hún sýndi okkur alla tíð. Að verða vitni að því hvernig hún hlúði að föður okkar síðustu æviárin allt þar til yfirlauk var einstakt. Að hafa ekki átt þess kost að hlúa að henni á sama hátt er sárara en orð fá lýst. En um leið erum við þakklát fyrir þá góðu og alúðlegu aðhlynningu sem hún fékk frá því að hún lærbrotnaði 17.desember s.l. frá hjúkrunarfólki Borgarspítalans, Landakotsspítala, Vífilstaðaspítala og á Hrafnistu í Hafnarfirði þar sem hún lést á Pálmasunnudag 5. apríl s.l.

Ég leyfi mér að trúa því að pabbi hafi beðið hennar í blómabrekkunni með útbreiddan faðminn þegar hún tók stökkið yfir lækinn.

Guð geymi þig elsku mamma takk fyrir hart nær 75 ára samfylgd.

Þinn sonur




Erling Ásgeirsson.