Þingvellir Treyst er á að landsmenn ferðist innanlands í sumar.
Þingvellir Treyst er á að landsmenn ferðist innanlands í sumar. — Ljósmynd/Kuku Campers
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hlynur Elfar Þrastarson, framkvæmdastjóri svefnbílaleigunnar Kuku Campers, segir að lítil sem engin starfsemi sé hjá fyrirtækinu um þessar mundir.

Hlynur Elfar Þrastarson, framkvæmdastjóri svefnbílaleigunnar Kuku Campers, segir að lítil sem engin starfsemi sé hjá fyrirtækinu um þessar mundir. Þó muni það halda úti starfsemi í sumar og halda þeim svefnbílum sem fyrirtækið hefur til umráða, en þeir eru tæplega 400 talsins.

„Við ætlum bara að standa þetta af okkur, taka einn dag í einu og vona það besta,“ segir Hlynur.

Aðgerðir stjórnvalda hafa mælst vel fyrir hjá fyrirtækinu í því slæma árferði sem blasir við ferðaþjónustunni.

„Aðgerðir stjórnvalda hafa gefið fyrirtækjum von um að hægt sé að fara í gegnum skaflinn. Sá styrkur sem ríkisstjórnin veitir og það að lánafyrirtækin séu að fresta greiðslum af lánum hjálpar okkur,“ segir hann.

Innan ferðaþjónustunnar og hjá stjórnvöldum standa vonir til að landsmenn ferðist innanlands í sumar, og hjálpi þar með fyrirtækjum í ferðaþjónustu að takast á við erfitt rekstrartímabil vegna þverrandi fjölda ferðamanna.

„Að sama skapi get ég sagt að við erum sátt við viðbrögð Íslendinga. Við finnum fyrir auknum áhuga af hálfu Íslendinga og það er augljóst að þeir munu ferðast innanlands í sumar,“ segir Hlynur að endingu.