Á fimmtudag orti Pétur Stefánsson „vísu dagsins“ á Leir: Vorsins blærinn veröld strýkur, velli nærir sólin blíð. Allur snær frá vetri víkur, vaknar kær og betri tíð. Pétur bætti síðan við: „Vorsólin skín glatt þennan daginn.

Á fimmtudag orti Pétur Stefánsson „vísu dagsins“ á Leir:

Vorsins blærinn veröld strýkur,

velli nærir sólin blíð.

Allur snær frá vetri víkur,

vaknar kær og betri tíð.

Pétur bætti síðan við: „Vorsólin skín glatt þennan daginn. Hitastigið ekki mjög hátt í morgunsárið, en það hlýnar með deginum. Vindur hægur. Snjórinn bráðnar hægt og rólega um land allt og er betri tíð í vændum.“

„Fjöllin seiða“ segir Guðmundur Arnfinnsson á Boðnarmiði:

Gæddur þori greini mátt

greikka spor til fjalla,

get nú borið höfuð hátt

heyri vorið kalla.

Hólmfríður Bjartmarsdóttir á Sandi yrkir:

Þeim verður á að vori að gá

sem veðrum góðum unna.

Gulan dúsk í gær ég sá

á grávíðirunna.

Þó vorið hér sé heldur latt

og heldur kalt, að sinni.

Birkigreinar bruma hratt

í blómavasa, inni.

Litkast bráðum landið hvítt

lifnar gleði og þor.

Sólar bros í suðri blítt

svona á að hafa vor

Afi hennar, Guðmundur á Sandi, orti „Vorgæði“:

Enn þá gerast æfintýr:

Eyjar, búnar flosi,

jarðar-kringla, himinn hýr,

hafið – öll í brosi.

Og hér er „Vorvísa“ eftir Guðmund:

Það glæðir áhuga, göfga teiti,

og gefur útþránum byr í voð:

að sjá þig, vorgyðja, suður á leiti,

og sendir héraði veisluboð.

Og viðbragð áskotnast vilja lúnum,

hann vængjar sig til að fara á kreik.

Og fíflum sóleyjar færa í túnum

þau full, að glókollar lyfta brúnum.

Sigurlín Hermannsdóttir segir: „Heimurinn spyr í ofvæni“:

Er Kim Jong-un lífs eða liðinn?

um lönd öll er spurt sem og miðin.

Var hann sendur í fegrun;

í massífa megrun

eða guðar á gullslegin hliðin?

Friðrik Steingrímsson segir að sér leiðist þessi málkækur formanns Eflingar:

Ef um laun við einhvern sem

er ekki vill sig beygja,

í þriðja hverju orði „em“

ætla ég að segja.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is