Jón Hálfdanarson
Jón Hálfdanarson
Eftir Jón Hálfdanarson: "Markaðurinn hrundi þegar kórónuveiran lagði heiminn undir sig. Samt halda menn áfram eins og ekkert hafi ískorist. Viljum við það?"

Á einungis nokkrum vikum breyttist heimurinn. Það sem áður leit út fyrir að standa styrkum stoðum var miklu brotakenndara en við höfðum flest áttað okkur á. Lærdómurinn af kórónuveirufaraldrinum er margvíslegur og við sjáum ekki enn til lands. Vitum ekki hvað er fram undan en vitum hins vegar hvaða spurninga við þurfum að spyrja okkur: Ætlum við að halda áfram eins og ekkert hafi ískorist?

Í Kvosinni í Reykjavík eru þrjú stór lúxushótel í byggingu. Áður en bygging þeirra hófst var kraðakið og umferðaröngþveitið að margra dómi orðið of mikið og hótelin í miðbænum þegar nógu mörg. Í ljósi efnahagskreppunnar sem nú skekur heiminn, með tilheyrandi hruni ferðaþjónustu, vaknar sú spurning hvort við sem samfélag teljum þörf á öllum þessum byggingarframkvæmdum. Viljum við halda áfram að fylla miðborgina af hótelum?

Risi við Austurvöll

Við Austurvöll er að rísa hótelbygging. Hún er stór. Öll hús gamla Landssímans verða lögð undir hana. Auk þess NASA og hús við Ingólfstorg. Eins og þetta væri ekki nóg var friðhelgi Víkurkirkjugarðs, elsta kirkjugarðs Reykvíkinga, rofin til að koma þar fyrir viðbyggingu við hótelið. Líkamsleifar tuga forfeðra okkar voru grafnar upp og færðar í pappakössum í geymslur Þjóðminjasafnsins. Viðbyggingin sem stendur hálf ofan í kirkjugarðinum nær alveg að Kirkjustræti. Hún er nú að hefja sig til himins.

Skattgreiðendur geta gert sér ferð niður í Kvosina og séð hversu örstutt er frá gluggum væntanlegs hótels yfir í hús Alþingis. Hvergi í heiminum yrði af öryggisástæðum leyft að hótel opið öllum fengi að rísa svona nálægt þjóðþingi.

Tugþúsundir hafa mótmælt þessum framkvæmdum á ýmsum stigum af fjölmörgum ástæðum. Nú síðast gengu fram fyrir skjöldu heiðursborgarar Reykjavíkur, Vigdís Finnbogadóttir, Friðrik Ólafsson, Þorgerður Ingólfsdóttir og Erró.

Varasamar hótelfjárfestingar

Það er fyrirtækið Lindarvatn sem stendur fyrir framkvæmdunum. Icelandair á helming þess. Nýlega var viðtal á RÚV við framkvæmdastjóra Lindarvatns. Hann var borubrattur og sagði rífandi gang í framkvæmdunum og að verklok yrðu fyrir áramót. Þá myndu Icelandair Hotels taka við hótelinu.

En hver er þörfin? Fyrir rúmu ári var bent á að hápunkti ferðaþjónustunnar væri þá þegar náð og allar fjárfestingar í nýjum hótelum væru ákaflegar varasamar. Síðan hrundi markaðurinn þegar kórónuveiran lagði heiminn undir sig. Samt halda menn áfram eins og ekkert hafi ískorist. Viljum við það?

Engu er líkara en fjárfestarnir og framkvæmdaaðilarnir séu að reyna að komast eins langt út í foraðið og þeir geta áður en þeir sökkva.

Fjárhættuspilið má stöðva

En hvað er til ráða? Hér er mín tillaga sem ég bið skattgreiðendur og lífeyrissjóðseigendur að íhuga því það er þeirra fé sem er að brenna upp í þessu fjárhættuspili.

Alþingi ætti að yfirtaka Landssímahúsið upp í væntanlegan ríkisstyrk til Icelandair. Þá gæti Alþingi hætt við rótið á Alþingisreitnum og innréttað Landssímahúsið fyrir sig. Alþingi vantar nýtt húsnæði og er að hefja framkvæmdir á svokölluðum Alþingisreit, auða svæðinu á milli Ráðhússins, Oddfellowhússins og húsa Alþingis.

Fjárhagsstaða ríkissjóðs á næstu árum verður ekki það burðug að skynsamlegt sé að hefja nýframkvæmdir sem enginn veit hvað kosta þegar upp er staðið og sitja hugsanlega líka uppi með fallít hálfkaraða hótelbyggingu þegar reynt verður að bjarga Icelandair.

Gróðurskáli við Austurvöll

Borgarstjórn ætti að sjá sóma sinn í að skilja eftir auða bletti í miðbænum fyrir barnabörn okkar en láta þeim ekki í arf kumbalda hvern ofan í öðrum. Á Alþingisreitnum gæti komið fallegt Ráðhústorg með margs konar notkun eins og menn sjá víða erlendis.

Neðstu hæð viðbyggingarinnar sem verið er að steypa upp og stendur hálf ofan í Víkurkirkjugarði mætti hafa opna á þrjár hliðar eins og gróðurskála. Þar væri hægt að koma fyrir minningum um formæður okkar og -feður sem hvíla enn í vígðri mold í því sem eftir er af Víkurkirkjugarði eða hafa verið færð í pappakassa. Þarna voru Reykvíkingar lagðir til grafar í þúsund ár. Á þessum stað mætti gera sögu Reykjavíkur góð skil, með áherslu á persónulega sögu þess fólks sem þar var lagt til hinstu hvílu. Í örskotsfjarlægð settist fyrsta landnámsfólkið að. Öldum síðar risu við hliðina Innréttingar Skúla Magnússonar sem urðu til þess að Reykjavík varð borg.

Í gegnum þennan gróður- og minjaskála væri gönguleið fólks frá styttu Skúla Magnússonar yfir á Austurvöll. Undir Kirkjustræti mætti gera göng frá viðbyggingu Alþingishússins yfir í Landssímahúsið. Þar væru menn undir horfnu Apótekarahúsunum en ekki ofan í Víkurkirkjugarði. Um göngin gætu alþingismenn og starfsfólk farið ef loftið úti væri of frískt eða lævíst.

Að lokum. Við eigum að meta sögu okkar en ekki láta glýju um skammvinnan gróða ráða gerðum. Það gæti orðið lærdómur okkar af bankahruninu og Covid 19-faraldrinum.

Höfundur er eðlisfræðingur. jonh@aknet.is

Höf.: Jón Hálfdanarson