Helgi Steinar Karlsson
Helgi Steinar Karlsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Helga Steinar Karlsson, Viðar Guðmundsson, Þórarin Hrólfsson, Rafn Gunnarsson, Snæbjörn Þ. Snæbjörnsson og Þráin Þorvaldsson: "Breytt verklag, tækni og efnismeðferð í múrsmíði er fyrir hendi."

Morgunblaðið birti hvatningarorð í grein forsætisráðherra 11. apríl sl. ásamt framkvæmdastjóra SI: „Mikilvægt framlag er að landsmenn allir, fólkið í landinu og fyrirtækin, skipti sem mest við innlend fyrirtæki, og er þar engin atvinnugrein undanskilin.“ Undirritaðir eru múrarameistarar með áratuga reynslu af notkun íslenskra byggingarefna í skilrúmsveggi, hleðslusteinum úr vikri, gjalli og múrhúðun með innlendum múrefnum, sandi sem þjóðin á nóg af. Nauðsynlegt er nú sem aldrei fyrr að allir leggist á eitt að koma af stað atvinnu fyrir sem flesta. Viðbúið er að byggingariðnaður og þá sérstaklega íbúðarbyggingar fari ekki í gang á næstunni með sama hætti og verið hefur.

Svo vel vill til að enn er verið að framleiða hleðslustein og múrefni í einu elsta og virtasta framleiðslufyrirtæki á Íslandi í harðri samkeppni við innfluttar gifsplötur til notkunar í milliveggi. Því skal haldið til haga að íslenskir múrarar búa enn að þekkingu og eru vel tæknivæddir til að takast á við hefðbundið múrverk eins og áður var og hefur reynst vel. Breytt verklag, tækni og efnismeðferð í múrsmíði er fyrir hendi.

Með því að nota íslenska framleiðslu, íslenskan milliveggjastein, múrefni, sand og sement er verið að styrkja undirstöður íslenskrar atvinnustarfsemi og draga úr atvinnuleysi. Við allar framkvæmdir er nauðsynlegt að horfa jöfnum höndum til endingartíma byggingarefna og upphaflegs byggingarkostnaðar. Þar við bætist að innlendu efnin hafa meira höggþol, auðveldara er að koma þar fyrir hvers konar festingum, rakaþol er gott, einnig er eldþol þeirra gott, sem þeir munu geta staðfest sem þekkja til brunavarna og slökkvistarfs, og einnig er gott hljóðþol í hlöðnum milliveggjum.

Í stað sandspartls sem er ekki rakaþolið verði notuð innlend múrefni sem eru rakaþolin til filtunar á loft og steypta veggi innanhúss sem utan.

Hönnuðir þurfa trúlega að taka til á teikniborðum sínum. Vitað er að á teikniborðum hönnuða eru skilrúmsveggir úr innfluttum byggingarefnum, álstoðum og klæddir með gifsplötum.

Rétt er að benda á mikinn innflutning innfluttra byggingarefna og byggingahluta á undanförnum árum. Notkun sumra þessara innfluttu erlendu byggingarefna er varasöm við tilteknar aðstæður svo sem í baðherbergjum þar sem þau draga í sig raka og aflagast og endast því illa en innlendu efnin verjast raka mjög vel og breyta sér ekki þótt raki komist í þau.

Einnig sparast gjaldeyrir með nýtingu innlendra byggingarefna sem í verði eru vel samkeppnisfær hérlendis en eiga takmarkaða möguleika sem útflutningsvara vegna mikils kostnaðar við flutning á erlendan markað.

Nú er lag til að fjölga störfum og styrkja íslenskan byggingariðnað.

Höfundar eru múrarameistarar.

Höf.: Helga Steinar Karlsson, Viðar Guðmundsson, Þórarin Hrólfsson, Rafn Gunnarsson, Snæbjörn Þ. Snæbjörnsson, Þráin Þorvaldsson