Arnar Sverrisson
Arnar Sverrisson
Eftir Arnar Sverrisson: "Síðustu áratugina hefur mál- og rannsóknafrelsi átt erfitt uppdáttar við háskólana. Fjölda karlkennara hefur verið útskúfað."

Hagfræðingurinn Lawrence Summers (f. 1954), sem gegnt hefur ábyrgðarstöðum hjá Alþjóðabankanum og í ráðuneyti Bills Clintons, síðar í ráðuneyti Baracks Obama, er nú prófessor og deildarforseti við Harvard-háskóla, en var rektor hans á tímabilinu frá 2001 til 2006. Árið 2005 sagði hann í ræðu, að ástæðan fyrir lægra hlutfalli kvenna meðal prófessora í raunvísindum, tæknigreinum og á rannsóknarstofnunum kynni að skýrast af tímafrekara barnauppeldi af þeirra hálfu og „mismunandi hæfni [miðað við karla] í efsta þrepi [greindarinnar]“. Lawrence virti að vettugi eina af mikilvægustu ranghugmyndum kvenfrelsara; þ.e. að greind kynjanna sé að öllu leyti sú sama og eins dreifð. Öflugar mótmælaöldur risu. Það er skemmst frá því að segja, að Lawrence taldi sig knúinn til að segja af sér. Hann lét hafa eftir sér: „Við höfum með að gera fáránlegan stjórnmálalegan rétttrúnað [...]. Nú er ég einn þeirra, sem trúa ákveðið á fjölbreytni; sem andæfa kynþáttaníði í fjölmörgum tilbrigðum þess; sem sjá mörgu ábótavant í amerísku samfélagi. Því þarf að bæta úr. En mér virðist sem gerræðistilburðir með tilliti til þess, hvaða hugmyndir megi ræða í háskólum, skjóti rótum hægt og bítandi.“ Lawrence reyndist sannspár. Fjöldi karlkennara hefur síðan verið hrakinn burtu úr háskólunum fyrir „bannaðar“ skoðanir og kynferðislega áreitni.

Kvenfrelsunarrétttrúnaður varð áberandi við æðri menntastofnanir vestan hafs í lok níunda áratugar síðustu aldar. Áróðurinn um kynferðislegt ofbeldi karla á heimilum sínum tók nú til menntastofnana og annarra vinnustaða. Í grein í „Canadian Women Studies“ árið 1992 útskýrir Rachel L. Osborne (f. 1965), ráðgjafi á sviði menntamála (policy advisor), hina nýju stefnu. Fjöldi háskóla í Kanada hefði, sagði hún, brugðist við þeim vanda, sem kynferðisleg áreitni gagnvart konum væri, og samið leiðbeiningar til að takast á við hann. Þar er m.a. skilgreint, hvað í kynferðislegri áreitni felst. „Þessi viðbrögð stofnananna eru ófullnægjandi, skammsýn og gagnslítil, þar sem þau taka ekki á þeim atriðum, sem liggja til grundvallar kynferðislegri áreitni; hinu kynfólskulega, fjandsamlega og kvenhatursfulla umhverfi, sem konur búa við í háskólunum.“ ... „Herkænskan, þegar til lengri tíma er litið, verður að miða að því að breyta uppbyggingu háskólanna í stjórnmálalegu tilliti. [Hún] skapar umhverfi, sem stuðlar að kynferðislegri áreitni.“

Tveimur árum síðar, í grein í „New Scientist“, lýsti stærðfræðingurinn Arturo Sangali hinum nýju leikreglum svo: „Þátttakendur ganga til iðju sinar – kenna, skrifa, tala og svo framvegis – þar til einhver hrópar „rangtrúaður“. Þegar hér kemur sögu verða allir, sem boðskapinn heyra, að játa sig seka, iðrast og lofa, að slíkt endurtaki sig ekki.“

Ofstopafullar hreinsanir hafa nú staðið yfir í drjúga þrjá áratugi. Flestir virðast láta þetta yfir sig ganga, enda við ofurefli að etja. Norðurameríski lögfræðingurinn Heather Lynn DacDonald (f. 1956) er þó ekki af baki dottin. Hún gaf árið 2018 út bókina „Fjölbreytnihugvillan: Hvernig kynþátta- og kyndólgshátturinn spillir háskólun og grefur undan menningu vorri“ (The Diversity Delusion: How Race and Gender Pandering Corrupt the University and Undermine Our Culture). Hún segir m.a.: „Skortur á umburðarlyndi við háskólana er engan veginn sálrænn vandi, heldur hugmyndafræðilegur. Rót hans er sú heimssýn, að vestræn menning sé fólskuleg í garð kynþátta og kvenkyns (sexist) – svo stappar nærri farsótt. ... Það er gáleysislegt í miskunnarlausu og óbilgjörnu alþjóðlegu samfélagi samkeppninnar að slaka á viðmiðum og sóa þreki vísindamanna í baráttu gegn ímyndaðri kynfólsku [...].“ Heather heldur áfram: „Hið stóra afrek endurreisnarinnar í Evrópu var að krefjast þess af hvers kyns yfirvöldum að réttlæta gjörðir sínar með rökstuðningi, en ekki við valdbeitingu eða grímulausa (unadorn) skírskotun til hefðar. Það er einstaklega óhugnanlegt að verða vitni að því í háskólum að beitt sé grimmilegu valdi í deilu. Þeir ættu að vera fyrirmynd að umræðuháttvísi.“

Hún varar við þróuninni: Kynfræðingar í háskólunum þiggja milljarða dala til að uppgötva svokallaða örýgi (illgreinanlegt ofbeldi karla gegn konum) og samfylkingarkúgun (intersectionality), þ.e. kúgun kvenna og annarra „minnihlutahópa“ á sviðum raunvísinda og tækni, þar sem „kynfólska“ er talin vera haldbesta skýringin á ójöfnum kynhlutföllum nemenda. Það er „fjölbreytnihugvillan“. „[S]kerðing frjálsrar umræðu er einkenni einhvers, sem á sér dýpri rætur; það er ræktun fórnarlambsfræðinnar.“

Þessi pest hefur fyrir löngu náð til Íslands eins og t.d. mál Kristins Sigurjónssonar, Jóns Baldvins Hannibalssonar og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar bera vitni um.

Höfundur er ellilífeyrisþegi. arnarsverrisson@gmail.com

Höf.: Arnar Sverrisson