[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnhildur Þrastardóttir Þór Steinarsson Alma D. Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að ekkert benti til þess að hérlendis væru dauðsföll vantalin eins og gerst hefur erlendis.

Ragnhildur Þrastardóttir

Þór Steinarsson

Alma D. Möller landlæknir sagði á upplýsingafundi almannavarna í gær að ekkert benti til þess að hérlendis væru dauðsföll vantalin eins og gerst hefur erlendis.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir tók í sama streng, spurður hvort yfirvöld vanteldu mögulega andlát af völdum veirunnar, og sagði raunar að gengið væri úr skugga um að svo væri ekki.

„Ég tel ekki svo vera. Það hafa meira að segja verið tekin sýni frá einstaklingum sem hafa látist til að vera alveg viss um að það sé ekki covid og ég tel að það væri algjör undantekning ef svo væri.“

Heilbrigðisyfirvöld fylgjast náið með dánartíðni þessa dagana og er kórónuveiran ein af ástæðum þess.

Dauðsföllum hefur ekki fjölgað undanfarnar vikur, að sögn Ölmu. Því bendir ekkert til þess að faraldurinn hafi orðið til þess að fólk hafi ekki fengið nauðsynlega hefðbundna heilbrigðisþjónustu.

Dauðsföllum fækki frekar

Heilbrigðisyfirvöld höfðu til að byrja með áhyggjur af því að fólk myndi veigra sér við að sækja sér heilbrigðisþjónustu sem tengdist ekki faraldrinum með beinum hætti.

Dauðsföll eru frekar færri hérlendis ef eitthvað er að sögn Ölmu.

„Þetta eru lágar tölur og sveiflast á milli ára en það er ekki óhugsandi því við vitum að öðrum smitsjúkdómum hefur fækkað, við vitum að það hafa orðið færri slys og að samfélagið er allt í hægagangi. En það er afar mikilvægt að fylgjast áfram með þessu og það verður gert.“

Eitt nýtt smit kórónuveiru greindist á laugardag. Sá smitaði er búsettur á Vesturlandi og var ekki í sóttkví þegar hann greindist. Sýnið kom frá Íslenskri erfðagreiningu.

Virk smit eru nú 72 og hafa ekki verið færri síðan 9. mars. Þórólfur segir að samfélagslegt smit virðist vera í lágmarki og mikið hafi létt á heilbrigðiskerfinu enda enginn á gjörgæslu.

Áskorun að tryggja árangur

Í dag taka tilslakanir á samkomubanni og öðrum aðgerðum vegna veirunnar gildi en nú mega mest 50 manns koma saman en ekki 20 eins og áður. Þá færist skólahald aftur í eðlilegra horf og ýmis þjónusta verður heimil á nýjan leik, svo sem hársnyrting, sjúkraþjálfun, nudd og fleira. Tveggja metra reglan er þó áfram í gildi og verður hún það um ófyrirsjáanlega framtíð.

Þórólfur sagði áskorun að slaka á aðgerðum og halda smitum í lágmarki samtímis.

„Við þurfum að vera undir það búin að það geti komið bakslag og það verður ekki heimsendir þótt það gerist, við munum grípa til viðeigandi ráðstafana til að eiga við það.“

Næstu tilslakana á aðgerðum yfirvalda er að vænta eftir tvær til þrjár vikur.

Safna blóði almennings

Blóðsöfnun meðal almennings hefst eftir helgi þar sem blóði verður safnað fyrir fyrirhugaðar mælingar á mótefni við kórónuveirunni. Tilgangur söfnunarinnar er að fá góða mynd af því hversu stór hluti þjóðarinnar hefur sýkst á undanförnum vikum.

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í gær.

Hann segir að ekki verði um eiginlega vísindarannsókn að ræða heldur könnun á vegum sóttvarnalæknis sem muni hafa þýðingu við að ákvarða sóttvarnaráðstafanir í samfélaginu á næstu vikum og mánuðum.

Fyrirkomulagið verður þannig að einstaklingar sem fara í blóðprufu innan heilbrigðiskerfisins af öðrum ástæðum verða beðnir að gefa einnig blóð í þessu skyni.