Fuglshræ Mörg voru olíublaut.
Fuglshræ Mörg voru olíublaut. — Ljósmynd/Náttúrustofa Suðurlands
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Náttúrustofa Suðurlands gerði út leiðangur í Stafnes á norðvestanverðri Heimaey í gær vegna ábendingar um mörg fuglshræ. Þar fundust 27 hræ, flest af æðarfuglum en einnig af langvíu og álku.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Náttúrustofa Suðurlands gerði út leiðangur í Stafnes á norðvestanverðri Heimaey í gær vegna ábendingar um mörg fuglshræ. Þar fundust 27 hræ, flest af æðarfuglum en einnig af langvíu og álku. Af þeim voru 14 fuglar olíublautir, líklega mengaðir af svartolíu. Svartolíublautir fuglar hafa fundist víðar á strönd Heimaeyjar og eins við suðurströndina.

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, segir að sýni af olíunni verði send til Noregs til efnagreiningar. Sýni úr svartolíublautum fugli sem fannst í Reynisfjöru var greint og var það svartolía eins og er seld hér. Erpur segir enga nota slíka olíu nú nema farmskip.

Þeirri hugmynd hefur verið varpað fram að svartolían kunni að koma úr sokknu flaki austan við Eyjar og berist með straumum vestur með landinu. Fuglarnir sem hafa mengast halda sig gjarnan við ströndina, eins og æðarfuglinn.

„Þessi mengun virðist vera viðvarandi og ekki stoppa. Fuglarnir virðast lenda í svartolíunni úti á rúmsjó. Þeir komast gegnblautir af olíu í land, reyna að þrífa sig með því að éta af sér olíuna. Svo drepast þeir kvalafullum dauðdaga,“ segir Erpur í samtali við Morgunblaðið.

Mengun í Vestmannaeyjahöfn

Talið er að olíumengun kunni að hafa borist af landi út í Vestmannaeyjahöfn eins og sjá mátti á mynd á forsíðu Morgunblaðsins á laugardag.

Starfsmenn hafnarinnar hafa fylgst sérstaklega með tveimur svæðum til að athuga hvort olía geti hafa borist þaðan út í höfnina, að sögn Ólafs Þórs Snorrasonar hafnarstjóra.

„Það er ólíklegt að þetta hafi komið úr báti, því það voru engir bátar þarna á ferðinni,“ segir Ólafur. „Við erum ekki búnir að setja upp girðingar, en það er alveg inni í myndinni ef við sjáum eitthvað koma af olíu.“ Í dag á að athuga hvort mengunin geti hafa borist úr aflögðum lögnum.

Olíublautir fuglar víða

Erpur Snær segir að talsvert hafi fundist af olíublautum fuglum bæði innan og utan hafnarinnar í Vestmannaeyjum nokkuð lengi. Þannig var áberandi olíumengun í höfninni í september í fyrra þegar lundapysjur fóru að fljúga úr holum. Mjög margar lentu í olíunni og voru færðar til hreinsunar hjá Sea Life Trust, og tókst að bjarga flestum þeirra.