Þorbjörg Jónasdóttir fæddist á Eiði á Langanesi 12. mars 1945. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Reykjavík 20. apríl 2020.

Foreldrar hennar voru Laufey Kristjana Benediktsdóttir, f. 1908, d. 1992, og Jónas Gunnlaugsson, f. 1907, d. 1992. Systkini Þorbjargar eru Gunnlaugur, d. 2003, Steinunn, Helga Þórey, Snorri, Hermann Ágúst og Sigrún Margrét.

Þorbjörg giftist hinn 20. ágúst 1977 Halldóri Bragasyni, f. 18. nóvember 1945, d. 4. september 1997.

Börn Þorbjargar eru: 1) Þóra Björg Jónasdóttir, f. 7. maí 1970, börn hennar eru a) Sunna Björg Gunnarsdóttir, f. 1992, maki Jökull Sólberg Auðunsson, sonur hans er Rökkvi Sólberg, f. 2010, sonur þeirra er Unnar Sólberg, f. 2019. b) Halldór Óli Ólafsson, f. 1998, maki Margrét Nilsdóttir. 2) Yngvi Halldórsson, f. 30. júlí 1977, maki Linda Jónsdóttir, börn þeirra eru Birgitta Rún, f. 2007, Tómas Ari, f. 2012, og Björgvin Jón, f. 2013. 3) Halldór Halldórsson, f. 20. mars 1983, maki Arna Borg, barn þeirra er Katrín Björg, f. 2018.

Þorbjörg ólst upp á Eiði þar til fjölskylda hennar flutti á Húsavík árið 1957. Þorbjörg stundaði nám við Húsmæðraskólann Ósk á Ísafirði á árunum 1964-1965. Hún flutti síðar til Reykjavíkur og starfaði þar lengst af í herrafatadeild Hagkaupa.

Útför Þorbjargar fer fram í kyrrþey hinn 4. maí 2020.

Með miklum söknuði kveðjum við elsku mömmu, ömmu og tengdamömmu. Við erum gríðarlega þakklát fyrir þann tíma sem við fengum að eiga með henni. Dugnaður hennar og hugulsemi áttu sér engin takmörk og var hún alltaf tilbúin að styðja okkur og hjálpa við öll þau ótal mörgu verkefni sem koma upp á stóru heimili.

Sem mamma var hún frábær fyrirmynd og lagði metnað í allt sem hún tók sér fyrir hendur og var aldrei í vandræðum með að finna verkefni. Hvort sem það var uppi í sumarbústað fjölskyldunnar eða á æskuheimilinu í viðhaldi, útiverkum, bakstri, saumaskap eða tilfærslu á húsgögnum, sem öðrum fjölskyldumeðlimum fannst reyndar sérstök iðja.

Vinnusemi, þrautseigja og gríðarlegur dugnaður einkenndi hana alla tíð og þrátt fyrir veikindi síðustu ára lét hún ekkert stoppa sig, hreyfði sig mikið og skellti sér í öll verkefni, lítil og stór. Hún sýndi ást til fjölskyldunnar í verki og var ekki mikið um væmni eða væl á þeim bænum.

Frá því krakkarnir fæddust sótti amma Tobba þá nokkrum sinnum í viku á leikskóla og skóla og gerði það alveg þangað til í lok febrúar þegar heilsunni hrakaði mikið. Hún var alltaf til í að eyða tíma með krökkunum og varð hálfmóðguð ef hún var ekki fyrst til að vera beðin að passa. Krakkarnir sitja eftir með ótal spurningar og mikinn söknuð. Hver muni eiginlega passa þau, finna hluti sem eru týndir og hvort þau fái aldrei pönnukökur, bananabrauð eða ömmuknús aftur.

Sem tengdamamma var elsku Tobba búin að besta tengdamömmuhlutverkið og var það stór lottóvinningur að fá að vera tengdadóttir hennar. Hún hafði þægilega nærveru og af mikilli fórnfýsi vildi hún allt fyrir mann gera alla tíð. Hún var okkur til dæmis ómetanleg hjálp með drengina okkar tvo sem fæddust með 15 mánaða millibili.

Við fórum ótal ferðir saman, bæði innanlands og erlendis, þar sem við gerðum mikið af skemmtilegum hlutum sem sitja eftir sem frábærar minningar um frábæra konu sem við varðveitum í hjarta okkar.

Eftir stendur minning um dugnaðarfork og orkubolta sem við vorum stolt af, munum við hugsa til hennar á hverjum degi og sakna sárt.

Elsku mamma, amma og tengdamamma – elskum þig.

Yngvi, Linda, Birgitta Rún, Tómas Ari og Björgvin Jón.

Með miklum söknuði kveð ég ömmu Tobbu en ég og amma ætluðum alltaf að verða gamlar konur saman. Amma er konan sem ég hef alltaf litið upp til og mun gera um ókomna tíð, það var eins og sálirnar okkar væru tengdar á sérstakan hátt og hún skilur eftir stórt sár í minni.

Þegar ég fæddist bjó mamma mín heima hjá ömmu og afa og mínar dýrmætustu æskuminningar eru í faðmi þeirra tveggja. Amma var hlý, skemmtileg, orkumikil og ákveðin kona. Hún var iðulega að gera og græja eitthvað fyrir börnin sín eða barnabörn, en hún var alltaf til staðar til að hjálpa manni með hvað sem er, hvort sem það var að stytta gardínur, stoppa í sokka, skutla manni, redda einhverju eða baka marengs fyrir minnstu tilefni.

Ég fékk snemma matarást á ömmu minni og dreymir mig um að vera jafn frábær kokkur og hún og stunda nú stífar pönnukökuæfingar í von um að gera hana stolta og taka við keflinu. Þau voru ófá skiptin eftir að ég fór að búa þar sem ég hringdi í ömmu til að fá ráð í eldamennskunni t.d. afhverju pönnukökurnar mínar festust við pönnuna, alltaf var hún með svar við öllu og heyri ég hana ljóslifandi segja „hæ prinsess“ í símann. Ég er viss um að það verða mörg tilfelli í framtíðinni þar sem ég mun óska þess að geta hringt í hana til að leita ráða. Amma gerði allt fyrir mann, það var alveg sama hvað, og aldrei bað hún um neitt til baka.

Mér er minnisstætt hversu innilega hún hló og þau voru ófá hlátursköstin okkar saman en amma var alltaf til í eitthvert sprell. Amma lá yfirleitt ekki á skoðunum sínum og gat stundum verið fullhreinskilin en þá oftast glottandi út í annað og hafði ég alltaf mjög gaman af. Amma var hörkudugleg og fór daglega í sund og stundaði göngutúra af fullum krafti og það gat verið erfitt að fá hana til að slaka á, nema kannski á sólarströnd. Við fórum í nokkrar eftirminnilegar ferðir saman þar sem við lágum á sundlaugarbakkanum, drukkum shandy og spiluðum rommí. Þá var keppt í því hver kæmi brúnastur heim, en hún vann þá keppni alltaf vegna þess að hún var með svo gott forskot enda sunddrottning. Ömmu fannst mjög gaman að vera fín og ég elskaði að fá að lita á henni augabrúnirnar, hjálpa henni að velja dress eða setja á hana naglalakk og skvísast með henni.

Þegar ég hugsa um ömmu er þakklæti mér efst í huga, ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið hana sem ömmu, þakklát fyrir allt það sem hún kenndi mér og þakklát fyrir allar minningarnar. Þá er ég þakklát fyrir það að hún hafi fengið að sjá mig í móðurhlutverkinu og hitt barnabarnið sitt, sólargeislann hann Unnar, og honum mun ég segja sögur af langömmu um alla ævi, enda nóg af sögum til að segja.

Ef ég loka augunum get ég farið aftur í tímann þar sem ég stend á pallinum við sumarbústaðinn Draumaland. Ég finn lyktina af nýslegnu grasi, heyri fuglasöng og suð í húsflugum, finn bragð af samlokubrauði og maltbrauði með smjöri og osti á milli, sé ömmu löðrandi í johnson's baby oil að sóla sig, hola í höggi, útvarpið í gangi, ömmuknús. Ég vona að hún sé þar núna, með afa í Draumalandi.

Sunna Björg Gunnarsdóttir.

Elsku systir og frænka.

Ég trúi því ekki að þú sért farin! Þú sem varst svo full af lífi og þrótti, þú sem slóst hvergi af þótt veik værir. Labbaðir og syntir eins og áður og alltaf tilbúin að hjálpa og aðstoða aðra, ekki síst börnin þín og fjölskyldur þeirra sem nutu góðs af allri þinni hjálpsemi og dugnaði. Þeirra missir er mikill.

En það verður ekki á allt kosið í þessu lífi. Þú greindist með krabba fyrir rúmum átta árum og þú tókst því eins og hverju öðru verkefni sem þurfti að takast á við. Við systur og mágkona í klúbbnum okkar sögðum að hann myndi ekki ná þér því þú hlypir svo hratt. En allt tekur enda, hann náði þér að lokum og nú eruð þið tvö farin úr systkinahópnum.

Ég veit að það verður vel tekið á móti þér í sumarlandinu, elsku systir.

Elsku Þóra Björg, Yngvi, Halldór og fjölskyldur, við sendum ykkar okkar dýpstu samúðarkveðjur og biðjum Guð að styrkja ykkur á þessum erfiðu tímum.

Mikið eigum við eftir að sakna þín, elsku Tobba.

Sigrún og fjölskylda.

Mitt eina blóm ...

Mitt eina blóm er blátt

það breytist ei.

Þó bjóðist vendir rauðra rósa

mín ræða er nei,

og þegar lýkur lífs míns göngu

og lúin dey

og siglir burt af dagsins djúpi

draums míns fley,

og Maríuleiði að lokum fæ

í ljúfum þey.

Í veganesti gjöf mér gef,

– eitt gleymmérei.

(Bragi Magnússon)

Með sorg í hjarta og sárum söknuði kveðjum við Tobbu vinkonu okkar.

Þórdís Vala Bragadóttir og Kristján Þráinn Benediktsson.