Bretar, líkt og fleiri þjóðir, styðja bækur og dagblöð með lágum sköttum

Bresk stjórnvöld hafa brugðist við skyndilegum efnahagssamdrætti með ýmsum hætti eins og margar aðrar þjóðir. Eitt af því sem gert hefur verið er að flýta lækkun virðisaukaskatts á rafbækur úr hefðbundnu þrepi, 20%, í 0%. Til stóð að þessi breyting kæmi til framkvæmda í lok ársins, en í ljósi aðstæðna var ákveðið að flýta þessari skattalækkun og samræma skattheimtu bóka í rafrænu formi og hefðbundinna bóka þegar í stað.

Annað sem bresk stjórnvöld hafa gert vegna ástandsins er að lækka virðisaukaskatt á rafútgáfu dagblaða niður í sama skattþrep og hefðbundin dagblöð eru í. Rafblöð hafa verið í 20% skattþrepi en fara nú niður í 0% skattþrepið sem bresk dagblöð hafa verið í um árabil. Víða í Evrópu eru dagblöð með 0% virðisaukaskatt eða aðra mjög lága prósentu, ólíkt því sem hér er þar sem 11% skattur er lagður á dagblöð.

Hröð viðbrögð breskra stjórnvalda til lækkunar virðisaukaskatts á ofangreindar vörur sýna að sé vilji fyrir hendi er hægt að taka slíkar ákvarðanir og hrinda þeim í framkvæmd. Sú staðreynd að Bretar búa nú við 0% virðisaukaskatt á bækur og blöð, hvort sem er á pappír eða á rafrænu formi, sýnir um leið að bresk stjórnvöld hafa ekki aðeins skilning á mikilvægi þessara miðla heldur hafa þau um leið vilja til að taka skref sem munar um svo að þeir megi þrífast.