Karen Elísabet Halldórsdóttir
Karen Elísabet Halldórsdóttir
Eftir Karen Elísabetu Halldórsdóttur: "Ég er stolt af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar en velti fyrir mér enn og aftur breyttri framtíð, rétt eins og við gerðum öll í kjölfar bankahrunsins."

Efnahagslegar afleiðingar af Covid-19 verða alvarlegar. Við erum háð opnun landamæra til þess að rétta af tekjutap vegna fækkunar ferðamanna. Horfa verður til lærdóma fortíðar og taka mið af tvísýnum heimi þar sem lítil veira hefur fellt flest hagkerfi heimsins. Langflestar þjóðir hafa tekið þá ákvörðun að vernda heilsu fólks frekar en efnahag og spurningin sem margir eru farnir að spyrja sig er hversu lengi ætli sé hægt að standa við þá ákvörðun.

Fyrirtækjum er lokað, fólk missir vinnuna og ríkissjóður rýrnar. Ég er stolt af viðbrögðum ríkisstjórnarinnar en velti fyrir mér enn og aftur breyttri framtíð, rétt eins og við gerðum öll í kjölfar bankahrunsins.

Við þurfum vinnu, þörfnumst þess að fyrirtæki haldi velli og að afleidd störf séu fjölbreytt í kringum helstu útflutningsverðmæti okkar. Ég las athyglisverða grein 27.4. 2020 í Morgunblaðinu eftir fyrrverandi sjávarútsvegráðherra, Jón Bjarnason. Þar rakti hann sín viðbrögð sem ráðherra í kjölfar bankahrunsins. Hann lýsir mikilli andstöðu við ýmsar ákvarðanir bæði frá LÍÚ sem og sinni eigin ríkisstjórn. Hans verk voru langflest til þess fallin að auka nýliðun í sjávarútvegi. Hann lýsir því sem mikilvægu ábyrgðarhlutverki í kreppu að reyna að auka útflutningstekjur og fjölga störfum í greininni. Nefnir hann sérstaklega strandveiðar og þá verðmætaaukningu sem fólst í að veiða makríl til manneldis en ekki bræðslu. Það hafi gegnt veigamiklu hlutverki í að létta róður þjakaðrar þjóðar í kjölfar bankahruns.

Mikilvæg skref hafa verið tekin til þess að vernda afkomu og heilbrigði Íslendinga í núverandi krísuástandi. Raddir sem lutu að matvælaöryggi þjóðarinnar sem undanfarin ár hafa þótt gamaldags og lummulegar eru núna ekki lengur svo fjarstæðukenndar. Það er algerlega vonlaust að segja fyrir um hvenær ferðamannaþjónustan nær fyrri hæðum í tekjum.

Því þarf að hugsa í lausnum og taka jafnvel einhver skref aftur á bak til þeirra tíma sem sjávarútvegur var það sem þjóðin lifði einna mest á og var undirstaða hagkerfisins. Helsta gagnrýnin á núverandi kvótakerfi er sú að til þess að gera útgerðina hagkvæmari hefur kvótinn flust á færri hendur. Ég ætla ekki að skammast yfir því að fólk hafi efnast á þessu kerfi, ég er ein af þeim sem fagna því þegar öðrum gengur vel. Hins vegar vil ég benda hér á í ljósi þeirra orða og reynslu sem m.a. Jón Bjarnason lýsir að það eru tækifæri í þessum bransa. Það er nægur fiskur í sjónum, fólk þarf að borða, afleiddar afurðir af dýrunum eru fjölbreyttar og því ekki, því ekki að reyna það sem þjóð að sameinast um nýliðun og nýsköpun í þessari aðalatvinnugrein þjóðarinnar sem og landbúnaði?

Hvernig gerum við það? Eflum til dæmis strandveiðar til muna og drögum úr furðulegu regluverki sem þeim fylgir og á í raun ekki neina sérstaka tengingu við skynsemi. Stórfjölga á þeim dögum sem má veiða, og að sjálfsögðu á hverjum og einum sjómanni/-konu að vera frjálst á hvaða dögum þau sinna því starfi. Að banna veiðar þrjá daga vikunnar er bara vitleysa því auðvitað, eins og í öðrum viðskiptum, á markaðurinn að ráða því hvenær sala á sér stað.

Við getum einnig sett einhvern hluta af kvóta á markað, þar sem ríkið er eigandi, og þeir sem ekki hafa efni á að kaupa hann gætu tekið hann á leigu. Nú er ekki verið að tala um að taka hann af einhverjum, nei bara leggja það til að búa til nýjan markað fyrir þá sem vilja komast að í þessari atvinnugrein og afla gjaldeyristekna fyrir þjóðina og skapa sér lífsviðurværi. Slíkar hugmyndir hafa meðal annars komið fram hjá Jóni Gunnarssyni alþingismanni í grein hans Þjóðarsátt um sjávarútveg árið 2016. Þar lagði hann til að veiðigjöld yrðu hlutfall aflaheimila, sem yrði greitt til ríkisins sem fullnaðargreiðsla á veiðigjöldum fiskveiðiársins. Með þessu kæmu tugir þúsunda tonna til ráðstöfunar frá ríkinu, sem yrði úthlutað á sanngjarnan máta sem myndi taka mið af smærri útgerðum og nýliðun í greininni.

Við eigum einnig að efla landbúnað. Hvort sem það er grænmetisræktun eða kjöt- og mjólkurframleiðsla. Skilgreina þarf hvers vegna bændur segjast lepja dauðann úr skel á meðan vísitölufjölskyldan hefur ekki efni á kjötmáltíð nema einu sinni til tvisvar í viku og 180 gramma jógúrtdolla kostar um 150 krónur og grænmeti er munaður.

Með þessum „gamaldags og íhaldssömu“ hugleiðingum er ég ekki að segja að við eigum ekki að leggjast á bæn og vona að ferðamennirnir komi og „reddi þessu“ eða að við eigum að hætta að liðka til fyrir innflutningi á búvörum og öðrum neysluvörum. Nei, ég er bara að nefna að nú þarf annan hugsunarhátt til þess að við komumst úr þessum skafli eina ferðina enn og þá er okkar helsta von að treysta á það sem við kunnum og getum unnið með hér heima. Þegar ferðamennirnir koma aftur, þá er það bara ábati á það sem er þegar vel gert hér. Flýta þarf þessum ákvörðunum svo draga megi úr tekjufalli sveitarfélaga og ríkisins sem þurfa að vernda grunnþjónustu og velferðarkerfið eins vel og hægt er á tvísýnum tímum og vil ég því hvetja ráðherra ríkisstjórnarinnar til dáða í þessum efnum.

Höfundur er varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og bæjarfulltrúi í Kópavogi.

Höf.: Karen Elísabetu Halldórsdóttur