Sigrún fæddist í Reykjavík 24. maí 1961. Hún lést á heimili sínu 8. apríl 2020.

Foreldrar hennar voru Alda Hraunberg Kristjánsdóttir, f. 30.3. 1939, d. 26.3. 2014, og Svanur Fannberg Jóhannsson, f. 17.7. 1937, d. 11.5. 2001. Börn Svans eru Stefán Ingi og Jóhanna Harpa.

Uppeldisfaðir Sigrúnar var Ástmundur Höskuldsson, f. 19.7. 1937, d. 22.12. 2010. Alda og Ásti áttu saman Höskuld, f. 3.7. 1963. Eiginkona hans er Laor Pradprieo, f. 10.3. 1960.

Fjölskyldan flutti í Hafnarnes (Þiljuvellir í landi Gvendarness) við Fáskrúðsfjörð 1963 og svo aftur til Reykjavíkur árið 1966. Þaðan fluttu þau til Hveragerðis árið 1974.

Hinn 12.3. 1982 giftist Sigrún eiginmanni sínum, Kristjáni Sigtryggssyni, f. á Siglufirði 24.10. 1957. Foreldrar hans eru Sigtryggur Kristjánsson og Pálína Gústafsdóttir.

Sigrún og Kristján fluttu að Skeiðsfossi í Fljótum í ágúst 1981. Synir þeirra eru Sigtryggur, f. 12.12. 1981, og Daníel, f. 8.8. 1984. Eiginkona Sigtryggs er Katrín Sigmundsdóttir, f. 1986 og eiga þau saman Kristján, f. 2014, og Ólaf Orra, f. 2017.

Sigrún starfaði við ýmis störf framan af, m.a. ofnasmíði, skelfiskvinnslu, laxavinnslu, verslunarstörf, á dvalarheimili, í sláturhúsi og sá um mötuneyti. Á árunum 2000-2013 vann hún við leik- og grunnskólann á Sólgörðum. Hún hafði nánast lokið leikskólakennaranámi 2006 en þurfti frá að hverfa vegna aðgerðar sem hún var lengi að ná sér eftir. Sigrún var virkur meðlimur í Kvenfélaginu Framtíðinni frá því hún flutti í Fljótin og gjaldkeri félagsins frá árinu 2010. Hún var einnig gjaldkeri sóknarnefndar Barðskirkju í yfir 20 ár.

Útför Sigrúnar fór fram í kyrrþey 24. apríl 2020 frá Barðskirkju í Fljótum.

Þeir vita það best, hvað vetur er,

sem vorinu heitast unna.

Þessar línur úr ljóði eftir Davíð Stefánsson sá ég fyrst á eldhúsveggnum hjá hjónunum Sigrúnu og Kristjáni á Skeiðsfossi í Fljótum. Við Sigrún vorum bæði aðkomufólk í Fljótum og ekki vön fannfergi því sem þessi óvenju fagra sveit á til að bjóða upp á.

Maður lærir að meta vorið á svona stað og það kenndi Sigrún Svansdóttir mér. Sigrún var einn fyrsti Fljótamaðurinn sem ég kynntist þegar ég flutti í Fljótin og ég fékk þá tilfinningu strax að við hefðum þekkst fyrr.

Sú veizla var varla haldin í Fljótum án þess að kallað væri í Sigrúnu, en hún hafði einstakt lag á undirbúningi matar og veizluhalda.

Hjálpsöm og glaðlynd, þau orð lýsa henni bezt. Sama má segja um Kristján eiginmann hennar, en þau hjón voru ótrúlega samheldin og unnu vel saman.

Sigrún kenndi Fljótamönnum stórvirk handbrögð í heimavinnslu afurða þeirra sem sveitungar hennar framleiddu og sérstök uppskrift þeirra hjóna að heimagerðum bjúgum mætti líkja við framleiðslu Serrano-skinku á Spáni. Sigrún og Kristján unnu einmitt heitu löndunum mjög og fóru reglulega til sólarlanda, oft með starfsfélögum Kristjáns hjá Rarik.

Þó að ég hafi ekki farið með í slíka ferð heyri ég dillandi hlátur Sigrúnar í vinahópinum, en hún átti marga og góða vini. Upp úr síðustu aldamótum hófum við Sigrún saman störf við Sólgarðaskóla í Fljótum, hún sem leikskólastjóri leikskólans Bangsabæjar en ég sem leiðbeinandi við grunnskólann.

Unnum við saman til ársins 2013 þegar við létum bæði af störfum, en Bangsabæ var lokað það vor. Það var mikill samgangur milli skólastiganna og var Sigrún frábær starfsfélagi. Auk þess kenndi hún eldri börnum mínum en Katla Huld dóttir mín var síðasti nemandi Bangsabæjar ásamt frænda sínum.

Þá fengu þau oft að fara heim til Sigrúnar í stað þess að fara í leikskólann og hlökkuðu þau alltaf til þess enda Skeiðsfosshjónin afar lagin í að umgangast börn.

Við Sigrún höfðum með okkur samkomulag, hún færði mér staup og ógrynnin öll af sælgæti þegar hún kom að utan en ég gaf henni ísskápssegla frá þeim stöðum sem ég heimsótti. Sigrún var lengi í sóknarnefnd Barðskirkju og var mjög annt um kirkjurnar á Barði og á Knappsstöðum.

María kona mín vann með Sigrúnu í útibúi Kaupfélags Skagfirðinga á Ketilási í Fljótum í kringum 1990, og tíðkaðist sá siður að Sigrún bauð starfsfólkinu í skötuveizlu á Þorlák, eins og Norðlendingar kalla Þorláksmessu. Konan mín hefur farið 31 sinni í slíka veizlu og fyrst í fyrra féll niður skötuveizla sökum veðurs. Það má segja að jólin hjá okkur hafi fyrst hafist á skötuveizlunni. Auk þess stóðu þau hjón ásamt sonum þeirra að veglegri villibráðarveizlu þar sem sveitungunum var boðið til snæðings.

Eftir sérstaklega erfiðan vetur, þegar veður var loks farið að batna og daginn tekið að lengja, fengum við þær harmafregnir að Sigrún væri látin. Hvíl í friði, kæra vinkona, fjölskyldan á Molastöðum þakkar fyrir samfylgdina og vottar aðstandendum samúð sína.

Halldór Gunnar Hálfdánarson og fjölskylda, Molastöðum.