[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
4. maí 1975 Kristbjörg Magnúsdóttir er vesturþýskur meistari í handknattleik með Eintracht Minden sem sigrar RW Kiebitzreihe 12:8 í úrslitaleik. Hún er eina íslenska konan sem hefur unnið þýska meistaratitilinn.

4. maí 1975

Kristbjörg Magnúsdóttir er vesturþýskur meistari í handknattleik með Eintracht Minden sem sigrar RW Kiebitzreihe 12:8 í úrslitaleik. Hún er eina íslenska konan sem hefur unnið þýska meistaratitilinn. Eiginmaður hennar Axel Axelsson leikur úrslitaleikinn í karlaflokki með Dankersen en lið hans bíður lægri hlut gegn Gummersbach, 13:7.

4. maí 1984

Ásgeir Sigurvinsson skorar tvö marka Stuttgart og leggur eitt upp í 5:1-sigri á Kickers Offenbach í vesturþýska fótboltanum og fær þá umsögn í sjónvarpslýsingu leiksins að hann sé besti leikstjórnandi Bundesligunnar. Ásgeir er þá kominn með 11 mörk í deildinni á tímabilinu og Stuttgart er með eins stigs forskot á Hamburger SV í baráttunni um vesturþýska meistaratitilinn þegar þremur umferðum er ólokið.

4. maí 1990

Morgunblaðið segir frá því að Guðmundur Torfason landsliðsmaður í knattspyrnu hafi fengið sjö viðurkenningar sem leikmaður ársins hjá St. Mirren í skosku úrvalsdeildinni. Hann skoraði 13 af 28 mörkum liðsins í deildinni á tímabilinu 1989-90.

4. maí 1997

Íslenska karlalandsliðið í handknattleik sigrar Hvít-Rússa, 30:22, í lokaleik sínum á alþjóðlegu móti á Spáni, sem er síðasti leikurinn í undirbúningi fyrir HM í Kumamoto. Gústaf Bjarnason skorar níu mörk fyrir Ísland í leiknum og Valdimar Grímsson fimm.

4. maí 2002

Eiður Smári Guðjohnsen tekur fyrstur Íslendinga þátt í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu. Eiður, sem gerði 23 mörk fyrir Chelsea á tímabilinu sem þarna var að ljúka, verður þó að sætta sig við silfurverðlaunin en Arsenal leggur Chelsea að velli, 2:0, á Millenniumleikvanginum í Cardiff.

4. maí 2014

Valsmenn leggja KR-inga að velli, 2:1, í fyrstu umferð Íslandsmóts karla í knattspyrnu en KR þarf að spila heimaleik sinn á gervigrasvelli Þróttar í Laugardal. Ian Williamson og Kristinn Ingi Halldórsson skora fyrir Val en Gary Martin fyrir KR sem á Íslandsmeistaratitil að verja. Jóhann Birnir Guðmundsson úr Keflavík skorar hinsvegar fyrsta mark mótsins þegar Keflavík sigrar Þór, 3:1.