Gleðistund Teiknarinn Albert Uderzo ásamt Steinríki og Ástríki.
Gleðistund Teiknarinn Albert Uderzo ásamt Steinríki og Ástríki. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarmaðurinn Sváfnir Sigurðarson mælir með listaverkum í kófinu. „Samkomubannið hefur kallað á svo marga göngutúra að jafnvel hundurinn er farinn að verða leiður en í þessum göngutúrum nýti ég tímann í að hlusta á gott podcast eða á tónlist.

Tónlistarmaðurinn Sváfnir Sigurðarson mælir með listaverkum í kófinu. „Samkomubannið hefur kallað á svo marga göngutúra að jafnvel hundurinn er farinn að verða leiður en í þessum göngutúrum nýti ég tímann í að hlusta á gott podcast eða á tónlist. Ég reyni að hlusta á eitthvað nýtt til helminga á móti því gamla en ég viðurkenni vel að maður er ekki eins móttækilegur í dag og maður var hér áður. Ég hef beint sjónum mínum meira að íslenskri tónlist og í vikunni rataði ég á tónlist Sveins Guðmundssonar söngvaskálds sem var að gefa út plötuna Skrifstofuplanta . Ég bókstaflega kolféll fyrir þessari plötu. Ekki síst textunum hans sem við fyrstu hlustun virðast fjalla um einfalda og afmarkaða hluti en eru þegar betur eru að gáð miklu dýpri og líkingamálið margslungið. Ég skora á ykkur að taka góðan göngutúr með Skrifstofuplöntu . Það verður enginn svikinn af því.

Plata æskuhetjunnar minnar Pauls Wellers, True Meanings frá 2018, er frábær og ég læt hana rúlla reglulega og þá alla leið í gegn. Mæli hiklaust með öllum katalóg Wellers. Hann er séní.

Af því sem ég hef séð á skjánum undanfarið hef ég helst hrifist af þáttunum Unorthodox sem bregða ljósi á samfélag Hasíta-gyðinga í Williamsburg í Brooklyn. Þættirnir byggjast að hluta á sögu konu sem sneri baki við rótum sínum og flýði þetta samfélag í leit að betra lífi. Þetta er mögnuð innsýn í framandi menningarheim og mér skilst að þessi mynd sem er dregin upp þarna fari býsna nærri raunveruleikanum. Ég vildi óska þess að ég hefði einhverja stórbrotna skáldsögu á náttborðinu þessa stundina, en ég væri bara að skrökva ef ég segði að svo væri. Ég bendi fólki því bara á að endurnýja kynnin við Ástríksbækurnar, en annar höfunda þeirra Albert Uderzo lést í mars síðastliðnum og tilvalið að heiðra minningu hans með því að kíkja í Gaulverjabæ. Það má alltaf treysta á góð slagsmál í fiskbúðinni, grillaðan villigölt og Óðrík tjóðraðan uppi í tré. Allt eins og það á að vera.“